23.04.1982
Efri deild: 69. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4094 í B-deild Alþingistíðinda. (3676)

296. mál, loðdýrarækt

Egill Jónsson:

Herra forseti. Það er mér að sjálfsögðu mikill heiður að vera meðflm. að þessu frv. ásamt þeim heiðursmönnum sem þar eru aðrir flm. Þannig stóð á sama daginn og hv. frsm., 1. flm. þessa frv., hafði samband við mig um flutning þess, að ég hafði nánast útbúið frv. í framhaldi af því frv. sem ég lýsti hér áðari; um breytingu á tollskrá, frv. um tollalög, með það fyrir augum að fella niður aðflutningsgjöld af þeim vörum sem sérstaklega tilheyra loðdýrarækt.

Út af fyrir sig er hægt að fara tvær leiðir í þeim efnum. Annars vegar þá, sem frv. gerir ráð fyrir, og hins vegar að breyta tollskrá. Það, sem veldur á vissan hátt erfiðleikum í þeim efnum, er að sumt af þeim vörum, sem þessar búgreinar nota, er einnig til nota á öðrum sviðum í viðskiptalífinu. Þarf þá að fara þá leið, sem þarna er gert ráð fyrir, að fá endurgreiðslur. Þetta er í rauninni nokkuð flókið mál og ég er satt að segja nokkuð efins í að þessi leið sé fær. Aftur á móti eru sumar vörur, sem fluttar eru inn vegna loðdýraræktarinnar, alveg aðgreindar. Má þar nefna t.d. búrin og girðingarnetin sem til þessara þarfa eru. Þar af leiðandi er á vissan hátt hægt að gera breytingar í sambandi við tollskrá sem mundu stórbæta aðstöðu þessara auka- eða nýbúgreina. En nóg um það.

Það, sem skiptir hér miklu meira máli og þá sérstaklega með tilliti til þess, að Alþingi sígur nú svo mjög til enda, er sú viðurkenning sem kemur fram með flutningi þessa máls.

Ég get ekki varist því að minnast hér aðeins á hagræðingarféð í landbúnaði. Það er sannarlega með mjúkum orðum sem frsm. þessa frv. hefur farið hér um það mál. Það er gott til þess að vita ef framsóknarmenn eru að komast að því, að þau fyrirheit, sem formaður þess flokks gaf árið 1979 og samdi um við bændasamtökin, hafa verið svo að segja alveg gjörsamlega svikin.

Formaður Framsfl. sagði í ræðu á miðstjórnarfundi þess flokks, að það væri illt til þess að vita að við þetta hefði ekki verið staðið. Síðan sú ræða var flutt hefur verið haldið áfram á þessari sömu braut. Það litla, sem var ætlað til þessa máls í fjárlögum, hefur nú nánast verið algjörlega afmáð. Þeir heiðursmenn úr Framsfl., sem heyra mál mitt, geta því borið formanni sínum þau tíðindi, að hann hafi nú efni í ræðu á næsta miðstjórnarfund, þar sem hann getur talað um áframhaldandi niðurskurð á hagræðingarfénu, áframhaldandi svik á þeim loforðum sem hann sjálfur gaf bændunum í landinu árið 1979. Það er óhjákvæmilegt, þegar fjallað er um þessi mál, að minna á þetta, jafnmiklar vonir sem við þetta voru bundnar. Það skal tekið fram og það liggur fyrir skjalfest, að auðvitað gerði ég mér ljóst og margir aðrir sjálfstæðismenn að þetta yrði svikið, eins og raun sannar nú.

Það er kannske líka með tilliti til þessarar reynslu að velviljaðir menn, eins og hv. frsm., velviljaðir menn í garð bændastéttarinnar í landinu eru farnir að þreifa fyrir sér með nýjar leiðir. Samkomulagi við ríkisvaldið er ekki að treysta. Af því hafa menn reynslu, ekki einungis á þessu sviði, heldur mörgum öðrum. Það getur vel verið og ég vona að það gefist tími til þess, áður en þessu Alþingi lýkur, að ræða þá þætti mála nánar.