23.04.1982
Efri deild: 69. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4095 í B-deild Alþingistíðinda. (3678)

290. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Þetta frv. felur í sér nokkrar allveigamiklar breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins og er gerð grein fyrir þeim breytingum í grg. frv. Þar kemur fram að húsnæðismálastjórn hefur á undanförnum misserum farið yfir lög um Húsnæðisstofnun ríkisins og reynslu þá sem fengist hefur af lögunum. Hún hefur orðið sammála um að gera nokkrar brtt. við lögin og er gerð grein fyrir þeim helstu á bls. 7, 8 og 9 í athugasemdum við lagafrv. þetta.

Fyrsta breytingin kemur fram strax í 1. gr. Þar er tekið inn ákvæði þess efnis, að framlag ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins á næsta ári skuli vera tvöfalt hærra að verðgildi en framlagið á fjárlögum ársins 1982 eftir að sett hafa verið sérstök lög um aukna fjáröflun til Byggingarsjóðs ríkisins. Hér væri um að ræða hækkun sem næmi 50–60 millj. kr. á verðlagi fjárlaga ársins 1982. Þetta ákvæði byggist á því, að í haust verði lagt fyrir Alþingi frv. sem tryggi Byggingarsjóði ríkisins þann tekjustofn sem þarf til að standa undir þessum útgjöldum, og samsvara tekjur Byggingarsjóðs ríkisins þá, að samþykktum slíkum lögum, þeim tekjum sem koma af 1% launaskatti.

Í þeim tillögum, sem húsnæðismálastjórn gerði til mín, var gert ráð fyrir að tekjur af 1% launaskatti rynnu beint í Byggingarsjóð ríkisins. Miðað við það fyrirkomulag, sem nú er á þessum málum, hefði þetta haft í för með sér að tekjur ríkissjóðs hefðu lækkað frá því sem ella væri um nokkra tugi milljóna nýkróna. Ríkisstj. telur að ekki sé unnt að taka ákvörðun um slíka skerðingu á stöðu ríkissjóðs nema jafnhliða sé tekin ákvörðun um aðrar tekjur í staðinn. Þessi afstaða ríkisstj. byggist á sömu forsendum og sú afstaða sem stuðningsmenn stjórnarinnar hafa tekið á Alþingi í vetur þegar fluttar hafa verið tillögur um útgjöld til Byggingarsjóðs ríkisins, útgjöld sem áttu að koma út í hallarekstri ríkissjóðs, að þær tillögur hafa jafnan verið felldar vegna þess að ríkisstj. hefur ekki verið reiðubúin til þess að stuðla að hallarekstri ríkissjóðs í tengslum við þau mál sem hér er um að ræða.

Varðandi þetta fyrsta og stærsta ákvæði í frv. vil ég enn fremur segja það, að vorið 1980, þegar lögin um Byggingarsjóð ríkisins, Byggingarsjóð verkamanna og Húsnæðisstofnun ríkisins voru til meðferðar, var ríkisstj. legið mjög á hálsi fyrir það, að með þessum lögum væri hún að tefla fjárhag sjóðanna og Húsnæðisstofnunarinnar mjög í tvísýnu. Í umræðum um málið á Alþingi þá um vorið kom það strax fram, að ég taldi að ljóst væri að sæmilega væri séð fyrir hlut Byggingarsjóðs ríkisins á árunum 1980 og 1981, það gæti orðið nokkuð erfitt á árinu 1982 og alla vega væri ljóst að á því ári yrði að gera sérstakar ráðstafanir til þess að Byggingarsjóður ríkisins gæti sinnt hlutverki sínu, m.a. tekið upp þá nýju lánaflokka, sem um er að ræða, á árinu 1983. Þarf því engum að koma á óvart þó að það sé stefnuákvörðun ríkisstj., sem kemur fram í 1. gr. þessa frv., að auka beinar tekjur Byggingarsjóðs ríkisins. Það er nauðsynlegt að gera. Þar er ekki verið að viðurkenna neinar nýjar staðreyndir, eins og ætla mætti af málflutningi sumra hv. stjórnarandstæðinga, heldur er hér eingöngu um það að ræða, að ríkisstj. er að standa við þær yfirlýsingar sem gefnar voru þegar lögin voru samþykkt vorið 1980.

Ég mun hér á eftir fara nokkru nánar yfir fjárhag Byggingarsjóðs ríkisins og lánsfjárhæðir í einstökum atriðum, en ætla að halda áfram nú að gera grein fyrir frv. sem slíku.

Önnur brtt. frv. gerir ráð fyrir því, að lögð verði sérstök áhersla á að greiða fyrir byggingu leiguíbúða. Lagt er til að það verði gert með þeim hætti að fella niður það bann sem jafnan hefur verið í lögum við því að veita einstaklingum, sem eiga íbúð, lán til að byggja leiguíbúðir. Eftir að öll lán hafa verið verðtryggð er ekki talin ástæða til að neita þeim um lán til nýbygginga sem vilja leggja fjármagn í nýbyggingar. Sama gildir þá um fyrirtæki sem vilja byggja leiguíbúðir fyrir starfsfólk sitt. Tilgangurinn með þessari breytingu er að örva byggingar leiguíbúða fyrir almennan markað og afnema úreltar hömlur úr lögunum.

