05.11.1981
Sameinað þing: 14. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í B-deild Alþingistíðinda. (374)

67. mál, íþróttamannvirki á Laugarvatni

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég get af heilum huga tekið undir síðustu orð hv. þm. Árna Gunnarssonar, þar sem hann vænti þess, að þeir, sem á eftir töluðu, tækju vel undir efni málsins sem hér er til umr. Ég vil einnig geta þess, að ég er algerlega á sömu skoðun og flm. þessarar till. þegar hann skorar í sínum lokaorðum á alþm. að sameinast um að auka fjármagnið sem til þessara hluta þarf og á að ganga á árinu 1982. Og ég veit að menn væna ekki þm. Suðurlands um að þeir hafi ekki gert sitt til þess að fá sem ríflegastar fjárveitingar til Íþróttakennaraskólans á Laugarvatni þó að íþróttahúsið sé ekki komið upp úr jörðinni enn þá.

Þegar ég hlustaði á ræðu flm., hv. þm. Baldurs Óskarssonar, verð ég að segja það, að mér þótti efnismeðferð málsins öll óvenjuleg og þáltill., sem hann hefur borið hér fram, er vægast sagt ekki þingleg. Lítum á orðalagið á till. eins og hún er sett fram: „Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að sjá svo um að nú þegar verði hafist handa við byggingu fyrirhugaðra íþróttamannvirkja á Laugarvatni.“ Hvað merkir þetta ef við þýðum það á venjulegt mál? Það hljóðar þannig, að Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að Alþingi samþykki fjárveitingar til þessa mannvirkis. Alþingi skorar á ríkisstj. að ríkisstjórnin skori á Alþingi. Ég verð að segja það, að mér finnst ekki þm. sæmandi að koma fram með svona till. til samþykktar og umr. hér í þinginu. Og ég hefði ekki tekið til máls um þessa till. ef það væri ekki eingöngu fyrir mikilvægi málsins að mér finnst nauðsynlegt að það komi fram — og það komi sem víðast fram, að menn hafa áhuga á að þessar byggingar rísi. Efni málsins er það, sem hér er búið að ræða sérstaklega af hv. þm. Árna Gunnarssyni, að leggja á það áherslu að fjárveitingar verði auknar til Íþróttakennaraskólans á Laugarvatni.

Rætt var um það áðan, að hv. þm. Baldur Óskarsson ætti þakkir skildar fyrir að hafa mætt á fundi austur á Laugarvatni, svokölluðum baráttufundi um þessi mál. Ég held að erfitt verði að áfellast okkur þm. Sjálfstfl. fyrir að hafa ekki farið á þann fund sem okkur var ekki boðaður sérstaklega og var haldinn á þeim degi þegar við vorum að byrja okkar landsfund, svo að útilokað var að við gætum sótt hann. En sem betur fer er til töluvert af fréttamönnum og m. a. hefur Þjóðviljinn birt frétt frá þessum fundi í dag. Vil ég — með leyfi forseta — fara með stuttan kafla úr þeirri frétt:

„Mjög fjölmennur baráttufundur fyrir byggingu íþróttamannvirkja á Laugarvatni var haldinn í Menntaskólanum að Laugarvatni 29. okt. s. l. Fundinn sóttu ekki færri en 400 manns, flestir nemendur og kennarar skólanna auk margra annarra íbúa Laugardalshrepps og fleiri. Hátíðarsalur ML var troðfullur og komið fyrir hátölurum. Nefnd skipuð fulltrúum nemenda allra skólanna hafði undirbúið fundinn og boðað til hans í samráði við skólastjórana.“

Eins og sjá má er fólkinu mikið í hug á Laugarvatni og ég tek ekki til þess. Það er búið að lýsa þeim þrengingum sem það er í í sambandi við íþróttakennslu á staðnum, og það er því lífsspursmál fyrir skólana þar að fá úrbætur í þessu efni. En það er fyrst og fremst lífsspursmál fyrir Íþróttakennaraskóla Íslands að hann fái upp þessa byggingu. Það er veigamesta atriðið í þessu og það sem við verðum að leggja höfuðáherslu á.

