24.04.1982
Neðri deild: 70. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4156 í B-deild Alþingistíðinda. (3776)

258. mál, Viðlagatrygging Íslands

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Hér er um að ræða frv. sem hefur í för með sér, ef samþykkt verður, allmiklar breytingar á lögum um Viðlagatryggingu Íslands. Frv. gerir ráð fyrir að unnt verði að tryggja mannvirki vegna afleiðinga meiri háttar náttúruhamfara.

Á árinu 1980 skipaði heilbr.- og trmrh. nefnd til að kanna möguleika á að tryggja þjóðina fyrir áföllum af meiri háttar náttúruhamförum. Verkefni nefndarinnar var jafnframt endurskoðun á lögum nr. 52/1975, um Viðlagatryggingu Íslands. Frv. það, sem hér er flutt, er nákvæmlega eins og nefndin lagði til að lögunum um Viðlagatryggingu Íslands yrði breytt.

Í umr. um málið í hv. Ed. gerði ég rækilega grein fyrir efni máls þessa, og í grg. með frv. er farið rækilega yfir helstu atriði þess. Meginatriði frv. eru þau, að gert er ráð fyrir verulegri útfærslu á tryggingasviði Viðlagatryggingar Íslands. Þau mannvirki, sem gert er ráð fyrir að tryggingaskylda nái til, umfram það sem verið hefur, eru hitaveitur, vatnsveitur, skolpveitur, hafnarmannvirki, brýr, raforkuvirki, þar með talin dreifikerfi, stíflur og veitumannvirki, sími og önnur fjarskiptakerfi, þar með talin dreifikerfi sjónvarps, hljóðvarps og flugþjónustu, og loks ræktað land og lóðir.

Í greinargerðinni kemur fram hvaða verðmæti hér er um að ræða í fjármunum, en það tók langan tíma fyrir nefndina, sem undirbjó frv., að fá upplýsingar um áætlað verðmæti þeirra eigna sem hér er um að ræða. Nefndin lét gera kort af þeim svæðum sem helst kynnu að vera í hættu í þessum efnum, og eru þau kort birt í grg. frv. þar sem kemur fram hvaða svæði það eru sem helst er ástæða til að hafa í huga í þessu sambandi. Því miður eru kortin í svarthvítu og gera þar af leiðandi ekki sama gagn og ella væri, en ég hygg þó að þau sýni nokkuð hvaða svæði hér er helst um að ræða.

Í 3. gr. frv. er fjallað um sjálfsábyrgð af hverju einstöku tjóni, lágmarksupphæðir, og í 4. gr. er fjallað um árlegt iðgjald, sem sé 0.25 0/00 eða 0.20 0/00.

Í 8. gr. frv. er um að ræða breytingu sem er af nokkuð öðrum toga en almennt í frv., en þar er lagt til að stjórn stofnunarinnar, þ.e. Viðlagatryggingar Íslands, verði heimilt að verja nokkru fé til rannsókna á eðli náttúruhamfara með það í huga að unnt verði að koma við fyrirbyggjandi aðgerðum, enn fremur að stjórn Viðlagatryggingar Íslands sé heimilt að veita styrki til björgunarsveita vegna starfsemi sem Almannavarnir ríkisins viðurkenni. Þessi brtt. er fram komin eftir ábendingu sem kom til mín og rn. frá hv. fjvn.

Ég vil geta þess, herra forseti, í tengslum við þetta frv., að ríkisstj. hefur nýlega skipað nefnd til að endurskoða lög um Bjargráðasjóð Íslands. Er nauðsynlegt við meðferð þessa máls hér á hv. Alþingi að taka tillit til þeirrar endurskoðunar sem farið hefur verið fram á lögum um Bjargráðasjóð Íslands, vegna þess að þar er um að ræða viðamikla endurskoðun á þeim lögum sem gæti snert verkefni viðlagatryggingarinnar. Fari svo að þetta frv. verði afgreitt á því þingi sem nú situr, verður hugsanlega að breyta lögum um viðlagatryggingu enn þegar lögin um Bjargráðasjóð kæmu hér til meðferðar, vonandi á næsta hausti. Ég er þeirrar skoðunar, að Bjargráðasjóður eins og hann er núna sé ákaflega veikburða. Í rauninni er það ekki vansalaust fyrir ríkisstj. og félmrn., hver svo sem þar er í ráðherrasæti á hverjum tíma, að bera ábyrgð á Bjargráðasjóði eins og hann er nú, jafnaumur og raun ber vitni um og menn þekkja. Þetta nefni ég, herra forseti, vegna þess að það er nauðsynlegt að taka mið af málefnum Bjargráðasjóðs um leið og hv. Alþingi fjallar um Viðlagatryggingu Íslands.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.