24.04.1982
Efri deild: 71. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4159 í B-deild Alþingistíðinda. (3787)

282. mál, grunnskólar

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breyt. á lögum nr. 63/1974, um grunnskóla. Þetta frv. var flutt í Nd. og þar var það samþykkt óbreytt. Að sjálfsögðu var þar fjallað um málið í menntmn. sem öll stóð að því að leggja til að frv. yrði samþykkt eins og það liggur fyrir.

Kjarni þessa frv. er það sem hv. þdm. þekkja nú orðið frá síðustu tveimur þingum, en það er um að fresta gildistöku níu ára skólaskyldu. Það var gert í fyrra og hittiðfyrra, og enn er lagt til að fresta gildistöku níu ára skólaskyldunnar um eitt ár, þ.e. til hausts 1983. Samkvæmt 88. gr. grunnskólalaga var upphaflega stefnt að því, að ákvæði laganna um síðasta ár skólaskyldu kæmu til framkvæmda sex árum eftir gildistöku laganna. Þetta þýðir það, að þá hefðu lögin átt að koma til framkvæmda í landinu haustið 1980. Hins vegar vil ég benda á það, sem reyndar kemur fram í aths. við frv., að í ákvæði til bráðabirgða í grunnskólalögum var gert ráð fyrir að Alþingi fengi tækifæri til að fjalla nánar um níu ára skólaskylduna áður en tekin væri endanleg ákvörðun um að hún kæmi til framkvæmda næstum að segja sjálfkrafa.

Ég vil geta þess, að það er fyrirhugað að leggja fyrir næsta þing ýmsar breytingar á grunnskólalögunum, og þá mun gefast tækifæri til að Alþingi tjái sig nánar um skólaskylduna.

Eins og ég hef bent áður á ákvað Alþingi 1980 og aftur 1981 að fresta skyldi gildistöku þessara ákvæða um níu ára skólaskyldu. Kjarni málsins er sá, að þessi frestun verði endurtekin að þessu sinni um eitt ár.

Ég held að ég segi ekki meira um þetta, herra forseti, en vænti þess, að hv. Ed. fáist til að afgreiða þetta frv. áður en þinginu lýkur og að málinu verði nú vísað til 2. umr. og hv. menntmn.