Þriðja meginbrtt. frv. gerir ráð fyrir því að koma til móts við þann mikla áhuga og þá miklu þörf sem er fyrir byggingu íbúða og vistheimila fyrir aldrað fólk, en þessi áhugi hefur farið mjög vaxandi á undanförnum árum. Þrátt fyrir stórauknar fjárveitingar til þessara mála vantar enn mjög mikið á að þörfinni sé fullnægt. Sérstaklega eru sveitarfélög, sem í slíkum byggingum standa, í miklum vanda með að fjármagna þær. Þess vegna er lagt til í frv. að heimila einnig stofnunum, sem byggja íbúðir og vistheimili fyrir aldraða, að selja skuldabréf þeim einstaklingum sem með kaupum á skuldabréfum vilja tryggja sér rétt til íbúðar eða vistar á dvalarheimili. Vegna þeirra, sem ekki eiga fjármagn, eru hins vegar settar skorður, að ekki má ráðstafa nema helmingi íbúðanna gegn sölu skuldabréfa nema með sérstöku leyfi húsnæðismálastjórnar. Á það ákvæði að tryggja rétt þeirra sem ekki eiga fjármagn til kaupa á skuldabréfum.

Hér held ég að um sé að ræða mjög merkilegt ákvæði sem í rauninni geti losað um talsvert fjármagn sem fólk er með hugsanlega handa á milli og vill gjarnan verja til þess að tryggja sér sæmilega íbúð en minni íbúð á efri árum.

Fjórða meginbrtt. frv. gerir ráð fyrir nokkurri breytingu varðandi hlutfall lána. Í 35. gr. gildandi laga er ákveðið að allir skuli fá lánað sama hlutfall af byggingarkostnaði staðalíbúðar miðað við fjölskyldustærð. Með frv. er lagt til að heimila að lána hærra hlutfall til þeirra sem enga íbúð eiga og hafa ekki átt íbúð á s.l. tveimur árum.

Fimmta brtt. frv. er ein sú stærsta og í rauninni sú sem vafalaust vekur einna mesta athygli því að hún snertir kaupskylduákvæði núgildandi laga.

Kaupskylda á íbúðum í verkamannabústöðum, sem koma til endursölu, hefur vakið nokkrar umræður meðal sveitarstjórnarmanna og sætt nokkurri gagnrýni við framkvæmd laganna. Kaupskyldan var sett á sveitarfélögin vegna þess að íbúðir í verkamannabústöðum voru á nokkrum stöðum seldar hæstbjóðanda og lög og reglugerðir voru virt að vettugi að talið var. Í þessu frv. er lagt til að kaupskyldan nái ekki til eldri verkamannabústaða og aðeins til þeirra íbúða sem byggðar eru samkvæmt lögum nr. 51/1980. Þá er kaupskyldutími á nýrri íbúðum einnig styttur úr 30 árum í 15 ár. Með þessu ákvæði er komið til móts við óskir sveitarstjórnarmanna í landinu, en í tillögum húsnæðismálastjórnar, sem ég gerði grein fyrir í upphafi ræðu minnar, var gert ráð fyrir að kaupskyldan yrði almennt stytt úr 30 í 15 ár. Í þessu frv., eins og það er nú flutt af ríkisstj., er gengið nokkru lengra lengra en húsnæðismálastjórn gerði tillögur um, og er það í samræmi við óskir frá samtökum sveitarstjórnarmanna. Í stað kaupskyldu á eldri verkamannabústöðum er í frv. gert ráð fyrir forkaupsrétti, eins og fram kemur í texta þessum.

Sjötta brtt., sem ég vil hér gera grein fyrir, er um breytingar á reglum um framreikning á verði íbúða í verkamannabústöðum og matsgerðir við eigendaskipti. Það er gert ráð fyrir því í frv., að reglur um þetta verði gerðar fyllri og skýrari en verið hefur. Mikilvægasta breytingin er að hætta að láta eigendur íbúðanna öðlast verulega aukinn rétt aðeins við 10 eða 20 ára eignarhald á íbúðunum. Í stað þess er með frv. lagt til að þeir, sem eiga íbúð í verkamannabústað, eignist tiltekinn rétt til eignarauka fyrir hvert ár sem þeir hafa átt íbúðina. Er þar um verulega réttarbót að ræða fyrir þá sem þurfa að selja íbúð sína áður en þeir hafi átt hana í 10 ár samtals.

Sjöundi þátturinn, sem ég vil nefna í þessu frv., snertir skyldusparnað ungmenna sem var fyrst settur í lög árið 1957 og hefur síðan lengst af verið einn helsti tekjustofn Byggingarsjóðs ríkisins.

