05.11.1981
Sameinað þing: 14. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í B-deild Alþingistíðinda. (364)

332. mál, fjárfestingar- og lánsfjáráætlun 1982

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Eins og áður hefur komið fram hjá hæstv. ríkisstj. er það markmið hennar, sem hún stefnir enn að án þess að nokkurn bilbug sé þar á að finna, að verðbólga frá upphafi til loka þessa árs fari ekki fram yfir 40%. Ef við það markmið á að standa hefur það í för með sér að frekari breytingar á gengi krónunnar má ekki gera á þeim fáu vikum sem eftir lifa af þessu ári.

Þá hefur það einnig komið fram, að í reiknitölu fjárlagafrv. er gert ráð fyrir 33% meðalverðlagshækkun frá árinu 1981 til ársins 1982. Í forsendum frv. er reiknað með um 7% almennri verðhækkun á erlendum mörkuðum.

Ef menn lesa þetta tvennt saman bendir það til að ekki sé svigrúm á næsta ári fyrir meira en 24% verðhækkun á erlendum gjaldeyri, en aðeins á árinu í ár hefur meðalverðhækkun erlends gjaldeyris orðið 43%. M. ö. o. ríkisstj. hefur lýst því yfir, að hún mun ekki gera frekari breytingar á gengi íslensku krónunnar þær vikur sem eftir lifa af þessu ári. Það er ekki lengra en um það bil ein vika síðan hæstv. sjútvrh. upplýsti okkur um það hér á Alþingi eftir fsp. frá mér að gengisbreyting væri ekki á döfinni. Sömu yfirlýsingu gaf hæstv. forsrh. á nýloknum landsfundi Sjálfstfl., ef marka má blaðafregnir frá þeim fundi. Þá liggur enn fyrir að hæstv. ríkisstj. hefur í fjárlagafrv. sínu gert ráð fyrir að hækkun erlends gjaldmiðils á næsta ári verði aðeins helmingur þess sem hún hefur orðið á þessu ári. Nú bregður hins vegar svo við, að tvö af eftirmiðdagsblöðunum hér í Reykjavík, Vísir og Dagblaðið, skýra frá því í dag, að Seðlabanka Íslands hafi verið falin einhver undirbúningsvinna, sem blöðin kalla, að reiknuð sé út nú á vegum Seðlabankans eitthvað sem kallað er vísitala gengisaðlögunar. M. ö. o. gefa blöð þessi í skyn að Seðlabanka Íslands hafi verið falinn undirbúningur sé að breytingu íslensku krónunnar, sem væri í fyrsta lagi algjörlega þvert á það sem hæstv. forsrh. hefur marglýst yfir hér á Alþingi og formaður Framsfl. einnig, sem væri brot á yfirlýsingum ríkisstj. um verðlagsmarkmiðin á þessu ári og mundu kippa fótunum þá þegar undan fjárlagafrv. því og fjárfestingar- og lánsfjáráætlun sem við ræðum nú.