Fréttin heldur áfram á þessa leið og tek ég ekki úr henni nema eina málsgrein til viðbótar:

„Baldur Óskarsson, sem situr nú á Alþingi sem varamaður fyrir Suðurlandskjördæmi, sat fundinn og tók til máls. Hann lýsti eindregnum stuðningi við baráttumál fundarins og hét að vinna að framgangi þess á Alþingi með öllum tiltækum ráðum. Einnig er vitað um eindreginn stuðning allra annarra þm. Suðurlandskjördæmis og raunar miklu fleiri. Kvaðst þingmaðurinn mundu hafa samráð við þá.“

Ég ætla nú ekki að fara að segja neitt ljótt um hv. þm., en þetta loforð við fundinn hefur hann ekki efnt. Hann hefur ekki orðað það við mig eða mér vitanlega neinn annan þm. Suðurl. að hann hefði í hyggju að flytja till. um þetta efni. Og ég harma það að hann gerði það ekki, því að ef hann hefði gert það hefðum við e. t. v. getað komið vitinu fyrir hann þannig að þessi till., sem hann flutti, væri ekki þess eðlis, að við megum þakka fyrir að hún verkar ekki í neikvæða átt, gagnstætt við það sem við óskum eftir sjálfir.

Ég ætla ekki að ræða langt mál um þessi efni, en ég vil segja það, að þegar fjárlögin fyrir árið 1981 voru til umfjöllunar á Alþingi var í fjárlagafrv. gert ráð fyrir að til byggingar íþróttahússins á Laugarvatni færu 35 millj. kr. Það var sá hugur sem hæstv. fjmrh. hafði til þess mannvirkis á því ári, að ætla 35 millj. í bygginguna. Í meðförum fjvn. og Alþingis var þessari tölu breytt. Hún var nær þrefölduð og var sett upp í 100 millj. kr. Og ég verð að segja það, að þó svo það ólán fylgi okkur að þessu sinni, að fjmrh. virðist ekki hafa áhuga eða trú á þessari framkvæmd og hafi nú lagt til 25 millj., ef við miðum við gamla aura áfram, lagt til 25 millj. til þessara verka, þá hef ég þá trú að hv. Alþingi og fjvn. fari eitthvað svipaðar leiðir og á síðasta ári og breyti þessari tölu verulega, þannig að ekkert fari á milli mála hvað Alþingi vill í því efni.

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að tala miklu lengra mál um þessi efni. Ég vil aðeins harma að svona hefur tekist til með málatilbúnað. Þar er engum um að kenna öðrum en hv. flm. þessarar till. Ég vil fastlega vona að þetta óviturlega frumhlaup hv. þm. verði ekki til þess, að hv. alþm. taki neikvæða afstöðu til þessa mikilvæga máls sem svo klaufalega er lagt fyrir hv. Alþingi. Skólinn þarf á skilningi og stuðningi að halda. Hann þarf á því að halda að sem flestir alþm. taki höndum saman um það, að stöðugt framhald geti orðið á uppbyggingu skólans þangað til hann er kominn í það horf sem áætlanir eru nú um. Ég verð að segja það að vísu, að hv. þm. Baldur Óskarsson er ungur maður og óreyndur hér á Alþingi. Þessi byrjun hans í málatilbúnaði er slæm, hún er vond, af því að hún er hættuleg. Ég vil gefa honum það heilræði, að þótt hann hafi e. t. v. áhuga á að gera opinberlega veg flokksbróður síns, hæstv. fjmrh., sem minnstan, þá má hann ekki stofna góðum málum í tvísýnu með slíku asnasparki sem þessi till. bendir til að verði.