Með breytingum, sem orðið hafa á ávöxtun sparifjár, var þess hins vegar ekki gætt lengi vel að bæta sem skyldi ávöxtun þessa fjár unga fólksins. Þess vegna fór það svo að þessi tekjustofn Byggingarsjóðs ríkisins féll mjög verulega. Þrátt fyrir stórlega bætta ávöxtun skyldusparnaðarins, sem er nú sennilega eitt besta sparnaðarform sem völ er á, gefur langmestar tekjur eins og sakir standa, vegna þess að hér er ekki einasta um að ræða góð kjör og verðtryggð með vöxtum, heldur er hér einnig um að ræða skattfrjálst sparifé, þannig að ég hygg að hér sé um að ræða hagstæðasta sparnaðarform sem til er, — en þrátt fyrir þetta er greinilegt að þessi tekjustofn skilar ekki þeim tekjum til Byggingarsjóðs ríkisins sem ætlast er til. Þess vegna er ekki um annað að ræða fyrir húsnæðismálastjórn og félmrn. en að leggja til annað tveggja, að þessi sparnaður verði fluttur eitthvað annað í okkar almenna sparnaðarkerfi vegna þess að hann kemur ekki húsnæðiskerfinu að notum, eða þá að leggja til að endurbæta lögin mjög verulega þannig að skyldusparnaðurinn fari aftur að gegna hlutverki sínu. Með frv. er lögð til veruleg breyting á innheimtukerfi skyldusparnaðar og að settar verði fastari reglur um endurgreiðslu á því sem kemur inn í Byggingarsjóð ríkisins.

Áttunda meginbrtt. frv. er sú, að komið er til móts við sjónarmið sem nefnd um málefni aldraðra kom á framfæri við ríkisstj. Kemur þetta fram í 7. gr. frv. Þar er gert ráð fyrir því, að ef lántaki er 70 ára eða eldri og fjárhag hans þannig varið að sýnt þyki að hann fái ekki staðið undir afborgunum af láni, sé heimilt að fresta afborgunum af láninu, lánið falli hins vegar í gjalddaga og endurgreiðist að fullu við eigendaskipti. Hið sama gildir ef lántaki flytur úr húsnæðinu og ljóst er að hann muni ekki flytja þangað aftur. Hér er um að ræða viðbót við þær breytingar sem húsnæðismálastjórn lagði til.

Eins og hv. þm. sjá og heyra hef ég nú rakið átta helstu brtt. í þessu frv., en samtals felur frv. í sér 26 brtt. við húsnæðislögin. Eins og þetta frv. liggur fyrir eru þessar brtt. allar samkvæmt óskum og samhljóða samþykkt húsnæðismálastjórnar nema þrjár. Ég vil gera þm. til glöggvunar aftur grein fyrir því, hverjar þessar breytingar eru og hvar þær koma fram. Það er í 1. gr. varðandi tekjustofna sjóðsins, það er í 7. gr. varðandi lántaka sem eru 70 ára og eldri, og það er síðan í þeirri grein sem fjallar um kaupskylduna, þar gengur ríkisstj. heldur lengra en húsnæðismálastjórn í því að draga úr kaupskyldu á verkamannabústöðum. Að öðru leyti er þetta frv. í samræmi við tillögur húsnæðismálastjórnar.

Í grg. með frv. er fjallað rækilega um frv. og sé ég ekki ástæðu til að fara yfir það frekar. Ég vil þó vek ja athygli á því, að nokkuð af þessum brtt. er komið fram vegna ábendinga félmrn. í bréfi sem það sendi húsnæðismálastjórn 9. nóv. 1981.

Herra forseti. Ég vil þá í framhaldi af því að hafa gert almenna grein fyrir þessu frv. um Húsnæðisstofnun ríkisins fara nokkuð yfir ýmis atriði í sambandi við húsnæðismál sem rædd hafa verið að undanförnu, m.a. úr þessum ræðustól og í fjölmiðlum, þar sem því hefur verið haldið fram, að núverandi húsnæðislánakerfi væri í raun og veru að hruni komið, það væri í rauninni ekkert eftir annað en að lýsa yfir gjaldþroti þess með einhverjum íormlegum hætti og á öllum sviðum væri þar mjög óhöndulega að staðið af hálfu ríkisstj. — og þá sérstaklega auðvitað af minni hálfu sem á að bera ábyrgð á þessum málaflokki.

