05.11.1981
Sameinað þing: 14. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í B-deild Alþingistíðinda. (380)

67. mál, íþróttamannvirki á Laugarvatni

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Undir þessari umr. fæ ég ekki orða bundist. Þessi till. er léleg. Það hefur reyndar komið fyrir áður, síðan ég tók sæti á Alþingi, að fluttar hafa verið lélegar tillögur hér á þingi, en þetta er í fyrsta skipti sem ég finn mig knúinn til að blanda mér í þá umr. og gera efni till. og orðalag sérstaklega að umræðuefni. Þessi till. er léleg till. að efni til, þessi till. er léleg að innihaldi og hún er léleg og ljót vegna þeirra undirmála sem henni fylgja.

Í þessu máli verða menn að gera sér grein fyrir hvað hér er um að ræða. Þeir, sem sitja á þessu þingi, vita allir að þeir samviskusömu eljumenn, sem fyrir Suðurland sitja á þingi, Þórarinn Sigurjónsson, Steinþór Gestsson, Magnús H. Magnússon, Jón Helgason og Garðar Sigurðsson, hafa árum saman unnið að því að koma málum Íþróttakennaraskólans á Laugarvatni fram. Þeir hafa hvað eftir annað barist fyrir þessu máli, og þeir hafa komið því fram. Það er nefnilega búið að samþykkja að hefja þarna framkvæmdir. Það er búið að samþykkja að veita fé til þessara framkvæmda. En hvað skeður þá? Jú, einmitt á því augnabliki stígur fram hv. varaþm. og reynir að stela senunni. Það er það sem verið er að reyna að gera með þessari till. fyrst og fremst. Og það er ekkert smávegis sem gengur á í kringum það. Það er búið að undirbúa það mál heilmikið. Þegar þm. Suðurl. hafa unnið að þessu máli hér í nefndum og þingsölum og málið er komið á rekspöl stendur hv. þm. Baldur Óskarsson upp og hneigir sig á sviðinu- og það er ekki bara það, heldur er búið að undirbúa málið með fréttaflutningi í útvarpi, öllum fréttum síðan manninum datt í hug að flytja till., og jafnvel útvega fólk til að klappa að ræðunni lokinni. Ég vil segja að þetta er ljótur leikur og svona vinna menn ekki, vegna þess að hér á þessu háa Alþingi Íslendinga þarf að semja um mörg mál.

Það þarf að koma málum fram. Þið verðið að gera ykkur grein fyrir því, að þó að engin þjóð í heiminum hafi lifað meiri framfarir og meiri lífskjarabót eftir stríð en Íslendingar er mikið ógert. Það er mikið ógert í okkar stóra landi og við erum hér fá og höfum ekki endalaust fjármagn til slíkra framkvæmda. Það þarf að hugsa það vel og það þarf að deila þessu fé niður. Með sinni eljusemi og dugnaði hafa þm. Suðurlands unnið sigur í því að fá Alþingi til að samþykkja fjárveitingar til þessara framkvæmda. Ekkert er mikilvægara í stjórnmálum þessarar þjóðar en að menn geti treyst hver öðrum, að menn geti unnið saman að málum án þess að einhverjir á ákveðnu vinnslustigi mála hlaupi með mál í fjölmiðla eingöngu til að auglýsa sjálfa sig. Þá er málum illa komið og hætt komið. Ég vil segja að þetta er lélegt áróðursbragð og þetta eru skítleg vinnubrögð. (Gripið fram í.) Þetta voru mikil meðmæli frá formanni Verkamannasambandsins. Það er auðheyrt að honum liður ekki vel núna. Þó að ég hafi ekki verið lengi á þingi hef ég oft fyllst ja, ég vil segja: baráttuhug þegar nýir þm. hafa stigið hér í salinn, djarfhuga, sóknhuga,—nýir þm. sem vilja berjast fyrir framförum þessarar þjóðar, vormenn, sem sjá fram í tímann og vilja flytja hér stórmál. En í staðinn fáum við annað slagið haustmenn, sem fyrst og fremst eru með sínum málflutningi — það vita allir sem hér eru inni — að reyna að stíga skref fram í sviðsljósið, fram fyrir þá, sem unnið hafa að máli, og reyna að standa á herðum þeirra. Það hörmulega við þetta mál er að það skuli vera jómfrúartillaga viðkomandi þm., að þessi farandverkamaður á sviði stjórnmálanna skyldi ekki hafa fundið sér eitthvert betra mál til þess að berjast fyrir en einmitt þetta. Og hafi þessi till. átt að vera einhver sigurtillaga í þessu máli hefur illa farið. Þessi till. er lélegt herbragð. Það þarf ekki annað en lesa þessa till. til að sjá það.