Vegna þessara blaðafregna kemst ég ekki hjá því að kalla enn á ný eftir yfirlýsingu frá hæstv. forsrh. í þessu máli. Ég spyr hæstv. ráðh. og vænti þess, að hæstv. ráðh. svari því undanbragðalaust, hvort það standi ekki örugglega enn sem hæstv. ríkisstj. hefur marglýst yfir, að hún muni ekki gera frekari breytingar á gengi íslensku krónunnar þær fáu vikur, sem eftir lifa af árinu, en þegar hafa verið gerðar. Ég reikna með því, miðað við blaðafregnir og ummæli formanns Framsfl. hér í ræðustól í gær, að ýmsir telji nauðsynlegt að hæstv. forsrh. gefi afdráttarlaust svör hér og nú við þessari spurningu. (Forsrh.: Má ég heyra fsp.?) Fyrirspurnin er: Má ekki treysta þeim orðum hæstv. ráðh. og þeim yfirlýsingum sem hæstv. forsrh. hefur þráfaldlega gefið, að staðið verði við fyrirheit ríkisstj. um að verðbólga fari ekki fram úr 40% frá upphafi til loka þessa árs, þannig m. a. að frekari breytingar á gengi íslensku krónunnar verði ekki gerðar til ársloka? (Forsrh.: Hafa ráðh. lýst því yfir?) Já. (Forsrh.: Hvenær?) Hæstv. sjútvrh. lýsti því m. a. yfir í umr. utan dagskrár um verðákvörðun á fiski nú nýverið. Þá spurðist ég sérstaklega fyrir um það, hvort líklegt væri að gengisbreyting fylgdi í kjölfarið, og hæstv. ráðh. sagði að svo væri ekki. Og eins og ég gat um áðan man ég ekki betur en ég hafi lesið það í málgagni hæstv. forsrh., Morgunblaðinu, að það hefði það eftir honum frá ræðu á landsfundi þeirra sjálfstæðismanna og flokksbræðra hans, — ég veit ekki hvort heldur það var í Sigtúni eða við hin hátíðlegu vígsluathöfn sem hæstv. ráðh. lét þau orð falla, — að gengisbreyting yrði ekki gerð.

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. forsrh., að það er ástæðulaust að halda hér langar tölur um þessa fjárfestingar- og lánsfjáráætlun því það var fjallað allverulega um hana þegar fjárlögin voru til 1. umr. nú fyrir örfáum dögum. Hins vegar kemst ég ekki hjá því að vekja athygli á því, að í margumræddum lögum, sem kennd eru við Ólaf Jóhannesson, lögum um stjórn efnahagsmála o. fl. frá 10. apríl 1979, er hæstv. ríkisstj. lögð ákveðin skylda á herðar gagnvart Alþingi. Í 2. gr. þessara laga um stjórn efnahagsmála og fleira segir m. a. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrir hvert reglulegt Alþingi skal, þegar það er saman komið, leggja til kynningar skýrslu um þjóðhagsáætlun fyrir það ár, sem í hönd fer. Í skýrslunni skal gerð grein fyrir framvindu mikilvægustu þjóðhagsstærða á því ári, sem er að líða, og horfum á hinu næsta.“

Hér ætla ég að láta staðar numið í tilvitnum örlitla stund og taka það fram, að hæstv. forsrh. hefur gegnt þeirri skyldu sinni að leggja fyrir Alþingi skýrslu um þ jóðhagsáætlun fyrir komandi ár og í skýrslunni er einnig gerð grein fyrir framvindu mikilvægustu þjóðhagsstærða og horfum á næsta ári. — En síðan heldur áfram í þessari 2. gr. laganna um stjórn efnahagsmála — með leyfi hæstv. forseta:

„Þá skal í skýrslunni greina frá þeim markmiðum, sem ríkisstj. setur sér um hagþróun á næsta ári, og helstu efnahagsráðstöfunum, sem hún hyggst beita til þess að þau náist.“ Er þá tilvitnun lokið.

Herra forseti. Ég finn ekki í þessari skýrslu neina grein gerða fyrir þeim markmiðum sem hæstv. ríkisstj. setur sér um hagþróun á næsta ári, heldur þvert á móti. Í grg. með fjárlagafrv. er sagt, að ekki megi túlka reiknitölu fjárlagafrv. sem verðbólguspá fyrir komandi ár, hins vegar muni áætlanir ríkisstj. um það verða settar fram í þjóðhagsáætlun. Þau markmið finn ég hins vegar hvergi í þjóðhagsáætluninni, og því leyfi ég mér að spyrja hæstv. forsrh.: Hvar eru þau finnanleg, þessi markmið sem Ólafslög segja að ríkisstj. eigi að leggja fram í þjóðhagsáætlun sinni? Og til viðbótar: Hvar er að finna í því plaggi frásögn um þær helstu efnahagsráðstafanir sem hæstv. ríkisstj. hyggst gera til þess að ná þeim markmiðum fram? Ég finn hana ekki heldur í áætluninni. Vænti ég þess, að hæstv. forsrh. veiti mér þessar upplýsingar, því eins og ég hef áður sagt finn ég þær því miður ekki í þjóðhagsáætlun hæstv. ráðh.