Í þessum umr. hefur það komið fram, að gagnrýnin hefur ekki beinst að þessu húsnæðiskerfi nema að hluta til. Hún hefur beinst fyrst og fremst að Byggingarsjóði ríkisins og því, hvernig að málum hefur verið staðið á vegum hans. Hún hefur ekki beinst að Byggingarsjóði verkamanna, sú gagnrýni hefur a.m.k. ekki heyrst hér alvarleg, og finnst mér það nokkuð athyglisvert þegar þess er gætt, að þegar lögin um Húsnæðisstofnun ríkisins voru sett vorið 1980 kom það fram, að stjórnarandstæðingar töldu helst ástæðu til að gagnrýna hinn félagslega þátt í lögunum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Ég man eftir því, að það var haft við orð í þessum ræðustól af einum hv. stjórnarandstæðingi, þm. Sjálfstfl., að þetta frv. væri þannig úr garði gert af okkar hálfu að með þessu móti yrðu allir eða flestallir gerðir að öreigum, eins og það var orðað, — ég hygg að ég hafi það nokkurn veginn orðrétt eftir. Það hefur ekki komið fram að þessi hrakspá stjórnarandstöðunnar hafi ræst, og ég hygg að allir séu nú sammála um að þetta félagslega íbúðarbyggingarkerfi hafi komið mjög myndarlega til móts við þá sem lakari hafa kjörin. Ég vil segja það, að með lögunum um Húsnæðisstofnun ríkisins er í fyrsta sinn tryggt fjármagn til félagslegra íbúðarbygginga í landinu með nokkuð myndarlegum hætti, þannig að þar er um að ræða hundruð íbúða á hverju ári sem unnt er að byggja. Nú eru í byggingu á ýmsum stigum og undirbúningi í landinu 800–900 íbúðir. Þær eru á ýmsum stigum, eins og ég sagði, og auðvitað er ekki unnt að fara eins hratt í þeim efnum og ýtrustu óskir fara fram á. Það er hins vegar ljóst, að hér hefur verið brotið í blað í þessum efnum og hér er gengið mun myndarlegar til verks en gert var í frv. Alþfl. til laga um Húsnæðisstofnun ríkisins sem hann lagði fram í minnihlutastjórn sinni um áramótin 1979-1980. Þar var í raun og veru ekki gert ráð fyrir að tryggja hinu félagslega íbúðarbyggingakerfi þá tekjustofna sem hefur verið gert af núverandi ríkisstjórn.

Auðvitað er það ljóst, að um leið og þetta stóraukna fjármagn er sett yfir í hið félagslega íbúðabyggingakerfi hlýtur það að koma einhvers staðar við. Niðurstaðan varð sú hjá okkur að flytja fjármagn yfir í Byggingarsjóð verkamanna í rauninni úr Byggingarsjóði ríkisins, en jafnframt að taka ákvörðun um að Byggingarsjóður ríkisins lánaði á næstu árum ekki minna á íbúð en hann hafði gert fram að þeim tíma.

Það liggja fyrir ýmsar tölur í þeim efnum og ég vil nefna fáeinar rétt til glöggvunar.

Ef við skoðum íbúðalán og þróun þeirra t.d. frá 1976 til 1981, þá kemur fram að á árinu 1981 námu íbúðalán samtals 65% meira að raunvirði en árið 1975, þ.e. ef maður setur vísitöluna á 100 árið 1975, þá er hún 165 árið 1981 samkvæmt þeim spám sem við gerðum á s.l. hausti. En samkvæmt þeim reikningum, sem við erum nú að ganga frá, sýnist okkur að raunveruleg íbúðalán hafi aukist á árunum 1975–1981 um 77% í raun. Hér er ég að tala um það sem snýr að því fólki sem lánin fær. Ég er að tala hér um báða sjóðina, bæði Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna. Hér er m.ö.o. um að ræða hartnær tvöföldun í raun á þessum tíma fyrir þessa sjóði báða. Hitt er ljóst, að meginhluti þeirrar aukningar, sem hér er um að ræða, er hjá Byggingarsjóði verkamanna. Samdráttur hefur aftur á móti orðið nokkur í útlánum á vegum Byggingarsjóðs ríkisins. Það er hins vegar mál sem ég kem að aðeins síðar. En ég vil ítreka það, að hér hefur í rauninni átt sér stað að íbúðalán í heild hafa aukist mjög verulega, og það eru ekki bara íbúðalán byggingarsjóðanna, heldur eru það líka íbúðalán frá hinu almenna lánakerfi landsmanna, þ.e. bönkum og lífeyrissjóðunum.

Á bls. 11 í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1982 eru tölur um þetta efni frá Seðlabanka Íslands. Þar kemur fram að hlutfall fjárfestingarlána, þ.e. húsnæðislánakerfisins, lífeyrissjóðanna og bankanna, af byggingarkostnaði hefur verið sem hér segir síðustu þrjú ár: 1980 60%, 1981 66.4%, 1982 70.8%. Það er sem sagt óyggjandi að það hefur orðið nokkur raunaukning á hlutfalli íbúðalána á þeim þremur árum sem núv. ríkisstj. hefur farið með húsnæðismálin.

