05.11.1981
Sameinað þing: 14. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

67. mál, íþróttamannvirki á Laugarvatni

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Mér þykir rétt að segja nokkur orð í sambandi við flutning þessarar þáltill. Ég hlýddi á ræðu hv. flm. af nokkurri athygli. Í ræðu hans kom vissulega margt það fram sem vert er að menn leggi sér á minnið þegar rætt er um Laugarvatnsstað, og skal ég ekki hafa mörg orð um það. Ég held að söguleg rakning þessa máls af hálfu flm. hafi verið rétt og á þann hátt sem auðvitað flestir þekkja. Og ýmis áhersluatriði, sem komu fram í máli hans, eru þess eðlis að ég get fyllilega tekið undir þau. Þó kemst ég ekki hjá því að segja hér nokkur orð í sambandi við flutning þessarar þáltill., varðandi þann málflutning sem hv. flm. hafði í frammi.

Ég vil minna á það, og það er mjög brýnt að menn leggi það á minnið, að um Íþróttakennaraskóla Íslands gilda lög sem samþykkt voru á þingi 1972. Mér eru þau ákaflega vel kunnug vegna þess að ég átti þó nokkurn þátt í að semja þessi lög og vinna að því að þau yrðu það sem þau eru, lögin um Íþróttakennaraskólann. Ég vil minna á það, að í 14. gr. þeirra laga stendur skýrum orðum að skólinn hafi aðsetur á Laugarvatni, sem þýðir auðvitað ekki annað en að það er lagaskylda, það er lögboðið að Íþróttakennaraskóli Íslands skuli eiga heima á Laugarvatni. Þar er þessi skóli, þar hefur hann ætíð verið og þar mun hann verða svo lengi sem ég sé fram í tímann. Það er engin breyting fyrirhuguð á þeirri stefnu að skólinn sé á Laugarvatni og starfi þar. Þvert á móti hefur það verið stefna fyrirrennara minna sem setið hafa á ráðherrastóli og það er stefna mín og núv. ríkisstj., að Íþróttaskólinn verði á Laugarvatni og verði byggður þar upp til frambúðar. Það er nauðsynlegt að þetta komi skýrt fram, vegna þess að þó ég ætli ekki að fara að gagnrýna allt sem hv. flm. sagði, þá var hægt að misskilja sumt í ræðu hans þannig, að það var nauðsynlegt að leiðrétta og skýra hvað hér er raunverulega um að ræða. Íþróttakennaraskóli Íslands á heima á Laugarvatni og það eru engar breytingar fyrirhugaðar á þeirri stefnu.

Það, sem ég vil setja sérstaklega út á í ræðu hv. þm. sem hér talaði fyrir málinu, er það — ég hygg að það komi að einhverju leyti fram í grg. fyrir till. — að menn í menntmrn., starfsmenn í menntmrn. trúi ég eða stjórnendur menntamála, eins og hann orðar það í grg., séu á einhvern hátt andvígir skólastaðnum á Laugarvatni. Ég veit ekki til þess, að í menntmrn. sé nokkur maður sem látið hafi í ljós andstöðu gegn því að skólinn sé á Laugarvatni og verði þar í framtíðinni. Ég vil þess vegna biðja hv. flm. að vera svo vinsamlegur í minn garð að upplýsa mig um það, hvaða menn það eru, starfsmenn í ráðuneytinu eða yfirmenn menntamála, sem hafa látið í ljós slíka skoðun. Mér er þetta algjörlega ókunnugt og tel að þarna sé farið með rangt mál. Þetta tel ég mjög alvarlegt og vil finna að þessu við hv. þm., þó að ég ætli ekki að gera lítið úr áhuga hans á að Íþróttakennaraskólinn á Laugarvatni vaxi og eflist og fái nægilegt fjármagn til að byggja upp sína starfsemi á þeim stað þar sem lög ætla honum aðsetur nú og í framtíðinni.