Herra forseti. Ég vakti einnig athygli á því við 1. umr. um fjárlög sem fór fram hér fyrir nokkrum dögum, að á þeim stutta tíma, sem leið frá því að fjárlagafrv. var lagt fram á Alþingi og þar til fjárfestingar- og lánsfjáráætlun varlögð fram á Alþingi hafði ríkisstj. tekið ákvörðun um að breyta ýmsum atriðum mjög verulega í fyrirætlunum þeim sem hún skýrði Alþingi frá um lánsfjárþörf opinberra aðila.

Ég vek enn athygli á því, að eins og frá fjárlögunum er gengið í frv. hæstv. fjmrh. og var sérstaklega vakin athygli á af honum í viðtali við dagblaðið Þjóðviljann þegar fjárlagafrv. var lagt fram, þá er greiðsluyfirlit ríkissjóðs í fjárlagafrv. þannig upp sett að þar gerir hæstv. ráðh. ráð fyrir að greiða meira af lánum ríkissjóðs en nemur þeim nýjum lánum sem tekin eru. Ef hins vegar er skoðuð sú lánsfjáráætlun, sem nokkrum dögum síðar var lögð fram, og þó að engin önnur breyting sé gerð á uppsetningu greiðsluyfirlits ríkissjóðs en þar kemur fram, þá er horfið frá þessu markmiði ríkisstj. Eins og nú standa sakir gerir hæstv. ríkisstj., áætlun um að taka til ríkissjóðs meiri lán en hún gerir ráð því að ríkissjóður greiði.

Þá vek ég einnig athygli á því að í fjárlagafrv, hæstv. ríkisstj. var ekki gert ráð fyrir að lántökur til B-hluta á fjárlögum, til stofnana ríkisins, ykjust nema um 90%. Á þeim fáu dögum, sem liðu frá því að fjárlagafrv. var lagt fyrir Alþingi og þangað til lánsfjáráætlun var lögð fyrir Alþingi hafði jafnvel þessi tala, sem ýmsum fannst meira en nógu há, breyst allverulega og lántökurnar hækkað samanlagt fyrir A- og B-hluta um rösk 160%, eins og hv. þm. Lárus Jónsson gat um áðan. Það var kannske jafngott að það liðu ekki nema þessir fáu dagar á milli þess, að fyrra plaggið, fjárlagafrv., kom fram og þar til það síðara, lánsfjáráætlunin, var prentuð og lögð fram á Alþingi.

Þá vek ég einnig athygli á því, sem fram kemur í fjárfestingar- og lánsfjáráætluninni, hve áætlanir hæstv. ríkisstj. á fyrri lánsfjáráætlun, sem lögð var fram og afgreidd á s. l. vori, hafa reynst rangar. Ég leyfi mér í þessu sambandi að nefna aðeins tvö atriði.

Í fyrsta lagi var mikið um það rætt í fyrra og hrósað sér mikið af því, að nú hygðist ríkisstj. og þá sérstaklega félmrh. gera stórátak í húsnæðismálum almennings á Íslandi, og var gerð áætlun í því sambandi. Sú áætlun hefur ekki staðist betur en svo, að á s. l. ári minnkuðu húsabyggingar á Íslandi allverulega frá árinu þar áður, eins og fram kemur í lánsfjáráætluninni fyrir 1982. Og þegar almennir húsbyggjendur þurfa að vega saman annars vegar hækkun, sem orðið hefur á byggingarkostnaði á þessu ári og hæstv. ríkisstj. segir sjálf að verði um 50%, og hins vegar það fjármagn, sem hæstv. ríkisstj. ætlar að skammta Byggingarsjóði ríkisins, sem vex aðeins um 24%, þá uggir mig að margir húsbyggjendur, sem eiga nú í kröggum og þurfa að sækja til Byggingarsjóðs ríkisins um fjárhagsfyrirgreiðslu, muni lenda í vandræðum.

