24.04.1982
Neðri deild: 70. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4155 í B-deild Alþingistíðinda. (3772)

191. mál, Blindrabókasafn Íslands

Frsm. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Menntmn. Nd. hefur farið yfir frv. um Blindrabókasafn Íslands og mælir með því, eins og fram kemur á þskj. 696 í nál., að frv. verði samþykkt óbreytt. Undir þetta rita allir nm. í menntmn., en Guðrún Helgadóttir var fjarverandi afgreiðslu málsins.

Þá var um það rætt í nefndinni í fyrsta lagi, að vitaskuld væri það skoðun nm. að hér væri um feikilega mikilvægt hagsmunamál þessa fólks að ræða, en í annan stað væri þetta frv. eins konar stjórnarskrá fyrir þetta blindrabókasafn. Það mun hins vegar ráðast af fjárveitingum á næstu árum hvernig það verður í stakk búið. Þetta kemur raunar fram í nál. sem gefið var út í menntmn. Ed., en nefndin þar taldi nauðsynlegt að athugað yrði síðar á þessu ári eða næsta ári hvort fjármögnun þessarar þjónustu við sjónskert aldrað fólk og blinda gæti að hluta tengst ákveðnum sjóðum eða með öðrum hætti verið tryggðar reglubundnar tekjur til þessarar starfsemi. Það var rætt í menntmn. Nd. að taka mjög undir þessi sjónarmið sem fram komu í menntmn. Ed.

Þá má geta þess, að menntmn. hafa borist skeyti víða að, þar sem beint er áskorun til alþm. um að samþykkja þetta frv., m.a. frá Héraðsbókasafni Borgarfjarðar undirritað af Bjarna Bachmann. Slíkt skeyti hefur og komið frá Héraðsbókasafni Kjósarsýslu undirritað af Jóni Sævari Baldvinssyni. Slíkt skeyti hefur komið frá Bæjar- og héraðsbókasafni á Akranesi og bókasafni sjúkrahússins þar undirritað af Halldóru Jónsdóttur og Sigríði Árnadóttur. Slíkt skeyti hefur einnig komið frá Ísafirði, þar sem eindregið er skorað á alþm. að styðja framgang frv. um Blindrabókasafn Íslands á þessu þingi og tryggja þar með eflingu þessarar starfsemi, og er það undirritað af Jóhanni Hinrikssyni forstöðumanni bókasafnsins á Ísafirði.

Að lokum, herra forseti, menntmn. Nd. leggur öll til að þetta frv. um Blindrabókasafn Íslands verði samþykkt óbreytt.