Hvað varðar mig sjálfan, þá vil ég taka það fram, að það er mjög skýr og ákveðin stefna mín að Íþróttakennaraskólinn verði á Laugarvatni nú eins og áður hefur verið. Ég er orðinn svo gamall í hettunni að ég vann að undirbúningi þeirra laga sem nú gilda um skólann, frá 1972. Minnist ég vissulega margs konar umræðna um skólann á þeirri tíð, fyrir u. þ. b. 10 árum. Skal ég fúslega viðurkenna að upp komu raddir án þess að ég viti til að það hafi verið stórir hópar manna, — vissulega komu upp raddir í þá veru, að æskilegt væri að skólinn flyttist til Reykjavíkur og tengdist beinlínis og væri næstum að segja samvaxinn Kennaraháskólanum í Reykjavík. Þessi skoðun kom fram fyrir 10 árum eða svo, og það má vel vera að til séu menn í landinu sem hafa þessa skoðun. Enn ég vil taka það skýrt fram, og ég vona að hv. flm. taki tillit til þeirra orða minna, að ég þekki engan mann í menntmrn. sem hefur þessa skoðun og enginn maður, sem áhrif hefur í þeirri stofnun, beitir áhrifum sínum í þá átt eða lætur slíki álit í ljós. Þetta þykir mér mjög nauðsynlegt að komi fram vegna þeirra orða sem hér féllu hjá hv. flm. og reyndar má finna stað í grg. fyrir tillögunni.

En svo ég reki þetta mál nánar, þá skal ég ekki gera það langt aftur í tímann. Það gerði flm. hér þannig að menn átta sig á því sögulega séð. Það, sem hefur gerst nýlega í þessum málum, en á sér að sjálfsögðu langan aðdraganda, er að ég sem menntmrh. staðfesti teikningar að byggingu íþróttahússins á Laugarvatni í júnímánuði 1980. Þar með var búið að marka formlega þá stefnu sem ég vona að ég fái tækifæri til að framkvæma og þeir sem á eftir mér verða í ráðherrastóli, sem sjálfsagt getur orðið fyrr en — ja, ekki kannske fyrr en varir, en a. m. k. sit ég þar ekki alla tíð, það er alveg ljóst. (Gripið fram í.) Ég þori ekki að nefna það. En ég hef reyndar hugsað mér að sitja hér enn þá í tvö ár.

En svo ég haldi áfram með þetta, þá markaði ég þessa stefnu formlega mjög skýrt með minni undirskrift í júnímánuði 1980, og það var tekið tillit til þess. Ríkisstj. stendur vissulega á bak við þessa stefnumörkun. Hitt er annað mál og það hlýt ég að segja hér, að þrátt fyrir tillögugerð mína til fjmrh. um ríflegar fjárveitingar til byggingar íþróttahússins bæði fyrir fjárlagaárið sem nú er að líða, 1981, og fyrir næsta fjárlagaár, hefur fjmrh. ekki tekið þannig undir að ég hafi getað sætt mig við það, hvað þá að ég sé ánægður með það. Þetta er staðreynd, og ég hygg að það sé ekkert nýtt, að ýmsir ráðh. hafi ekki á hverri tíð komið öllum sínum fjárlagaóskum fram. En ég vil undirstrika það, að stefnan í þessu máli er mörkuð. Og þó að fjmrh. hafi því miður ekki ævinlega tekið nægilega vel undir þessar óskir mínar, þá er ég ekki í nokkrum vafa um að hann stendur að þeirri stefnumörkun að íþróttahúsið á Laugarvatni rísi. Mér dettur ekki í hug að halda annað.

Ég vil geta þess, að við fjárlagagerðina á þessu sumri lagði ég til að til byggingarinnar yrði varið 5.2 millj. kr. til þess að hægt væri að halda áfram myndarlegum framkvæmdum á árinu 1982. Því miður treysti fjmrh. sér ekki til að verða við þessum tilmælum, og þess vegna lagði hann fram fjárlagafrv. án þess að þar væri viðunandi upphæð til skólans. Það er verkefni Alþingis nú sem oft áður að meta þessa gerð fjmrh. og kanna hvort ekki séu möguleikar á því að hækka þá tölu sem er í fjárlagafrv. Ég geri mér auðvitað vonir um það allt til síðasta dags, að undir þetta verði tekið af fjvn. Ég mun leggja mikla áherslu á það við fjvn., að þetta verði gert, og ég get líka lýst yfir því, að bæði flokksmenn mínir í fjvn. og þingflokkur minn mun gera sitt til þess að sú fjárveiting, sem veitt verður til byggingar íþróttahússins á Laugarvatni, verði rífleg á næsta ári.