Ef við tökum aðra þætti vil ég aðeins víkja aftur að byggingarsjóðunum, ítreka það, sem ég sagði áðan um hina almennu raunaukningu lána, og bæta því við, að þessi aukning er að sjálfsögðu að langmestu leyti hjá Byggingarsjóði verkamanna. Þar er um að ræða ríflega tvöföldun í raun á þessu árabili sem ég var að tala um, meðan orðið hefur nokkur samdráttur í ráðstöfunarfé til íbúðalána á vegum Byggingarsjóðs ríkisins. Það stafar hins vegar ekki, eins og haldið hefur verið fram í þessum ræðustól, af því fyrst og fremst eða eingöngu að tekjustofnar Byggingarsjóðs ríkisins hafi verið skertir af núv. ríkisstjórn. Það, sem er í raun og veru merkilegast ef litið er yfir tölur um þetta, er að í ljós kemur að tekjur Byggingarsjóðs ríkisins af skyldusparnaði ungmenna hafa verið að lækka stöðugt frá því sem var fyrir fáeinum árum. Það er hægt að sýna fram á þetta mjög nákvæmlega með tölum, sem ég ætla ekki að fara að þreyta þm. með núna, ég gæti farið yfir það seinna ef óskað verður eftir. Eins get ég séð til þess, að lögð verði fram gögn til að sýna fram á þetta. En það hefur átt sér stað mjög verulegt fall í þessum tekjustofni, þ.e. í skyldusparnaði ungmenna.

Vegna þess að ég veit að menn hafa gaman af tölum hér, eins og í Nd. og alls staðar í þjóðmálaumræðum í landinu, sérstaklega hv. talsmaður Sjálfstfl„ Lárus Jónsson, ætla ég að nefna til fróðleiks að árið 1981 skilaði skyldusparnaðurinn nettó 8.6 millj. kr. Ef hann hefði á því ári skilað því sama og 1978, framreiknað á föstu verðlagi, hefði hann átt að skila 37 millj. kr. Ef hann hefði skilað því sama og hann skilaði 1979 hefði hann átt að skila 48 millj. kr. M.ö.o.: á tímanum 1979–1981 féllu tekjur Byggingarsjóðs ríkisins af skyldusparnaði ungmenna um 40 millj. kr. á verðlagi ársins 1981. Og það segir sig sjálft að ekki er auðvelt, hvorki fyrir núv. ríkisstj. né húsnæðismálastjórn né aðra, að taka við slík u hrapi í tekjustofnum upp á 40 millj. kr. Það er svipuð upphæð og nú er verið að tala um að eigi að fara að íþyngja þjóðinni með, með þeim litla skyldusparnaði sem hér hefur verið flutt frv. um og rætt var hér á dögunum. Það er hærri upphæð sem tapast hefur á þessum skyldusparnaði ungmenna heldur en nemur skyldusparnaði þeim sem gert er ráð fyrir að um 5% skattgreiðenda beri.

Síðan ætla ég að bæta því við, að þó að þessi mál standi með þeim hætti sem ég geri hér grein fyrir, þó að þetta gífurlega fall hafi orðið í skyldusparnaði ungmenna og hann hafi verið rifinn út í rauninni miklu meira en menn gerðu áður ráð fyrir, þá er innstreymið í Byggingarsjóð ríkisins ekki minna en það var áður.

Árið 1981 var heildarinnstreymi í Byggingarsjóð ríkisins 383.1 millj. kr., fyrsta árið sem þessi nýju lög okkar í rauninni taka af skarið um það hvernig þessu á að stjórna. En árið 1980 var heildarinnstreymið í Byggingarsjóð ríkisins 382.3 millj. kr. Það munaði talsvert innan við 1 millj. kr. á ráðstöfunarfé sjóðsins, á raunverulegu innstreymi í sjóðinn milli áranna 1980 og 1981. Það munaði innan við 1 millj. kr. af 383 millj. kr. veltu, þrátt fyrir að sjóðurinn tapar 40 millj. í skyldusparnaði ungmenna. Með þessum hætti hefur tekist, eins og sést, að tryggja í rauninni svipaða útlánagetu Byggingarsjóðs ríkisins og hann hafði samkv. þeim lögum sem áður voru í gildi. Gallinn er fyrst og fremst sá, að meðan við höfum verið að byggja upp hið félagslega íbúðabyggingarkerfi í landinu höfum við ekki haft fjármuni eða möguleika eða pólitískt afl til þess að breyta hinu almenna lánakerfi á sama tíma. (Gripið fram í: Hvaða þið?) Núv. ríkisstj. hefur ekki haft afl til að breyta hinu almenna kerfi á sama tíma. En hún lét sér ekki nægja það sem fyrrv. ríkisstjórnir létu sér nægja, að búa við ekki bara lélegt almennt húsnæðislánakerfi, ekki bara slappt almennt húsnæðislánakerfi, heldur bjuggu þessar ríkisstjórnir við það kerfi kinnroðalaust, að því er virðist, að vera með mjög vesælt, ófullkomið og slappt kerfi til að koma til móts við þá sem fyrst og fremst þurfa á stuðningi að halda. Það er sá grundvallarmunur sem verður þegar núv. ríkisstj. tekur við, þetta láglaunafólk getur nú fengið nokkra þjónustu, sem var mjög lítill kostur á áður.

Hér eru nefndar margar tölur um að þetta kerfi, sem við erum að vinna eftir, hafi í rauninni sett hér allt á annan endann og að við ráðum ekki við hlutina, Byggingarsjóður ríkisins sé að bresta. Um þetta eru höfð stór orð af stjórnarandstöðunni hér og Morgunblaðinu, sem gengur auðvitað á undan í ósannindum í þessum málum eins og öðrum og hefur gert undanfarna áratugi. En látum það nú vera, maður býst ekki við neinu af þeim. En það er aldrei spurt: Hvað þarf þjóðin að byggja? Er það þannig að Íslendingar verði að byggja 2500 íbúðir á ári á næstu 10–20–30 árum? Er það þannig? Og hvað höfum við verið að byggja? Ég ætla að nefna ykkur til fróðleiks fáeinar tölur í þessu efni.