Þá er annað dæmi sem mig langar til að vekja athygli á, hversu illa áætlanir hæstv. ríkisstj. hafi staðið, þó svo að hún hafi átt því láni að fagna, ef lán skyldi kalla, að þurfa aðeins að miða lánsfjáráætlun sína í fyrra við um það bil 8 mánuði í stað 12 mánaða eins og venjan er. Í áætluninni í fyrra var mikið um það rætt, að nú ætti að marka mjög ákveðna stefnu í fiskveiðimálum og m. a. draga mjög verulega úr fjárfestingu í fiskiskipum vegna þess, eins og hæstv. sjútvrh. þá sagði, að það næði ekki nokkurri átt að halda áfram þeirri stefnu, sem hann þó allra manna helst ber ábyrgð á, að flytja inn sýknt og heilagt fiskiskip til viðbótar við þann fiskiskipaflota sem fyrir er, þegar sá innflutningar yrði aðeins til þess að rýra kjör sjómanna og útgerðarmanna á þeim skipum sem fyrir eru.

Hæstv. ríkisstj. gerði því áætlun um að draga úr fjárfestingu í fiskiskipum á árinu 1981 um 10%. En hvað segir hæstv. forsrh. okkur nú um hvernig sú áætlun stóðst? Reyndin varð nefnilega allt önnur en áætlunin gaf tilefni til. Fjárfestingar í fiskiskipum drógust ekki saman á yfirstandandi ári um 10%, heldur þvert á móti jukust þær um 10%. Þannig reyndist áætlunin hjá hæstv. ríkisstj. standa. Svona tókst hæstv. ríkisstj. að standa í ístaðinu.

Þá vil ég einnig vek ja athygli hæstv. forsrh. á því, hvort honum, hæstv. ráðh., finnist ekki harla ólíklegt og í nokkuð mikið lagt að gera ráð fyrir að viðskiptabankar og sparisjóðir, sem eiga að fjármagna ríkissjóð og opinbera fjárfestingarlánasjóði með skyldukaupum á skuldabréfum þessara aðila, að mig minnir viðskiptabankar 4% frá ríkissjóði og 3% frá opinberum sjóðum, en sparisjóðir 6% frá ríkissjóði, — hvort ekki sé líklegt að það sé nokkuð of í lagt að ætlast til að þessar sömu lánastofnanir taki jafnframt við öllum framkvæmdaaðilum í húsnæðismálum í landinu sem Byggingarsjóður ríkisins hefur fram til þessa veitt framkvæmdalán til þess að auðvelda íbúðarhúsabyggingar fyrir almenning.

Nú segir í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun og fjárlögum að þetta eigi að stöðva, það eigi að vísa framkvæmdaaðilum, sem byggja íbúðarhúsnæði fyrir almenning, frá Byggingarsjóði ríkisins — þar eigi þeir enga lánsfjárfyrirgreiðslu að fá á næsta ári — og til bankanna. Bankarnir eiga m. ö. o. að taka á sig þessa byrði af Byggingarsjóði ríkisins. Telur hæstv. forsrh. að það sé líklegt, að á sama tíma og þetta á að gerast, bankarnir eigi að fjármagna ríkissjóð með skyldukaupum skuldabréfa, bankarnir eigi að fjármagna framkvæmdaaðila í byggingariðnaði, sem Byggingarsjóður ríkisins hefur áður gert, — að þá gangi eftir þau áform hæstv. ríkisstj. að ganga enn til sömu aðila og gera upptæki hjá þeim fjármagn til þess að verja í millifærslur til sjávarútvegsins og hugsanlega iðnaðarins einnig. Mér er nokkur forvitni á að vita hvaða skoðun t. d. hv. þm. Albert Guðmundsson hefur á möguleikum bankanna til að binda allt fjármagn sitt með þessum hætti. Og hvað telur hv. þm. Albert Guðmundsson að sé þá eftir hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum þessa lands til þess að sjá atvinnufyrirtækjum fyrir almennu rekstrarfé og jafnframt einstaklingum, fólkinu í landinu, sem verður t. d. að horfast í augu við að byggingarkostnaður hækkar um 50% þegar útlánageta Byggingarsjóðs ríkisins eykst aðeins um 24%? Hvert á þá þetta fólk að leita? Er líklegt að það geti borið niður hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum þegar ríkisvaldið situr þar fyrir, hirðir stóran hluta af fjármagni þessara stofnana fyrst í ríkissjóð, vísar síðan á þessar sömu stofnanir öllum framkvæmdaaðilum í húsnæðismálum, sem áður hafa fengið fjárhagsfyrirgreiðslu hjá Byggingarsjóði, og ætlar svo að taka þær upphæðir, sem þá kunna að vera eftir, ef einhverjar eru, til þess að millifæra yfir í sjávarútveg og hugsanlega yfir í iðnað.

