23.04.1982
Neðri deild: 68. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4134 í B-deild Alþingistíðinda. (3714)

129. mál, lokunartími sölubúða

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Lokunartími sölubúða skal vera frjáls, segir í 1. gr. þessa frv., sem hér er til umfjöllunar. Tilgangur flm. er sjálfsagt sá með því að leggja til að lokunartími verslana sé gefinn frjáls, að slíkt muni auka þjónustu við neytendur og boð og bönn varðandi lokunartíma sölubúða séu ekki rétta leiðin. En þegar betur er að gáð mundu ekki einmitt felast í samþykkt þessa frv. bönn sem óeðlilegt væri að Alþingi stæði að, og mundi ekki aukin þjónusta á þessu sviði við neytendur koma fram í samkeppni milli verslana um að hafa opið sem lengst og hana yrði að kaupa því verði sem af auknum rekstrarkostnaði leiddi sem fram kæmi í hærra vöruverði? Væri ekki með samþykkt þessa frv., sem koma á í veg fyrir boð og bönn, verið að draga úr rétti stéttarfélags til að semja um vinnutíma launafólks? Væri ekki hreinlega verið að koma í veg fyrir að stéttarfélagið geti haft áhrif í þá veru að gæta hagsmuna launafólks að því er varðar óhóflegt vinnuálag á afgreiðslufólk, en hér er um hagsmunamál að ræða sem verkalýðshreyfingin hefur ávallt haft á oddinum í sinni kjarabaráttu?

Ég tel að þrátt fyrir orð hv. þm. Vilmundar Gylfasonar hér áðan sé með þessu frv. verið að draga úr gildi ákvæða í kjarasamningum afgreiðslufólks, sem kveða á um vinnutíma þess, en með því ákvæði er verið að sporna við óeðlilega löngum vinnutíma sem gegnum árin hefur fylgt verslunarstörfum. Hér er um ákvæði í kjarasamningum að ræða sem forustumenn í stéttarfélagi afgreiðslufólks hafa lengi barist fyrir að ósk launþeganna sjálfra. Ég vil t.d. benda á í því sambandi, að fyrir nokkrum árum beittu konur sér fyrir því að safna undirskriftum undir áskorun til forustumanna verslunarmanna um að þeir beittu sér fyrir því, að afgreiðslufólk ætti frí á laugardögum eins og flestar aðrar stéttir. Hér var ekki um að ræða kröfu frá nokkur hundruð manns, sem bjuggu við þetta vinnuálag, heldur nokkur þúsund. Ég held að ég fari rétt með að hér hafi verið um 4–5 þús. manns að ræða.

Hér er lagt til með ákvæði í frv. að binda hendur forustumanna verslunarfólks, sem eiga að gæta hagsmuna sem fjöldi afgreiðslufólks hefur gert kröfu til að vörður verði staðinn um. Þetta ákvæði verður einnig til þess, að sú heimild er tekin af sveitarfélögunum að setja sjálf reglur um hvernig lokunartíma sölubúða skuli háttað, en ég tel að treysta verði að þau geti tekið skynsamlegar ákvarðanir í því máli. Ég vil segja að sveitarstjórnarmenn eru ekki síður færir um það en alþm. að meta hvað er rétt og eðlilegt í þessum efnum og hvað best hentar á hverjum stað.

Í grg. með þessu frv. er talað um stífar og strangar reglur varðandi lokunartíma sölubúða í Reykjavík. Ég tel að það sé ekki sanngjarnt að tala um stífar eða strangar reglur í þessu sambandi. Það er ekki rétt að tala um stífar reglur þegar hægt er að veita þjónustu 70 stundir á viku yfir sumarmánuðina júní til ágúst og 78 stundir í viku 9 mánuði ársins.

Það, sem mest var deilt um s.l. sumar, var lokun verslana á laugardögum. Samkv. nýrri samþykkt borgarráðs nú er heimilt að hafa opið á laugardögum einnig yfir sumarmánuðina, en um það stóð deilan í sumar. Ég tel að deilur á laugardagslokunina hafi ekki í neinum mæli komið frá neytendum eða afgreiðslufólki, heldur hafi málið verið blásið óeðlilega upp af fjölmiðlum.