Á árunum 1965–1980 voru fullgerðar hér á Íslandi 30 376 íbúðir. Hvað eru margar íbúðir í Reykjavík? Hvað eru margar íbúðir núna í höfuðstað landsins? Þær eru 32 þús. M.ö.o.: á 15 ára tímabili hefur verið byggður nærri því ámóta fjöldi íbúða og er alls í höfuðstað landsins. Það er hægt að nefna fleiri tölur. Á sama tíma og þjóðin hefur fullgert 30 376 íbúðir hefur henni fjölgað um 35 429. Það eru 1.2 Íslendingar í hverri íbúð, sem hefur bæst við síðustu 15 árin. Og er alveg gefið að það sé þessi hraði sem við eigum að halda áfram með? Við eigum að vera hér með gott húsnæði, en er ekki ástæða til að spyrja sig að því í fullri alvöru, hvað eigi að halda lengi áfram á þessari braut? Er ekki full ástæða til þess? Ég held að margar þjóðir aðrar en við mundu staldra við frammi fyrir tölum af þessu tagi, þegar kemur í ljós að á 15 ára tímabili eru 1.2 landsmenn um hverja íbúð sem bætist við í landinu.

Því er haldið fram, að á þeim tíma, sem við höfum farið með stjórn húsnæðismála, höfum við vísvitandi verið að keyra niður hið almenna húsnæðislánakerfi, vegna þess að við — og alveg sérstaklega Alþb. — viljum draga úr því að menn búi í eigin húsnæði, og við höfum sérstaklega mikið á móti því í Alþb., að sagt er í sumum málgögnum villandi, og við viljum rífa niður frelsi, framtak, frumkvæði, kraft og orku og þrótt einstaklingsins. Það eru skrifaðar um það hjartnæmar greinar, síðu eftir síðu niðri á Morgunblaðinu. Svo kemur þetta blessað fólk, hv. þm. Sjálfstfl., og lesa upp hér þessar hjartnæmu greinar um hvernig þessir vondu kommúnistar séu að fara með almenning í landinu, það séu 10% á síðasta ári sem þeir hafi komið þessu áleiðis niður, rifið þetta niður um 10%, samdráttur í íbúðarbyggingum um 10% og þeir ætli að halda svona áfram, í hittiðfyrra hafi það verið eitthvað minna, og það eigi að brjóta þetta niður í eitt skipti fyrir öll. Ég vil segja hv. þm. Sjálfstfl. það, og vegna þess að ég veit að þeir þurfa á því að halda lýsi ég því yfir að þetta er misskilningur hjá þeim. Þetta er ekki okkar stefna. (Gripið fram í.) Ég heyri að hv. þm. Lárusi Jónssyni kemur þetta á óvart. Hann hefur verið farinn að trúa Morgunblaðinu.

Varðandi þá tölu, sem liggur fyrir frá Þjóðhagsstofnun um 10% samdrátt í íbúðarbyggingum á síðasta ári, vil ég segja það, að sú tala er ágiskunartala. Sú tala byggist á skýrslum byggingarfulltrúa víðs vegar að af landinu, en ekki úr Reykjanesumdæmi. Niðurstöður byggingarfulltrúanna í Reykjanesumdæmi, þ.e. í Kópavogi, Hafnarfirði og Keflavík, liggja ekki fyrir og lágu ekki fyrir þegar þessar tölur voru settar saman. Samdrátturinn er þarna vafalaust nokkru minni. Það, sem unnt er að sýna fram á, er að á s.l. ári, 1981, fjölgar íbúðum sem byrjað er á t.d. í Reykjavík. Samdráttartímabilinu, sem þarna var um að ræða og á sér aðrar ástæður en íbúðarlánakerfið, virðist vera að ljúka að því er Reykjavík varðar. Byrjanir svokallaðar í Reykjavík í fyrra voru 32% fleiri en í hittiðfyrra. Samkv. skýrslu byggingarfulltrúans í Reykjavík voru það 31.7% fleiri íbúðir sem byrjað var á 1981 en 1980, og í lok ársins 1981 voru 18.5% fleiri íbúðir í smíðum í Reykjavík en um áramótin næst á undan. Það er einnig athyglisvert í þessu sambandi og mætti fara mörgum orðum um og ég er ekkert að fella neinn dóm um, en það sýnir sig að hér er um það að ræða að fólk gerir kröfur í húsnæðismálum og býr við góðan efnahag sem betur fer. Meðaltalsíbúðin á síðasta ári hér í Reykjavík er um 500 rúmmetra, en árið áður var hún um 400 rúmmetra. Samkv. þeim skýrslum, sem byggingarfulltrúinn í Reykjavík hefur látið mér í té, er breytingin þetta mikil á einu ári, 25% eða svo. Ég vil að vísu taka fram að árið 1979 var meðalíbúðin hér í Reykjavík 436 rúmmetrar, og á því tímabili, sem ég hef tekið tölur um, frá 1965, er meðalíbúðin minnst árið 1973, þ.e. 335 rúmmetrar, en fer upp í 502 rúmmetra þar sem hún er stærst, árið 1981. Þetta finnst mér nokkuð athyglisvert og segja sína sögu.