Ég leyfi mér einnig að vekja athygli hæstv. forsrh. á því, að um helming allrar innlendrar lánsfjáröflunar, eins og gert er ráð fyrir að hún sé í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, á að taka úr lífeyrissjóðum landsmanna. Það á að hækka skyldukaup lífeyrissjóðanna úr því að þeir verji 40% af ráðstöfunarfé sínu til þess að kaupa verðtryggð skuldabréf frá ríkissjóði og opinberum sjóðum, upp í að þeir verji 45% af handbæru fé sínu í þessu skyni. Og það sem meira er: Það er ekki aðeins ætlast til þess, að um þetta sé rætt við lífeyrissjóðina og vilji þeirra kannaður, heldur er búið að ráðstafa þessu fé öllu í lánsfjáráætlun og í fjárlögum. Það er búið að eyða því fé öllu sem hæstv. fjmrh. ræðir um að hann ætli að hefja viðræður við lífeyrissjóðina um hvort þeir treysti sér til að kaupa. Ég spyr hæstv. forsrh. þess vegna: Mun hann með atkvæði sínu og áhrifum í ríkisstj. stuðla að því, að lífeyrissjóðir fólksins í landinu verði þvingaðir með lögum til þess að láta af heldi 45% af ráðstöfunarfé sínu ef ekki nást um það frjálsir samningar við lífeyrissjóðina? Ætlar hæstv. forsrh. sér ekki að þvinga slíka niðurstöðu fram með lögum, hvaða breytingar hyggst hann þá gera á fjárfestingar- og lánsfjáráætlun og fjárlagafrv. hæstv. ríkisstj. ef samkomulag næst ekki um þetta við lífeyrissjóðina?

Má ég aðeins vekja athygli hæstv. forsrh. á þeirri staðreynd, að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins hefur þurft að tilkynna fólkinu sem greiðir iðgjöld til sjóðsins og á þar réttindi, að sjóðurinn geti ekki sinnt þeim umsóknum sem fyrir liggja um lánveitingar frá sjóðfélögum eins og sjóðurinn hafði þó tilkynnt að hann mundi geta gert. Sjóðurinn hefur orðið að draga til baka vilyrði um lánveitingar til ríkisstarfsmanna sem eiga lánarétt í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Þykir hæstv. forsrh. líklegt að lausnin á þeim vanda sé að setja lóg til að þvinga þennan lífeyrissjóð til að auka skyldukaup sín hjá ríkinu og stofnunum þess úr 40% af ráðstöfunarfé sjóðsins upp í 45% af ráðstöfunarfé? Hvað á þá að verða um það fólk sem borgað hefur iðgjöld til þessa lífeyrissjóðs, sem lagt hefur fram gildar umsóknir til sjóðsins um lán til húsnæðiskaupa eða til íbúðarhúsbygginga, sem veit að það á rétt til þess að fá slíka fyrirgreiðslu, en verður að víkja fyrir hæstv. forsrh. og félögum hans í ríkisstj. sem setja lög á sjóðinn og segja að það skipti engu máli þó að fólk, sem í þennan sjóð hefur borgað, hafi unnið sér lánaréttindi, þeir ætli að koma þar á undan, þeir ætli að öðlast þar forgang umfram þetta fólk? Hvar á þetta fólk þá að bera niður, hæstv. forsrh.?