Hvað er það sem á að gera samkv. þessari till.? Alþingi á að fela ríkisstj. að sjá til þess, að hafist verði handa við byggingu þeirra mannvirk ja sem þegar er búið að ákveða að fara af stað með. Ég verð að segja það, að úr því að menn fóru af stað með þetta mál hefði nú verið nær að það væri einhver stórhugur í því. Hvernig stendur á því, að maðurinn kom ekki með áætlun um að uppbyggingu allra þessara miklu íþróttamannvirkja þarna yrði lokið á ákveðnum tíma, að þetta yrði tímasett, að menn sæju fyrir endann á þessu og Alþingi samþykkti ákveðna áætlun um það? Ef flm. hefði viljað vinna málinu framgang, hefði hann átt að flytja um það tillögu að Alþingi ályktaði í þá átt, að nægilegu fé yrði varið til þessara framkvæmda til þess að unnt væri að koma þeim fram á ákveðnum tíma? En það var ekki. Stórhugurinn var ekki meiri en þetta sem þarna kemur fram. Það er meira að segja svo, að í þessum áætlunum var íþróttahúsið skorið niður, sem er stærsti gallinn sem ég sé á allri framkvæmdinni, þó að síðar megi stækka það. Nei, flm. hafði ekki einu sinni manndóm í sér til þess í þessari ljótu till. sinni að skora á Alþingi að ákveða að húsið yrði byggt í fullri stærð.

Ég verð að segja að þessi till. er engin till. Þessi till. er léleg till. Ég skora á þá þm., sem hugleiða þetta mál, að reyna að gæta þess, að þessi tillöguflutningur verði ekki til að stórskaða þetta mál, vegna þess að öll herferðin í kringum þetta er þess eðlis. Þeir, sem fylgjast með, verða að gera sér grein fyrir því, að niðurdeiling þeirra fjármuna, sem íslenska þjóðin hefur hverju sinni, er erfið og hún er ekki alltaf vinsæl. Mér líst ekki á að hver einasti aðili í þessu þjóðfélagi, sem vill fá einhverja framkvæmd, stormi með jafnvel mörg hundruð manns hérna niður í þing til þess að ýta á. Hvar halda menn að það endi og hvar standa þm. með það? Ég óttast að þessi málatilbúnaður hv. þm. Baldurs Óskarssonar geti beinlínis skaðað málið þannig að þm. teldu að einmitt vegna þessa væri ástæða til að bíða með málið, vegna þess að það mætti ekki hvetja hvern einasta aðila, sem telur að hann þurfi að fá úrlausn í þessu þjóðfélagi, til þess að storma hingað með allt sitt lið til að reyna að hafa áhrif á framgang síns máls. Svona er ekki unnt að vinna að málum.

Það er alveg ljóst, að það, sem hér er að gerast, er fyrst og fremst ljótur leikur. Það er búið að marka stefnuna í þessu máli. Það er búið að veita fé til þessa máls. Það má vel vera að menn séu óánægðir með að þessi framkvæmd skyldi ekki hafin í ákveðnum mánuði á þessu ári. Það hefur því miður gerst í kerfi okkar, að við höfum ekki komið framkvæmdum af stað þegar við höfum viljað. En fjármagnið er til. Sá þm., sem þetta flytur, er flokksbróðir fjmrh. sem hefur látið skera niður svo að segja allar tillögur sem menntmrh. hefur lagt fram um fjárveitingar til íþróttamála og menntamála. Sá þm., sem þessa till. flytur, er flokksbróðir formanns fjvn. sem hefur þessi mál fremur í hendi sér en nokkur annar. Þm. hafði þess vegna alla móguleika á því að vita hvernig þetta mál stóð. Hann hafði alla möguleika á því að afla sér allra upplýsinga um málið. En þrátt fyrir gefin loforð á fundum fyrir austan um að hafa samvinnu við þá menn, sem eru árum saman búnir að berjast fyrir því að koma málinu fram, stóðst hann ekki freistinguna að laumast með það inn og reyna að láta líta út fyrir að nú væri Baldur Óskarsson, þessi mikli íþróttafrömuður, kominn og búinn að bjarga málefnum Laugarvatns. Sjá menn ekki hvers konar leikur þetta er?

Ég vil segja það, að ég hafði vonað að ég ætti ekki eftir að horfa á svona vinnubrögð á Alþingi. Ég verð að segja alveg eins og er, að það er illt að hafa samverkamenn sem þannig vinna, og ég ætla að leyfa mér að segja það, sem sagt er í fornsögunum, að illt er að eiga þræl að einkavin.

Ég vona að það frumhlaup, sem hér hefur átt sér stað, sú sýndarmennska, sem hér hefur komið fram, tilraun til að stela senunni á síðasta augnabliki og standa á herðum þeirra manna sem hafa unnið þetta verk þannig að nemendur skólans munu sjá þarna glæsilegt hús rísa, — ég vona að þessi tilraun opni augu manna fyrir því, að svona er ekki unnt að vinna. Ég vonast til þess, að í framtíðarvinnubrögðum hér í þinginu leggi menn fyrst og fremst áherslu á þá eiginleika'sem byggjast á drenglyndi, sem byggjast á því að vera traustir samverkamenn og reyna að standa saman við að koma málum fram. Þannig er málum íslensku þjóðarinnar best borgið. En vinnubrögð af þessu tagi eru alltaf til óheilla.