24.04.1982
Efri deild: 70. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4145 í B-deild Alþingistíðinda. (3743)

215. mál, skattskylda innlánsstofnana

Frsm. meiri hl. (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. Ed. hefur tekið til athugunar frv. til l. um skattskyldu innlánsstofnana og haldið allmarga fundi um þetta mál og fjallað ítarlega um frv. Til fundar við nefndina hafa mætt fulltrúar frá Sambandi ísl. viðskiptabanka, Sambandi ísl. sparisjóða, og Bankaeftirlitinu svo og bankastjórn Seðlabanka Íslands. Þá hafa nefndinni borist umsagnir, greinargerðir og bréf frá ofangreindum aðilum svo og frá Iðnaðarbanka Íslands hf., Verslunarráði Íslands o.fl. Nefndin klofnaði í afstöðu sinni til málsins og leggur meiri hl. n. til að frv. verði samþykkt með breytingum sem fluttar eru á sérstöku þskj.

Í þessum viðtölum öllum svo og umsögnum og greinargerðum komu fram ýmsar upplýsingar og aths., svo sem ekki er óeðlilegt þegar lagt er til að taka upp álagningu tekju- og eignarskatts á innlánsstofnanir sem fram til þessa hafa ekki greitt slíka skatta. Sú aths., sem fulltrúar innlánsstofnananna lögðu hvað mesta áherslu á, var að skattskylda mætti ekki leiða til þess, að eiginfjárstaða þessara stofnana rýrnaði frá því sem nú er. Eiginfjárstaðan er grundvöllur þess öryggis, er innstæðueigendur njóta, svo og trausts innlánsstofnananna bæði út á við og inn á við. Bent er á mikilvægi þess að lögfesta ákvæðin um lágmarkshlutfall milli eigin fjár innlánsstofnana annars vegar og innlána og annarra skuldbindinga þeirra hins vegar. Slík ákvæði munu vera lögfest í flestum nágrannalöndum. Hér á landi eru slík ákvæði í lögum um sparisjóði frá árinu 1941, en lengi hefur verið ljóst að þau ákvæði þarfnast endurskoðunar. Slík eiginfjárákvæði er ekki að finna í löggjöf viðskiptabankanna, en í lögum Verslunarbankans, Samvinnubankans og Alþýðubankans er þó kveðið á um takmarkanir á heimildum til arðgreiðslu ef hlutfall eiginfjár og innlána er undir tilteknu marki.

Á undanförnum árum hafa margoft komið fram ábendingar um nauðsyn þess að setja í lög ákvæði um lágmarkseiginfjárhlutfall viðskiptabankanna. Nú er að störfum nefnd sem er að endurskoða bankastarfsemina í landinu undir forustu hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar, formanns fjh.- og viðskn. Nd. og formanns bankaráðs Seðlabanka Íslands, og verður að telja líklegt að frá þeirri nefnd komi tillögur um lögfestingu slíkra ákvæða.

Þá komu einnig fram aths. varðandi álagningu veltuskatts á árinu 1982. Er á það bent í bréfi Seðlabanka Íslands til nefndarinnar, að slík álagning geti haft mjög alvarleg áhrif á fjárhag þeirra innlánsstofnana er standa tæpast að því er varðar afkomu og eigið fé. Er þar um að ræða ýmsa smáa sparisjóði. Einnig er á það bent í bréfi Seðlabankans, að ekki komi fram í frv. hvort veltuskattur á árinu 1982 verði frádráttarhæfur við álagningu tekjuskatts á tekjur þessa árs, sem framkvæma á á árinu 1983 samkv. ákvæðum frv. Brtt., sem meiri hl. n. leggur til við frv. og fluttar eru á þskj. 694, ganga í þá átt að mæta þessum sjónarmiðum.

1. brtt. á því þskj. er um að við frv. bætist ný grein er verði 5. gr. frv. og hljóði svo:

„Þar til álagning liggur fyrir, skulu skattskyldir aðilar samkv. lögum þessum greiða mánaðarlega fyrirframgreiðslu vegna væntanlegrar álagningar tekju- og eignarskatts, sem ákvarðast með eftirgreindum hætti:

Fyrirframgreiðslan skal vera 0.06% af heildarinnlánum þeirra aðila, sem skattskyldir eru samkv. lögum þessum.

Stofn til fyrirframgreiðslu skal vera innstæðufé viðkomandi aðila í lok hvers mánaðar, sbr. 11. gr. laga nr. 10/1961, um Seðlabanka Íslands, og 31. gr. laga nr. 13/1979, um breytingu á þeim lögum, sbr. enn fremur reglur Seðlabanka Íslands um innlánsbindingu frá 21. des. 1981.

Fyrirframgreiðslan skal innheimt af Seðlabanka Íslands og greidd fyrir hvern mánuð miðað við innstæðufé í lok næstliðins mánaðar. Gjalddagi fyrirframgreiðslunnar er 15. dagur eftir lok næstliðins mánaðar og eindagi 10 dögum síðar. Greiðslunni skal fylgja greinargerð skattskylds aðila í því formi er ríkisskattstjóri ákveður.

