05.11.1981
Sameinað þing: 14. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í B-deild Alþingistíðinda. (365)

332. mál, fjárfestingar- og lánsfjáráætlun 1982

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að segja hér mörg orð við umr. um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1982 þar sem ég ræddi þessi mál allítarlega við 1. umr. um fjárlög og hef þar litlu við að bæta. Auk þess var ég tepptur á fundi hér frammi við upphaf þessarar umr. og hef því ekki getað fylgst með henni frá byrjun. En skömmu eftir að ég gekk í salinn heyrði ég fjarstæður nokkrar sem mér fannst óhjákvæmilegt að svara hér, enda ekki tækifæri til á sínum tíma að ræða þær við afgreiðslu fjárlaga. Er af mörgu að taka því hér hefur margt furðulegt komið fram.

Ég vil t. d. leyfa mér að fullyrða og segja það hreinskilnislega, að áreiðanlega hefur engum ráðh. dottið í hug, hvorki fyrr né síðar, að lýsa yfir að gengi krónunnar yrði ekki hreyft framar. Auðvitað hefur enginn lýst því yfir og það er ekkert annað en skröksaga að slík yfirlýsing hafi verið gefin hér af einum eða neinum ráðh. En nóg um það.

Ég ætlaði að minnast á erlendu lánin sem voru gerð að umtalsefni áðan. Ég sé að í Morgunblaðinu er slegið upp sem rosatíðindum að lán til A- og B-hluta fjárlaga, erlend lán, vaxi um 134%, þetta sé í raun og veru sú eina tala í sambandi við erlend lán sem standi upp úr og eigi að vekja athygli fólksins. Þarna er auðvitað um nokkra sjónhverfingu að ræða, sem er bráðnauðsynlegt að bæði þm. og allur almenningur átti sig á. Hvernig stendur á því, að hægt er að finna í þessu plaggi þessa háu prósentutölu, sem vissulega er hér að finna, 134%, en á sér mjög augljósar og eðlilegar skýringar? Skýringin er ósköp einfaldlega sú, að fram að þessu hafa erlend lán til orkuframkvæmda, til byggingar raforkumannvirkja, verið tekin af fyrirtækjum með eignaraðild ríkissjóðs, Landsvirkjun og Laxárvirkjun. En í þeirri lánsfjáráætlun, sem nú liggur fyrir, er það ríkið sjálft sem tekur þessi lán og endurlánar þau væntanlegum virkjunaraðila sem ekki hafa verið enn teknar ákvarðanir um. Af þessari ástæðu, er ákaflega lítil hækkun á prósentutölu erlendra lána hjá fyrirtækjum með eignaraðild ríkissjóðs. Þau voru á árinu 1981 505 millj., en verða á árinu 1982 509 millj., sem sagt nær óbreytt upphæð. Aftur á móti hækka að sjálfsögðu A- og B-hluti fjárlaga þeim mun meira.

Ef þessar tvær tölur eru lagðar saman, þ .e. A- og B-hluti fjárlaga og fyrirtæki með eignaraðild ríkissjóðs, en þetta má sjá á bls. 20 í lánsfjáráætlun, þá sjá menn að á árinu 1981 er heildarupphæðin í erlendum lántökum 803 millj., en verður á næsta ári 1205. Hækkunin er 50%. Þá er komin prósentutala sem er sambærileg frá ári til árs. Hin talan er auðvitað algjörlega út í bláinn, því ekki er verið að bera saman sambærilega hluti.

Ég vil bæta því við, að erlendu lántökurnar eru vissulega miklar og eiga sér ýmsar skýringar, m. a. að verið er að fara út í stórfelldan undirbúning nýrra virkjana á fleiri en einum stað á landinu og til þess þarf að afla töluvert mikils fjár. Ég veit ekki betur en að allir hv. þm. séu sammála um að út í þessar virkjunarframkvæmdir skuli farið og að sjálfsögðu verði ekki aflað fjár til þess öðruvísi en að taka til þess erlend lán. Fleira kemur hér til, eins og t. d. að ákveðið hefur verið að gera stórfellt átak í sambandi við lagningu sjálfvirks síma. Það er samkv. lögum frá Alþingi sem allir hv. alþm. hafa staðið að, og auðvitað verður að útvega fé í þessu skyni. Prósentutalan fer upp í 50% þarna á milli ára þegar um er að ræða A- og B-hluta fjárlaga og fyrirtæki með eignaraðild ríkissjóðs. En að tala um 134% í þessu sambandi er auðvitað hrein fjarstæða og sjónhverfingar sem ekki eiga að eiga sér stað hér á hv. Alþingi.

Ég vek líka athygli á því, að ef menn líta á heildardæmið, þ. e. erlendar lántökur á árinu 1982, eins og sjá má á bls. 20 í lánsfjáráætlun, þá er hækkunin milli ára, þegar á heildina er litið, þegar litið er á allar erlendu lántökurnar, ekki nema 19%. Erlendar lántökur nema tæpum 1735 millj. á árinu 1981, en verða 2070 millj. á árinu 1982, hækkun 19%. Það er ekki mikil hækkun milli ára þegar reiknitala fjárlaga og lánsfjáráætlunar er miðuð við 33%, það sjá allir. Allt þetta tal um hina gífurlegu hækkun á erlendum lántökum byggist því á sjónhverfingum og engu öðru.

Ég vil svo í öðru lagi svara fsp. sem að vísu var beint til forsrh. Mér er ljóst að menn geta villst á orðalagi og vil taka ábyrgð á orðalaginu á bls. 9 þar sem segir: „sem erlend lán fjárfestingarlánasjóða eru hér aðeins sýnd þau sem taka skal að opinberu frumkvæði til þarfa Framkvæmdasjóðs og Iðnþróunarsjóðs, en ekki lán til innlendrar skipasmíði og vegna innfluttra fiskiskipa, sem veitt eru einkaaðilum fyrir milligöngu viðskiptabanka, enda þótt Fiskveiðasjóður ábyrgist þau og yfirtaki með tímanum.“ Ég tek fulla ábyrgð á þessu orðalagi og vil gefa á því skýringu og svara því hér í leiðinni. Þetta er nákvæmlega eins og það hefur alltaf verið. Það er enginn munur nú frá því sem verið hefur, að í lánsfjáráætlun eru eingöngu tiltekin lán sem hið opinbera tekur og lánar beint til Iðnþróunarsjóðs og til Fiskveiðasjóðs, en þessar lántökur, sem hér er verið að nefna, koma fram á bls. 20, neðarlega í upptalningunni, undir liðunum: fiskiskip, önnur skip, endurbætur á skipum, innlend skipasmíði, endurbætur unnar innanlands. — Það eru sem sagt fimm liðir sem þessar lántökur geta fallið undir, en þar sem þarna er að forminu til um að ræða lántökur á vegum einkaaðila, en ekki lántökur á vegum opinberra stofnfjársjóða, eru þær neðar í upptalningunni. Það er að þessu sem málsgr. á bls. 9 lýtur.

Ég vænti þess, að þetta gefi fullnægjandi skýringu og sé fullnægjandi svar við athugasemd fyrirspyrjanda.