23.04.1982
Neðri deild: 68. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4117 í B-deild Alþingistíðinda. (3697)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil taka undir það, sem hv. 3. þm. Reykn. sagði áðan, að brtt. á þskj. 612 eru síður en svo fallnar til að bæta frv. eins og það liggur fyrir. Mér finnst það satt að segja lýsa hálfgerðum kotungshætti í menningarmálum að ætla að binda með lögum að hljóðfæraleikarar megi ekki vera fleiri en 65, sem er algjört lágmark þess að Sinfóníuhljómsveitin geti risið undir nafni með þeim hætti sem er sæmandi fyrir okkur sem menningarþjóð og fyrir þjóð sem á jafnágætum tónlistarmönnum á að skipa og við, ekki síst ef hliðsjón er höfð af því, að tónlistin er hér í mikilli grósku. Væri nær að Alþingi sýndi meiri rausn en hitt þegar um þessa listgrein er að ræða. Ég mæli þess vegna eindregið gegn þessari brtt. og skil raunar ekki þá hugsjón og þann kotungshátt sem að baki hennar liggur.

Um hitt vil ég segja, í sambandi við 12% af úrgjöldum hljómsveitarinnar. Hér er verið að setja viðmiðunartölu sem er valin af handahófi og ég sé ekki að eigi neitt erindi inn í lögin. Auðvitað er rétt að reyna að reka Sinfóníuhljómsveitina sem best, en við megum ekki setja inn viðmiðun sem stuðlar að eyðslusemi ef svo ber undir.