Jafnframt því sem það er greinilegt, að það hefur nokkuð dregið úr íbúðabyggingum á síðustu árum, m.a. vegna þess, að það var byggt mikið áður, og af öðrum ástæðum, þ.e. efnahagslegum, sem ég kem hér að á eftir, þá er greinilegt að fólk hefur í vaxandi mæli lagt áherslu á að endurnýja eldra húsnæði. Húsnæðisstofnun ríkisins og Byggingarsjóður hafa komið til móts við þær óskir. Það er einnig fróðlegt í þessu sambandi að hafa í huga hvernig lán hafa þróast út á eldri íbúðir.

Árið 1976 veitti Húsnæðisstofnunin lán út á 783 eldri íbúðir, en árið 1981 út á 2183 eldri íbúðir. Áherslan í útlánum hefur því greinilega færst mjög mikið til frá nýbyggingum og að talsverðu leyti yfir á eldri íbúðir sem gengið hafa kaupum og sölum á undanförnum árum. Lánafjöldinn hefur á þessu tímabili, 1977–1981, verið út á 3500–4800 íbúðir á ári. Árið 1981 eru það 3950 íbúðir sem lánað er út á af Byggingarsjóði ríkisins. Lægst er talan árið 1976, 2617 íbúðir. Það er áður en hinar eldri íbúðir fara áð vega mjög þungt í heildarútlánum Byggingarsjóðs ríkisins.

Eitt af því, sem menn finna að hinu nýja húsnæðislánakerfi, er það, að gengið hafi verið mjög á lánshlutföllin, þau hafi lækkað. Ég hef farið nokkuð yfir hvernig þau mál hafa þróast, og mér sýnist augljóst mál að lánshlutföll frá Byggingarsjóði ríkisins hafi í fyrsta lagi ekki lækkað að jafnaði. Í öðru lagi er ljóst að stórar fjölskyldur eiga nú kost á mun hærri lánum en áður. Í þriðja lagi er ljóst — og menn þekkja það — að lán frá Byggingarsjóði ríkisins hækka nú þrisvar, fjórum sinnum á ári þannig að þau halda verðgildi sínu gagnstætt því sem áður var.

Húsnæðisstofnun ríkisins sendi mér yfirlit um þessi mál núna nýlega. Í því yfirliti segir m.a. að miðað við þriðja ársfjórðung 1981 og 1982 eru lánin samkv. nýju lögunum um 6.6% hærri að raun en samkv. gömlu lögunum. Á árinu 1981 hefði meðallánið numið 121 þús. kr. og á árinu 1982 182 þús. kr. Þá er verið að tala um lán samkv. staðli 2, en lán til stærri fjölskyldna eru mun hærri en þetta.

Ég hef sett upp nokkur dæmi um þetta. Þá kemur fram að meðan meðallánið í júlí í fyrra var 130 þús. kr. var sambærilegt lán 1980 121 þús. kr., 1979 127 þús. kr. og 1978 124 þús. kr. Það sýnir m.ö.o. að þessi lán hafa í rauninni ekki lækkað að raungildi. Þau hafa ýmist staðið í stað eða hækkað frá því sem ella hefði verið. Hér er um að ræða tölur sem ég hef undir höndum eftir að ég hef beðið Þjóðhagsstofnun um að reikna þar út ákveðin atriði. Það er því ljóst að margt hefur verið sagt um þessi efni sem eru ýkjur og byggist ekki á staðreyndum.

Ég hef farið hér yfir nokkur atriði, herra forseti. Ég gæti bætt mörgum við, en ég vil segja þetta að lokum: Ég þykist í fyrsta lagi hafa sýnt fram á það, að á árinu 1981, á fyrsta heila ári núverandi húsnæðislaga, hafi heldur sótt í rétta átt varðandi íbúðabyggingar í landinu á ný á hinum almenna markaði, en veruleg sókn hafi átt sér stað í hinum félagslegu íbúðabyggingum.

Í öðru lagi hef ég sýnt fram á það, að lán út á íbúðir eru síst lægri en þau voru samkv. hinu eldra kerfi.

Í þriðja lagi hef ég sýnt fram á það, að átt hefur sér stað stórhækkun lána til félagslegra íbúðabygginga og ekki hafi orðið um að ræða samdrátt á þjónustu byggingarsjóðanna, Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna.

