23.04.1982
Efri deild: 69. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4088 í B-deild Alþingistíðinda. (3671)

166. mál, veiting ríkisborgararéttar

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100 frá 23. des. 1952. Frv. þetta var lagt fyrir hv. Nd. og er komið þaðan nær alveg óbreytt frá því sem það var í upphafi. Ég mun nú gera stutta grein fyrir frv.

Í samræmi við breytingar á löggjöf annarra Norðurlanda um ríkisborgararétt, sem lögfestar hafa verið á árunum 1978 og 1979, fjallar frv. þetta um samsvarandi breytingar á lögum um íslenskan ríkisborgararétt. Núgildandi lög, sem sett voru 1952, voru að aðalefni til algerlega samhljóða þá nýlega settri löggjöf skandinavísku landanna. Íslensku lögunum hefur ekki verið breytt síðan. Breytingar þær, sem nú hafa verið gerðar á löggjöf hinna Norðurlandanna, snerta fyrst og fremst ríkisfang barna í svokölluðum blönduðum hjónaböndum, þ.e. að bæta átti úr því, að börn, sem eiga erlendan föður en innlenda móður, fengu ekki samkvæmt fyrri lagaákvæðum innlent ríkisfang við fæðingu svo sem enn er hér á landi. Jafnframt er lagabreytingunni ætlað að koma á jafnstöðu karla og kvenna um að börn þeirra leiði ríkisfang jafnt af ríkisfangi móður sem föður. Samþykktir um það efni, sem hér að framan er rakið, voru gerðar með ýmsum hætti af Norðurlandaráði 1970 og af Evrópuráði 1973 og 1977. Höfuðatriði hinna nýju ákvæða eru þessi:

Eftir gildistöku frv., ef að lögum verður, kemst á jafnstaða með körlum og konum í því efni, að börn giftra foreldra leiða ríkisfang sitt jafnt frá móður og föður. Segja má að þetta atriði hafi verið helsta kveikjan að gerð lagafrv.

Jafnframt leiðir gildistökuákvæði í frv., um afturvirkni framangreindrar reglu í afmarkaðan tíma, til þess að börn íslenskrar móður, sem eru fædd á síðustu 18 árum fyrir gildistöku laganna, fá íslenskt ríkisfang ef hún gefur skriflega yfirlýsingu um þá ósk innan tiltekins tíma. Auk þess að gefa framangreindri reglu afturvirkni er þetta ákvæði til þess fallið í sumum tilfellum að börn íslenskrar móður, sem ekki eiga ríkisfang með henni en e.t.v. fjarlægt ríkisfang föður síns; geti með eðlilegum hætti notið ríkisfangs í heimalandi sínu. Þannig mun hafa háttað til um allmikinn fjölda barna á öðrum Norðurlöndum og þar mun þessi regla væntanlega teljast annar höfuðtilgangur frv. Þessa eru trúlega mun færri dæmi hér á landi.

Í þriðja lagi má nefna að tekin er upp reglan eftir fyrirmynd dönsku laganna um heimild ættleiðenda til að lýsa ættleitt erlent barn undir sjö ára aldri íslenskan ríkisborgara.

Í fjórða lagi er tekin upp í frv. sú lagaregla sem önnur Norðurlönd tóku upp 1968 samkv. tilmælum í alþjóðasamningi um að draga úr ríkisfangsleysi með þeim tilteknu löggjafarráðstöfunum.

Loks er tekin inn í frv. sú lagaregla, sem ekki var tekin upp hér á landi 1952, en gilt hefur milli Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar frá 1950, að dvöl í einhverju hinna ríkjanna jafngildi með ákveðnum hætti dvöl í heimalandi þegar öflun ríkisfangs er annars vegar.

Í örstuttu máli má segja að frv. þetta er flutt til þess að breyta löggjöfinni frá 1952 til samræmis við gildandi rétt hinna Norðurlandanna.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um frv. á þessu stigi, en legg til að því verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.