23.04.1982
Neðri deild: 68. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4118 í B-deild Alþingistíðinda. (3699)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Svo sem kunnugt er fóru fram allverulegar umr. um þetta frv. í Ed. þar sem bornar voru fram brtt., sumar samþykktar og aðrar ekki, eins og gengur. Frv. kom til okkar í menntmn. Nd. í allnokkuð heillegri mynd.

Ég vil segja það, eins og aðrir nefndarmenn í menntmn. Nd. hafa sagt, að brtt. frá hv. þm. Jóhanni Einvarðssyni og fleirum barst til okkar í tæka tíð og fékk þar athugun, en mér sýnist raunar að hún fjalli um svo smá atriði að litlu máli skipti í fyrra fallinu sú brtt. sem þeir hv. flm. gera við 3. gr. Þar er lagt til að stefna að því, að eiga minna en 12% af útgjöldum hljómsveitarinnar fáist greidd af slíkum tekjum. Það er að vísu rétt, sem hv. flm. sagði, að þetta var í upphaflegu frv., sem hæstv. menntmrh. lagði fyrir Alþingi sem 3. mál á hausti sem leið. En ég sé ekki og ég held að nm. hafi ekki séð neina ástæðu til að vera að binda þetta við 12%. Ég held að frá bæjardyrum ríkissjóðs geti menn út af fyrir sig vonað að þetta hlutfall verði jafnvel allmiklu hærra. Ég held að það sé ástæðulaust með öllu að vera að binda sig við þessa tölu, 12%, og breyti í raun og veru engu.

Sama sýnist mér gilda um seinni till. sem hv. þm. Jóhann Einvarðsson talaði hér fyrir, að hún virðist vera ástæðulítil, ef ekki ástæðulaus með öllu. Það er miðað við 65 stöðugildi í frv. eins og það nú liggur fyrir.

Ég vil aðeins undirstrika það og endurtaka, sem samnefndarmenn mínir í menntmn. hafa sagt, að okkur sýnist að þetta frv. sé vel úr garði gert eins og það kom frá Ed. og ástæðulaust vera að breyta því frekar.