Þá þykist ég hafa sýnt fram á það, herra forseti, að á undanförnum árum hafi það gerst, að fyrirgreiðsla hins almenna lánakerfis við húsbyggjendur hafi aukist sem hlutfall af kostnaðarverði íbúða frá því sem var. Byggi ég það á tölum frá Seðlabankanum samkv. fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, eins og ég las upp áðan. Og fleiri þætti hef ég hér rakið sem ég ætla ekki að endurtaka.

En er þá allt í besta lagi? Eru þessir hlutir nánast að segja fullkomnir, þannig að engin ástæða sé til að laga þetta og engin ástæða sé til að bæta hér nokkuð úr? Því hef ég aldrei haldið fram.

Ég tel að í húsnæðislánakerfinu þurfi margt að laga. Ég tel að í hinu almenna húsnæðislánakerfi eigi nú að leggja á það áherslu að binda saman með lagasetningu fyrirgreiðslu lífeyrissjóðanna, fyrirgreiðslu bankanna og fyrirgreiðslu Húsnæðisstofnunar þannig að um geti verið að ræða mjög myndarlega fyrirgreiðslu við þá, sem þurfa á því að halda, og það séu þá fyrst og fremst þeir sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta sinn, en þeir, sem eiga þegar íbúðir frá fyrri tíma, verði að bíða með sitt. Hinir, sem eru að leggja af stað, þurfa sérstakan stuðning, fyrst og fremst af einni ástæðu. Hún er sú, að á síðustu árum er það verðtryggingarkerfið, vextirnir, sem valda því, að hér er um allt aðra stöðu að ræða en var, — allt, allt aðra stöðu. Það voru hin ódýru lán sem björguðu því, að menn gátu byggt og keypt hérna fyrir nokkrum árum, vegna þess að menn borguðu ekki að fullu til baka það sem þeir fengu lánað.

Nú höfum við tekið upp hér almennt verðtryggingarkerfi á allar fjárskuldbindingar. Það er enginn áhugi á að snúa við á þeirri braut eftir að hún er á annað borð mörkuð og menn eru komnir inn á hana. Þess vegna verður að svara þessum nýju tíðindum með sérstöku átaki sem miðar að því að efla hið almenna húsnæðislánakerfi. Þar verða bankarnir að koma til og þar verða lífeyrissjóðirnir að koma til. En þeir, sem hvorki hafa pólitískt þrek til að ákveða ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna og hvernig því skuli varið né til að afla byggingarsjóðunum tekna né heldur til þess að ákveða að bankarnir skuli teknir inn í þessa mynd, þeir eru auðvitað ekki tilbúnir að gera það sem þarf í þessum efnum. Ef menn segja: Ég vil auka lán í 70–80 % eða hvað það nú er — án þess að vera um leið tilbúnir að leggja eitthvað á sig, sitt pólitíska þrek í leiðinni, slíkir menn eru að dæma sig út í horn sem ómerkinga í rauninni, vegna þess að það er útilokað að ætla sér að ná þarna nokkrum árangri frekar en annars staðar öðruvísi en að menn taki á sig það sem þarf til þess að afla teknanna eða fjárins.

Því er það sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram hér frv. um skyldusparnað, litlar upphæðir í rauninni. 5% skattgreiðenda eiga að greiða 35 millj., spara í þrjú ár með hagkvæmum hætti og verja fénu með skynsamlegum hætti í gegnum byggingarsjóðina til þeirra sem helst þurfa á stuðningi að halda. Hér er lögð fram tillaga, hér er prófsteinn. Eru menn tilbúnir að leggja eitthvað á sig eða ekki? Þeir, sem geipa um það daginn út og daginn inn hér í þinginu, að það þurfi að laga þessa sjóði og stöðu þeirra, en þora ekki að samþykkja þetta litla frv., þeir eru að dæma sig alveg út í hött pólitískt að mínu mati. Ég tel fulla ástæðu til þess, hv. ritari deildarinnar svo og aðrir virðulegir þm., að tryggt verði að það komi fram, hvernig á því stendur, að menn eru ekki reiðubúnir til þess að styðja þetta litla frv. um skyldusparnaðinn sem ég ætlaði reyndar ekki að ræða frekar hér nema til að undirstrika það, að menn ná aldrei neinu landi í þessum efnum nema þeir þori að gera það sem þarf hinum megin.

Ég held, herra forseti, að það sé ljóst, að því miður hafi eitt og annað verið missagt varðandi þessi fræði eins og fleiri, eins og gengur í pólitískum umr. En ég held að þegar allt er skoðað niður í kjölinn í ró og málefnalega, þá sjái menn, hvernig málin standa, og séu reiðubúnir að draga af því rökréttar ályktanir.

Ég heyri á hv. þm. deildarinnar og sérstaklega hv. skrifara hennar úr stjórnarandstöðunni, að honum þykja það mikil tíðindi sem hér hafa verið flutt, og það er rétt. Ég geri ekki ráð fyrir að hann hafi heyrt þau mjög oft, og ég væri reiðubúinn til að halda hér nokkuð áfram, því að það er margt enn ósagt úr þessum fræðum, en ég ætla ekki að þreyta þdm. frekar.

Ég vona, herra forseti, að þessu frv. verði vel tekið, og legg til að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. félmn.