23.04.1982
Efri deild: 69. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4109 í B-deild Alþingistíðinda. (3680)

290. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég hef áður í allítarlegu máli gert grein fyrir því, hvaða útreið húsnæðislánakerfið hefur fengið í höndum núv. ríkisstj. Ég hef dregið upp þá dökku og sorglegu mynd, að þetta kerfi hafi verið sett á hausinn þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir okkar Alþfl.-manna. Það er ekki bara nú í haust sem við höfum bent á hversu ískyggilega horfi, heldur gerðum við þegar við setningu lagafrumvarpsins vorið 1980 grein fyrir því, að þær tillögur, sem þá voru lagðar fram, þýddu að þetta kerfi gæti ekki staðið undir sér og mundi lenda í þrotum innan tíðar. Við birtum ítarlega útreikninga sem sýndu að kerfið þyrfti að fá mjög mikið viðbótarfjármagn og að það mundi hrynja. Við höfum við hverja umræðuna á eftir annarri, í sambandi við lánsfjárlög, í sambandi við lánsfjáráætlun og í sambandi við fjárlög, bent á þetta atriði. Við höfum enn fremur aftur og aftur bent á að það væri óviðunandi með öllu að ungu fólki, sem ætlaði að koma sér fyrir, væri gert að sjá fyrir helmingi, kannske upp í 3/4 af íbúðarverði með óheyrilegu vinnuframlagi eða skammtímalánum. Til þess að hér yrði ráðin bót á fluttum við m.a. frv. um skyldur bankakerfisins til þess að veita viðbótarlán til íbúðarbygginga. Við gerðum það bæði í fyrra og núna. Hið seinna frv., sem situr í nefnd hér í deildinni, gerir ráð fyrir að bönkunum sé ættað að veita 200 þús. kr. viðbótarlán til þeirra sem fá lán samkvæmt úthlutun frá Húsnæðisstofnun. Ef þetta væri gert væri komið mjög verulega til móts við þá sem eru að koma sér fyrir, þurfa að eignast íbúð. Þessi lán eru til langs tíma, til 20 ára, með 2–3% vöxtum. Ég held að það hefði verið heillavænlegra í þeirri miklu kreppu, sem nú er upp komin í sambandi við Húsnæðisstofnun ríkisins og húsnæðislánakerfið, ef ríkisstj. hefði fengist til að fara inn á þessa braut og ætla bönkunum þetta hlutverk, t.d. í staðinn fyrir að skattleggja þá sérstaklega. Ég hefði verið reiðubúinn til þess að taka upp viðræður við ríkisstj. og ríkisstjórnarflokkana um þetta fyrirkomulag til þess að greiða úr þeim hnút, sem við búum nú við, og því óviðunandi ástandi, sem ríkir í þessum efnum.

Við umræður hér fyrir fáeinum dögum gerði ég grein fyrir því hvernig Húsnæðisstofnun ríkisins hefði verið svipt tekjustofnum sínum og framlög til húsnæðislánakerfisins hefðu í heild verið skorin niður um 47%. Ég gerði enn fremur grein fyrir því, að fjöldi íbúða, sem veitt væru lán út á, hefði farið hraðminnkandi, hefði fækkað um 1100 íbúðir á árunum 1979–1981 samkv. yfirliti frá Húsnæðisstofnun, dags. 14. des. 1981. Og ég minnti á í sambandi við umræður um lánsfjárlög og lánsfjáráætlun hér í deildinni að ekki væri annað sjáanlegt af því fjármagni, sem húsnæðislánakerfinu væri ætlað, en að enn væri reiknað með samdrætti sem næmi að mínu mati um 550 íbúðum á þessu ári. Heildarfækkun væri þá um 1650 íbúðir á tímabilinu 1979–1982. Þetta gerist á sama tíma og þjóðinni er að fjölga. Allir sjá að slíkur samdráttur hefnir sín vitaskuld síðar á sama hátt og fjársvelti húsnæðislánakerfisins er að hefna sín þessa dagana og mun hefna sín enn grimmilegar síðar. Þetta vildi ég láta koma fram og ítreka í sambandi við það frv. til laga sem hér er til umr.

Um þetta frv. er það að segja, að hér eru settar fram nokkrar óskir um lagfæringar á því kerfi sem í gangi er varðandi framkvæmdaatriði. Það eru hugmyndir um að veita einstaklingum, sem eiga íbúð, lán til að byggja leiguíbúðir. Tilgangurinn er að örva byggingu leiguíbúða. Það eru sérstakar hugmyndir um kaup á skuldabréfum vegna byggingar á vistheimilum fyrir aldrað fólk. Það eru hugmyndir um að hækka lánahlutfall til þeirra sem eiga ekki íbúð. Og það eru hugmyndir um að fresta afborgunum af lánum hjá þeim sem eru 70 ára og eldri. Allar eru þessar hugmyndir góðra gjalda verðar. Það eru líka gerð tilraun til þess að endurbæta kaupskylduákvæði varðandi verkamannabústaði. Menn halda að með því frv., sem hér er flutt, sé verið að gera þau fyllri og skýrari. Síðan eru ákvæði um skyldusparnað unglinga sem eiga að stuðla að því að meira af því fé komi til húsnæðislánakerfisins.

