24.04.1982
Efri deild: 70. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4150 í B-deild Alþingistíðinda. (3745)

215. mál, skattskylda innlánsstofnana

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Í sjálfu sér hef ég ekki miklu að bæta við það sem hv. frsm. nefndarálita hafa sagt hér. Ég vildi þó ekki láta hjá líða að tala örfá orð í þessu sambandi.

Það skal játað, að alveg frá því fyrst að talað var um skattskyldu innlánsstofnana og fyrirhugað var að leggja fram frv. í því skyni hafði ég efasemdir varðandi það. Þó skal játað að ég hafði í sjálfu sér ekki fyrirvara og neitaði því ekki, að það kynni að vera eðlilegt að leggja skatt með þessum hætti eða öðrum á innlánsstofnanir. Hins vegar hefur það komið í ljós við umfjöllun þessa máls í fjh.- og viðskn., að skattlagning af þessu tagi, miðað við þær aðstæður sem bankarnir á Íslandi búa við, er hæpin, svo að ekki sé fastar að orði kveðið.

Það hefur mikið verið rætt um vaxtamun og þykir einsýnt að þessi skattur krefji um að vaxtamunur verði aukinn, þ.e. munur innláns- og útlánsvaxta. Það var nokkuð rætt um það í nefndinni, með hvaða hætti vextir væru ákvarðaðir í löndunum næst okkur og lengra frá, í ljósi þess, að þar er skattur lagður á banka. Þessi samanburður sýnist mjög ójafn varðandi ákvörðun vaxta, vegna þess að hérlendis er ákvörðun vaxta svo að segja í öllum atriðum í ljósi stjórnvaldsaðgerða, en erlendis, þar sem skattur er lagður á banka, eru menn frjálsari að því að ákvarða vexti. Þeim efnahagsþáttum er ekki eins miðstýrt og hjá okkur.

Í upphafi máls míns lýsti ég því, að ég hefði ekki neitað því, að til greina kæmi að leggja skatt á innlánsstofnanir. Ég tel mig að vissu leyti bundinn þessu. M.a. vegna þess treysti ég mér ekki til að bregða fæti fyrir þetta frv., en ég gat ekki látið hjá líða að lýsa fullum efasemdum mínum varðandi það. Raunar hefði ég talið skynsamlegustu málsmeðferðina þá sem minni hl. fjh.- og viðskn. leggur til, vegna þess að málið er mjög illa undirbúið.

Ég endurtek: Ég mun þó í ljósi þess, sem ég hef sagt og sagði fyrst í minni ræðu, standa við og samþykkja þetta frv.