23.04.1982
Efri deild: 69. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4081 í B-deild Alþingistíðinda. (3660)

216. mál, ábúðarlög

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta um breytingu á ábúðarlögum, nr. 64 21. maí 1976, er ekki mikið að vöxtum og einfalt að allri gerð. Það á rætur að rekja til þess, að við afgreiðslu kjarasamninga í okt. 1980 lýsti ríkisstj. yfir að hún mundi beita sér fyrir því, að skipuð yrði þriggja manna nefnd fulltrúa Alþýðusambands Íslands, bændasamtakanna og landbrn. til þess að endurskoða ábúðar- og jarðalög með tilliti til hagsmuna orlofsbyggða verkalýðsfélaga. Þessi nefnd, sem raunar varð fimm manna nefnd, var skipuð með bréfi dags. 14. jan. 1981. Í henni áttu sæti Jónas Jónsson búnaðarmálastjóri og Árni Jónasson erindreki, tilnefndir af bændasamtökunum, Jóhannes Siggeirsson hagfræðingur, tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands, Arnmundur Backman aðstoðarmaður félmrh., tilnefndur af félmrn., og Sveinbjörn Dagfinnsson ráðuneytisstjóri í landbrn. sem jafnframt var skipaður formaður nefndarinnar.

Nefndin varð sammála um niðurstöður sínar og lagði til að gerð yrði sú breyting á ábúðarlögum sem birtist með þessu frv. og hlotið hefur afgreiðslu hv. Nd. Sú breyting felur það í sér, að jarðanefnd geti undanþegið stéttarfélög byggingarskyldu á jörð ef jörðin er vel fallin til útivistar og orlofsheimili félagsmanna eru þar starfrækt eða áformuð.

Aðrar breytingar á ábúðarlögum er ekki gert ráð fyrir að gerðar verði samkvæmt þessu frv. Ég legg á það nokkra áherslu að um frv. varð samkomulag þeirra aðila sem að undirbúningi málsins unnu. Breytingar á ábúðarlögum, þ. á m. frekari rýmkun á byggingarskyldu á jörðum, eru nokkuð vandasamar og viðkvæmar og ég legg nokkuð upp úr því, ef hv. deild telur sér fært að afgreiða frv., að ekki verði gerðar á því breytingar sem ætla má að muni vekja deilur.

Að þessum orðum mæltum sé ég ekki ástæðu til að láta fleiri orð falla um þetta einfalda frv. Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr: vísað til 2. umr. og hv. landbn.