En það er ekki stafur í þessu frv. um að þetta muni kosta nokkurn skapaðan hlut. Engin grg. fylgir þessu frv. um þann kostnað sem þessar ágætu og frómu hugmyndir hefðu í för með sér — ekki nokkur stafur. Í einni grein er þess getið, að tvöfalda skuli framlag til Byggingarsjóðs ríkisins frá því sem það er í fjárlögum fyrir 1982, eftir að sett hafa verið lög um aukna tekjuöflun. Það er allt og sumt. Það eru engar hugmyndir í þessu frv. um tekjuöflun til Byggingarsjóðs ríkisins. Það hafa engar hugmyndir komið fram frá ríkisstj. um tekjuöflun til Byggingarsjóðs ríkisins eða húsnæðislánakerfisins. Að því leyti eru þessar frómu óskir vitaskuld gagnslaust plagg.

Hæstv. félmrh. reynir að hvísla: skyldusparnaðarfrumvarpið. Það er ekki tekjuöflun til húsnæðislánakerfisins. Það er lánaöflun til húsnæðislánakerfisins samkvæmt skilgreiningu ráðh. sjálfs. Það er sama og að segja: Hér höfum við fullt af útgjöldum. En þó að þú getir ekki risið undir þeim og farir á hausinn af því að taka á þig þessi útgjöld og þau viðbótarútgjöld sem hér eru, þá skiptir það ekki máli. Taktu bara lán, vinur minn. — Þetta er sama og segja við fjölskyldu sem kemst ekki af á launum sínum: Það gerir ekkert til, þú skalt bara taka lán. — Það eru væntanlega einhverjir aðrir sem eiga þá að sjá fyrir því, að hægt verði að standa undir kerfinu einhvern tíma.

Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að mér finnst margt af því, sem fram kemur í þessu frv., líklegt til að horfa til bóta að því er kerfið sjálft varðar. En það er náttúrlega harla gagnslítið að taka á sig aukin útgjöld ef ekki er séð fyrir tekjum í staðinn. Og það, sem er hryggilegast í þessu öllu saman, er að annars vegar höfum við kerfi sem stendur ekki einu sinni undir þeim útgjöldum sem það hefur nú, og hins vegar hófum við húsbyggjendur, ungt fólk, sem þarf að byggja yfir sig eða að kaupa sér íbúðir, en getur ekki með nokkru móti komið sér fyrir með mannsæmandi hætti vegna þess að þetta kerfi er svo ófullkomið.

Það er þetta sem er í rauninni hið stóra vandatnál. Og meðan það tvíþætta vandamál er ekki leyst, að vera með kerfi, sem stendur undir sér, og að koma til móts við unga fólkið með svipuðum hætti og við Alþfl.-menn höfum lagt fram tillögur um ákveðin markmið í þeim efnum, þá hefur ekkert verið leyst, hvaða orðalag sem verður fundið og hvaða frómar óskir sem eru settar fram.

Hér er á einum stað fjallað sérstaklega um verkamannabústaðakerfið og svokallaða kaupskyldu í því sambandi. Það er sagt að sveitarfélögin hafi vakið máls á því, að ákvæðið, sem í gildi væri núna varðandi kaupskyldu, væri ekki nógu gott og það hefði sætt nokkurri gagnrýni við framkvæmd laganna. Það er víst heldur vægilega til orða tekið. Ég held að það hafi sætt mikilli gagnrýni og mikið af henni hafi verið réttmætt. Ég er hins vegar ekki sannfærður um að menn hafi hér fundið hina réttu braut að því er varðar hvernig með endursölu á íbúðum í verkamannabústöðum skuli farið, hvorki að því er varðar matsreglur né heldur matsverð. Ég ætla ekki að fjölyrða um það á þessu stigi, en við Alþfl.-menn munum leggja áherslu á tvennt í því sambandi: Í fyrsta lagi að endursöluákvæðin séu með þeim hætti að íbúðir, sem eru á félagslegum grundvelli, fari ekki út úr því kerfi nema þess sé raunverulega óskað að það gerist, að það sé ekki verið að éta utan af þessu kerfi með sjálfvirkum hætti nema menn séu sannfærðir um að þeir geti séð fyrir þessari þörf eðlilega. í hverju sveitarfélagi. Það er ákveðinn uppgjafartónn, sýnist mér, í þessu ákvæði eins og það liggur nú fyrir. En það á ekki að ganga á fjölda þeirra íbúða sem í boði eru á félagslegum grundvelli nema ljóst sé að menn geti mætt þeirri þörf sem er fyrir íbúðir af því tagi. Í annan stað leggjum við áherslu á að það að búa í verkamannabústað og hafa eignast íbúð í verkamannabústað megi á engan hátt verða átthagafjötrar, ef ég má orða það svo, þ.e. að þeir, sem hafa notið þess að búa í verkamannabústaða, verði á engan hátt hlunnfarnir við það að reyna að koma sér fyrir með öðrum hætti. Um það. hvernig ná skuli þessum tvíþættu markmiðum, erum við Alþfl.-menn reiðubúnir að fjalla í nefnd og leggja til málanna þau sjónarmið, sem við teljum að hér eigi að fylgja, og þær aðferðir, sem við teljum að séu líklegastar til að ná þessu tvíþætta markmiði. Við munum ganga að því verki með opnum huga, vitandi að þetta er ekki sérlega auðvelt.

Herra forseti. Ég ætla ekki við 1. umr. um þetta mál að fara ofan í einstök atriði þessa frv. öllu frekar né heldur að fjalla nánar um þann fjárhagsvanda, sem húsnæðislánakerfið stendur frammi fyrir, né heldur þann fjárhagsvanda, sem þeir, sem þurfa að eignast íbúðir, standa frammi fyrir. Ég hef oft áður gert það að umræðuefni. En við þingmenn Alþfl. munum að sjálfsögðu gera ítarlegri grein fyrir viðhorfum okkar í einstökum atriðum við síðari umr. um þetta frv.