Ég tel einnig að það sé nokkuð ljóst, að verði lokunartími gefinn alveg frjáls muni það leiða til aukins vinnutíma afgreiðslufólks, enda, eins og hv. allshn. var skýrt frá og fram kom í umsögn Verslunarmannafélags Reykjavíkur, er eðli þessarar starfsgreinar þannig að það hefur keðjuverkandi áhrif að því er opnunartíma varðar, sem leiðir til þess að fleiri og fleiri verslanir hafa opið til að tryggja rekstrargrundvöll verslananna og halda sínum viðskiptavinum, sem óhjákvæmilega mun hafa það í för með sér að vinnutími launafólks verður lengi hvort sem því líkar betur eða verr. Ef lokunartími sölubúða væri gefinn frjáls felst einnig í þeirri ákvörðun mikil óvissa fyrir afgreiðslufólk verslana að því er frítíma þess varðar. Óvissan er auðvitað í því fólgin, að þessu fólki er gert ókleift að skipuleggja frítíma sinn. Er auðvitað sérstaklega slæmt yfir sumartímann að þurfa ávallt að vera við því búinn að atvinnurekandi kalli á menn til vinnu utan við hefðbundinn vinnutíma annarra launþega. Ég tel að það séu léttvæg rök að benda á að afgreiðslufólk þurfi ekki að vinna utan við hefðbundinn vinnutíma ef það svo óskar.

Ef núgildandi lög og reglugerðir setja kaupmanninum skorður mundi einnig frjáls opnunartími setja frítíma afgreiðslufólks miklar skorður, því að ég er þess fullviss að frjáls opnunartími mun leiða það í ljós, að afgreiðslufólk þarf að vera tilbúið til starfa utan venjulegs vinnutíma þegar atvinnurekendum dettur í hug. Frítíma afgreiðslufólks eru settar skorður að því leyti, að það verður að vera tilbúið til vinnu þegar atvinnurekandi vill hafa opið. Annars gæti það teflt atvinnuöryggi sínu í hættu því að atvinnurekandinn vill af eðlilegum ástæðum hafa þann í starfi sem tilbúinn er til vinnu þegar hann sjálfur óskar. Ástæða þess, að þeim er líka gert erfiðara fyrir með þessu, er að með ákvæði frv. eru numin úr gildi ákvæði kjarasamninga afgreiðslufólks um vinnutíma sem fylgir afgreiðslutíma verslana. Einnig liggur í augum uppi að erfitt er fyrir launþega að neita atvinnurekendum um vinnu eftir að hefðbundnum vinnutíma lýkur þegar nágrannaverslanirnar hafa opið, en atvinnuöryggi launþegans í því tilfelli helst auðvitað í hendur við rekstrargrundvöll verslunarinnar, sem byggist á að veita viðskiptavinum sínum ekki lakari þjónustu en nálægar verslanir.

Ég vil einnig benda á, að ég hef fulla samúð með kaupmanninum á horninu sem átt hefur í vök að verjast, eins og réttilega segir í grg. En ef afleiðing ákvæðisins í frv. verður samkeppni milli verslana um að hafa opið sem lengst tel ég að það sé síður en svo trygging fyrir betri stöðu kaupmannsins á horninu, eins og ég óttast að þetta ákvæði sé ekki til þeirra hagsbóta fyrir launþega sem sumir vilja vera láta.

Hvað neytendur varðar tel ég að afgreiðslutími verslana sé það rúmur, sérstaklega eftir heimildina til opnunar á laugardögum yfir sumarmánuðina, að ekki sé ástæða til að kvarta, enda líka langt frá að opinberar stofnanir bjóði upp á svo langan þjónustutíma. Ég verð að segja það líka, að margir kaupmenn nýta ekki þá möguleika sem þeir hafa til að bjóða neytendum þjónustu að því er varðar opnunartíma sem hentar þörf neytenda, og í því sambandi vil ég nefna hádegislokun margra verslana, en sú hádegislokun, sem víða á sér stað í verslunum, kemur sér auðvitað illa fyrir marga, ekki hvað síst útivinnandi konur. Spurning er, sem líka er vert að velta fyrir sér, ef afleiðing af þessu ákvæði í frv. verður samkeppni milli verslana um að hafa opið sem lengst, hvort það komi þá ekki niður á auknum rekstrarkostnaði verslana. Þá stöndum við frammi fyrir þeirri spurningu, hvort neytendur eru þá tilbúnir að kaupa þessa auknu þjónustu í auknu vöruverði og þar með aukinni verðbólgu.