Seðlabanki Íslands skal mánaðarlega skila viðkomandi skattstjórum greinargerðum þeim sem honum hafa borist vegna s.l. mánaðar.

Ákvæði laga um launaskatt að því er varðar vanskil, viðurlög vegna vanskila, könnun á skilum, ákvörðun skila vegna vanrækslu eða vanskila á greinargerð, greiðsluskrár, kærufresti, úrskurði á kærum og áfrýjun þeirra skulu gilda um fyrirframgreiðslu þessa eftir því sem við á.

Að öðru leyti skulu gilda, eftir því sem við geta átt, ákvæði XIII. kafla laga nr. 75/1981 um innheimtu og ábyrgð á fyrirframgreiðslu samkv. þessari grein.“

Svo hljóðar 1. brtt. meiri hl. n. á þskj. 694. Hér er komið í veg fyrir tvísköttun, en tekið upp nokkurs konar staðgreiðslukerfi skatta á innlánsstofnanir sem innheimt verði með veltuskattsforminu og verði fyrirframgreiðsla þar til álagning tekju- og eignarskatts liggur fyrir. Fyrirframgreiðsla skal innheimt af Seðlabanka Íslands og eru ákvæðin um, hvernig hún ákvarðast og innheimtist, þau sömu og eru um veltuskattinn, sbr. ákvæði IV til bráðabirgða í frv. Verði fyrirframgreiðslan hærri upphæð en endanleg álagning tekju- og eignarskatts skal með endurgreiðslu fara eins og segir í XIII. kafla laga nr. 75 frá 1981, sbr. síðustu mgr. í þessari brtt. Þau ákvæði er að finna í 112. gr. laganna og hljóða svo, með leyfi forseta, þ.e. 2. mgr. 112. gr.:

„Nú verður ljóst, þegar álagningu skatta lýkur eða við endurákvörðun skatta, að gjaldandi hefur greitt meira en endanlega álögðum sköttum nemur, og skal þá endurgreiða það sem ofgreitt var ásamt vöxtum fyrir það tímabil sem féð var í vörslu ríkissjóðs. Skulu vextir þessir jafnháir vöxtum sem greiddir eru af almennum sparisjóðsinnstæðum, sbr. 13. gr. laga nr. 10/1961 og ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma.“

2. brtt. á þskj. 694 er við 6. gr. frv„ er verði 7. gr. og hljóði svo:

„Lög þessi öðlast þegar gildi og skulu koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 1984 vegna tekna á árinu 1983 og eigna í lok þess árs. Ákvæði 5. gr. kemur þó til framkvæmda í fyrsta skipti vegna heildarinnlána í lok jan. 1983.“

Hér er gerð grein fyrir því, að fyrsta álagning tekju- og eignarskatts skuli framkvæmd árið 1984 vegna tekna ársins 1983 og eigna í lok þess árs og eru þá innheimtuákvæðin í 1. brtt. um fyrirframgreiðslu í raun staðgreiðsla skatta og er þannig komið í veg fyrir tvísköttun svo sem áður er getið.

3.–6. brtt. á þskj. 694 eru allt breytingar sem stafa af því, að álagningu tekju- og eignarskatts er frestað um eitt ár, sbr. 2. brtt., nema ákvæði í c-lið 3. brtt., þar sem aðeins er um orðalagsbreytingu að ræða, að í stað orðanna „þessarar greinar“ komi orðin: þessa ákvæðis.

Í 6. brtt. er gert ráð fyrir að við 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða IV bætist nýr málsliður svohljóðandi: „Undanþegnir skatti þessum eru þeir sparisjóðir þar sem innstæður námu lægri fjárhæð en 30 millj. kr. hinn 31. des. 1981.“

Hér er komið verulega til móts við þá ábendingu, að veltuskatturinn verður minnstu sparisjóðunum þungur í skauti. Eru allir sparisjóðir, sem voru með minni innstæður en 30 millj. um s.l. áramót, undanþegnir greiðslu veltuskattsins. Er hér um að ræða 33 af 42 sparisjóðum sem til eru í landinu og eru því aðeins 9 stærstu sparisjóðirnir sem greiða veltuskattinn.

7. brtt. gerir ráð fyrir að ákvæðum um endurskoðun laga þessara verði frestað um eitt ár og verði þau tekin til endurskoðunar eigi síðar en í árslok 1984. Má þá gera ráð fyrir að búið verði að taka upp almennt staðgreiðslukerfi skatta hér á landi og verði þá hægt að fella þessi lög á eðlilegan hátt að þeirri löggjöf svo og endurskoða aðra þætti þeirra í ljósi fenginnar reynslu af framkvæmd.

Herra forseti. Ég held að ég hefi þá gert grein fyrir þeim brtt. sem meiri hl. fjh.- og viðskn. flytur á þskj. 694. Undir nál. meiri hl. skrifa eftirtaldir þm., sem jafnframt eru þá flm. þessara brtt. Það eru hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, Guðmundur Bjarnason, Gunnar Thoroddsen og Davíð Aðalsteinsson sem skrifar undir nál. með fyrirvara.