23.04.1982
Neðri deild: 68. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4121 í B-deild Alþingistíðinda. (3702)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Frsm. (Ingólfur Guðnason):

Herra forseti. Það var út af ræðu hv. þm. Alberts Guðmundssonar sem ég kveð mér hljóðs. Ég vil benda honum og öðrum hv. þm. á bls. 6 í frv. þar sem koma fram athugasemdir við einstakar greinar. Þar er getið um skiptingu samkv. frv. sem lagt var fram 1977 og 1978. Ég þarf ekki að lesa það upp fyrir hv. þm., en þar stendur:

„Eftir framlagningu frv. 1977, en það fékk ekki afgreiðslu á því þingi, lýsti Reykjavíkurborg því yfir í bréfi, dags. 12. jan. 1979, til menntmrn., að Reykjavíkurborg gæti sætt sig við þá kostnaðarskiptingu, sem gilt hefði ef frv. hefði náð fram að ganga.“

Ég vil aðeins benda á þetta, og sjálfsagt hafa báðir menntmn. Alþingis tekið þetta gilt sem jákvæði Reykjavíkurborgar við þessari kostnaðarskiptingu.

Út af þeim brtt., sem hér eru fram komnar við frv., ætla ég ekki að gera langt mál. Mér finnst fyrri brtt., þar sem sagt er að stefnt skuli að því að eigi minna en 12% af útgjöldum hljómsveitarinnar fáist greidd af slíkum tekjum hennar, geti alveg eins verið letjandi og hvetjandi og skal ég ekki hafa fleiri orð um það.

Þá er það hitt atriðið, hvort hljóðfæraleikarar skuli vera allt að 65 eða minnst 65. Það er talið að 65 hljóðfæraleikara þurfi í minnstu gerð sinfóníuhljómsveitar. En að því slepptu: Ef mig vantar 10 menn í vinnu og ég hef heimild til að ráða minnst 10 menn eða allt að 10 mönnum ræð ég að sjálfsögðu 10 menn. Frv. í fyrstu mynd og í síðari mynd gerir ráð fyrir að hljómsveitin geti ráðið aukaleikara til einstakra verkefna. Ég sé því ekki að þetta sé veigamikið atriði sem verið er að tala um hér.

Ég get fullvissað hv. þm. Garðar Sigurðsson um að nefndarmenn hafi lesið brtt. sem fram komu frá þeim fjórmenningum. Um það er ekki deilt, heldur hvort hljómsveitin skuli vera skipuð þannig að hún geti tekið að sér flutning sinfóníuverkefna eða hvort óhæfileg sparsemissjónarmið skuli ráða og gera þannig hljómsveitina hugsanlega ófæra um gegna því hlutverki sem henni er ætlað.