Í raun og veru hef ég ekki miklu við þetta að bæta að öðru leyti en því að skýra gang málsins eins og hann er nú. Ég hef viljað leggja áherslu á það, að stefnan í þessu máli er mörkuð af minni hálfu og að ég tel að þessi stefna hafi fullan skilning áhrifamanna í menntamálum og þá ekki síst manna í íþróttahreyfingunni. Ég efast þess vegna í sjálfu sér ekki um það, að íþróttahúsið á Laugarvatni eigi eftir að rísa fyrr en síðar, jafnvel þó að á þessum dögum syrti örlítið í álinn og við höfum ekki borðliggjandi peningaupphæðir í höndunum. Ég held að yfirleitt sé svo mikil samstaða um þetta mál, um þá stefnu að Íþróttakennaraskólann þurfi að efla, og þá sérstaklega nú eins og sakir standa að byggja íþróttahús og sundlaug og ýmsa slíka aðstöðu á Laugarvatni, að ég óttast ekki að þetta mál eigi ekki eftir að ganga fram. Ég held þess vegna að hv. flm. þurfi ekki að hafa jafnmiklar áhyggjur af þessu máli og fram virtist koma í máli hans og eins og fram kemur í því, að hann telur sig knúinn til að flytja hér sérstaka þáltill. um þetta mál, sem reyndar er til meðferðar í Alþingi. Verður það að teljast að ýmsu leyti óvenjuleg aðferð, þó að ég ætli ekki að fjölyrða um það eða hafa uppi sérstaka gagnrýni þar um.

Það, sem ég vil sem sagt leggja höfuðáherslu á, er þetta. að stefnan er mörkuð í þessum málum og það er engin breyting fyrirhuguð um það, hvar Íþróttakennaraskóli Íslands mun starfa. Það er á Laugarvatni, og það er liður í því að efla staðinn á Laugarvatni og reyndar liður í því að efla skólann sjálfan. Ég hygg að það sé hollt og til bóta fyrir skólann og nemendur hans að vera á Laugarvatni. Þess vegna getur ekki orðið af minni hálfu um neina breytingu þar að ræða. Og ég þekki engan málsmetandi mann eða áhrifamann sem leggur sig fram um að breyta þeirri stefnu.

Gaman væri reyndar að tala meira um Laugarvatnsstað og ástandið þar. Það er hverju orði sannara, að þar er að mörgu að hyggja. Á Laugarvatni starfa margir skólar. Laugarvatn hefur verið að byggjast upp sem skólastaður nú undanfarin 52–54 ár. Þessi staður hefur risið af miklum myndarskap og er með allra myndarlegustu skólastöðum á landinu„ Og ég tek undir það með hv. flm., að það má ekki verða nein breyting á því að Laugarvatn haldi þessari stöðu sinni sem myndarlegur skólastaður, og ég held reyndar að ekki sé um það að ræða. Ég tek undir það með flm., að yfirleitt er það svo með skólana þar, að þeir eru vel sóttir og þeir eru góðir skólar. Það er að vísu nokkur afturkippur í hússtjórnarskólanum á Laugarvatni, því miður, reyndar verulegur afturkippur og ekki nægileg skólasókn, en það er líka undantekning frá reglu. Ég ber engan kviðboga fyrir því, að Laugarvatn eigi eftir að setja eitthvað niður sem myndarlegan skólastað. Það held ég ekki. Ég held að það haldi áfram að vera það, og ég veit reyndar að svo mun verða. Ég þekki m. a. það til skólastjóranna og kennaraliðsins í öllum skólanum á staðnum að ég veit að þar er unnið af áhuga og dugnaði af öllum aðilum, og ég efa ekki að svo mun verða í framtíðinni. En ég skal líka taka undir það, að ef efla á þennan stað og sjá til þess, að hann geti haldið sínu, eins og hann nú er, þá er mjög mikilvægt atriði að Íþróttakennaraskólinn sé þar áfram, að hann verði efldur og gengið verði í að koma upp þeim mannvirkjum sem brýnust eru fyrir þá stofnun.

Að öðru leyti ætla ég ekki að ræða þetta mál, herra forseti. Ég vænti að orð mín hafi skýrt eitt og annað af því sem mér fannst vera misskilið í máli hv. flm. áðan.