23.04.1982
Neðri deild: 68. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4118 í B-deild Alþingistíðinda. (3700)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ýmsar breytingar hafa verið gerðar og ræddar við meðferð þessa frv. til l. um Sinfóníuhljómsveit Íslands frá því að það var rætt í borgarráði og hjá borgarfulltrúunum. Mig minnir — ég er ekki með þau gögn við höndina — að þá hafi verið talað um að fjöldi hljóðfæraleikara verði 50 og eitthvað, man ég var, og ekki mætti fara upp fyrir það nema með sérstakri heimild. Nú eru þeir orðnir 65 og á að samþykkja það sem lög — og þau lög verða náttúrlega kvöð á borgarsjóði Reykjavíkur — án þess að hafa frekara samband við borgarstjórn eða borgarráð um frv. eins og það liggur hér fyrir til endanlegrar samþykktar.

En í þessu frv. eru ýmsar aðrar kvaðir á borgarsjóð. Borgarsjóður Reykjavíkur er eina stofnunin sem stendur undir kostnaði fyrir utan ríkissjóð. Ríkisútvarpið er stofnun sem er meira og minna rekin á vegum ríkissjóðs þar sem framlög landsmanna duga ekki til að standa undir rekstri Ríkisútvarpsins. Ég verð því að mótmæla þessu frv. eins og það er og tel algera óhæfu að lögfesta framlög úr sveitarsjóði, hvort sem það er sveitarsjóður Reykvíkinga eða annarra, á þennan hátt, og því fremur að hér er um prósentuframlag að ræða og ekki nokkur leið að ákveða fyrir fram hvert framlag Reykjavíkurborgar á að vera. Það er ákveðin prósenta. Hér er hún komin í brtt. á þskj. 373 upp í 18%. Er það að vísu það sama og er í upphaflega frv., en þar var bæjarsjóður Seltjarnarness inni í að eigin ósk, en í brtt. hefur það verið fellt niður. Ég veit ekki af hverju, líklega án samráðs við það sveitarfélag.

Ég skil ekki og veit ekki hvernig ríkisstj. eða Alþingi ætlast til þess að Reykjavíkurborg geri sína fjárhagsáætlun árlega ef hún ekki veit nokkurn veginn fyrir fram hvaða kostnaðarliðum hún á að reikna með. T.d. er í þessari brtt. talað um að menntmrn., með leyfi forseta, skipi hljómsveitarráð til fjögurra ára í senn og ákveði ráðsmönnum þóknun sem greiðist af rekstrarfé hljómsveitarinnar. Það er menntmrn. eitt sem ákveður þarna þóknun og ákveður greiðslu til starfsmanna sem eru þó að hluta á launaskrá eða kostnaðarliður hjá borgarsjóði. Einnig er talað hér um launakjör og vinnutíma starfsmanna hljómsveitarinnar sem fer eftir kjarasamningi þeirra og fjmrh.

Borgarstjórn Reykjavíkur þarf að gera sína fjárhagsáætlun og móta sínar tekjur af tilkostnaði. Ég reikna þá fastlega með að hæstv. félmrh. beiti sér fyrir að borgarsjóður fái auknar tekjur til að mæta þeim lagakvöðum sem Alþingi er með þessu og á annan hátt að færa í síauknum mæli yfir á borgarsjóð Reykjavíkur.

Ég mótmæli þessu frv., eins og það liggur hér fyrir, og tel alfarið réttara að ríkissjóður og þar með landsmenn allir standi sameiginlega undir kostnaði við hljómsveitina.