Þá vil ég enn spyrja hæstv. ráðh. Á bls. 9 í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun eru setningar sem mér er ekki ljóst hvað þýða. Setningarnar hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta: „Sem erlend lán fjárfestingarlánasjóða eru hér aðeins sýnd þau sem taka skal að opinberu frumkvæði til þarfa Framkvæmdasjóðs og Iðnþróunarsjóðs, en ekki lán til innlendrar skipasmíði og vegna innfluttra fiskiskipa, sem veitt eru einkaaðilum fyrir milligöngu viðskiptabanka, enda þótt Fiskveiðasjóður ábyrgist þau og yfirtaki með tímanum. — Lánsfjáröflun hins opinbera í þeim skilningi, sem hér um ræðir, verður 2599 millj. kr.“ o. s. frv. eins og þar segir.

Ég verð nú að segja eins og er, hæstv. forseti, að ég fæ ekki skilið hvað hér er við átt. Er hér um að ræða að aðeins sé verið, eins og má ætla af þessum setningum, að sýna í lánsfjáráætlun hluta af þeim erlendu lánum sem fjárfestingarlánasjóðum er ætlað að taka? Er hér um að ræða einhverja breytingu á uppsetningu hvað þetta varðar frá því sem áður er? Það mætti ætla eins og frá þessu er sagt. Ég óska þess að sjálfsögðu að svo sé ekki, en vil fá skýringu hjá hæstv. forsrh. á þessum setningum.

Að lokum vil ég aðeins vekja athygli hv. þm. og hæstv. ráðh. á því, að á bls. 17 er tafla um fjárfestingarlánasjóði, útlán þeirra og fjármögnun á árunum 1981 og 1982. Þar er m. a. tafla um fjármögnun fjárfestingarlánasjóðanna, og ég vek athygli manna sérstaklega á því þar sem hæstv. ríkisstj. segir, bæði í fjárfestingaráætluninni og í grg. fjárlagafrv., að aukinn sparnaður innanlands geri það að verkum, að unnt sé nú að skera niður framlög ríkisins til fjárfestingarlánasjóða meira en áður hefur verið gert vegna þess að sjóðirnir geti bætt sér það upp með meiri eigin tekjum. Ég vek athygli á því, að taflan á bls. 17 í lánsfjáráætluninni leiðir þveröfug sannindi í ljós. Hún leiðir það í ljós, að á árinu 1981 hafa fjárfestingarlánasjóðirnir orðið að bæta sér upp þennan missi með aukinni erlendri lántöku. Ber þar allt að sama brunni. Einnig þessir lánasjóðir verða að sækja fé sitt í erlenda banka til þess að geta sinnt þeim skyldum sem hæstv. ríkisstj. leggur þeim á herðar. Þær upplýsingar, sem þar koma fram, stangast á við þær upplýsingar, sem hæstv. ríkisstj. gefur Alþingi annars staðar í þessari skýrslu og hún réttlætir sem ástæðu þess, að óhætt sé að skera niður framlög ríkisins til fjárfestingarlánasjóðanna meira en gert hefur verið.

Að lokum, herra forseti, langar mig til að beina þeirri spurningu til hæstv. forsrh., hvort hann geti upplýst okkur þm. um hvaða opinberar stofnanir það séu í landinu sem verða að standa undir almennum rekstrarútgjöldum sínum með erlendum lánum, hversu há þessi lán séu orðin hjá hverri og einni stofnun og hvernig hæstv. ríkisstj. geri ráð fyrir að þessar stofnanir geti endurgreitt þessi erlendu lán sem þeim er ætlað að taka til þess eins að geta greitt almenn rekstrarútgjöld og rekstrarkostnað við starfsemi sína.