26.04.1982
Efri deild: 72. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4166 í B-deild Alþingistíðinda. (3807)

215. mál, skattskylda innlánsstofnana

Frsm. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég hafði óskað eftir upplýsingum í hv. fjh.- og viðskn. um það, hvernig tekjuskattur og eignarskattur kæmi út í álagningu í ár miðað við fjárlög. Þessar upplýsingar liggja nú fyrir. Eins og kunnugt er gildir skattvísitalan 150 í ár, en komið hefur í ljós að tekjur milli ára, þær tekjur sem skattar leggjast á, hækkuðu um 53%. Reiknistofnun og Þjóðhagsstofnun hafa reiknað tekjuskatt að nýju og fengið út úr því dæmi að tekjuskattur verður 56.5 millj. kr. hærri en fjárlög gera ráð fyrir og sjúkratryggingagjald 2.5 millj. kr. hærri, þ.e. ríkissjóður fær 59 millj. kr. meiri tekjur af tekjuskatti og sjúkratryggingagjaldi en fjárlög gera ráð fyrir.

Það frv., sem hér er til umr., er hins vegar um það að afla ríkissjóði tekna sem nema um 40 millj. kr. eða einhvers staðar á milli 40 og 50 millj. kr. Hér er um að ræða að tekjuskatturinn og sjúkratryggingagjaldið hækka mun meira en hér er verið að fara fram á að Alþingi samþykki með skatti á innlánsstofnanir.

Þessar upplýsingar varða einnig aðrar hugmyndir um tekjuöflun sem hér hafa verið til umr. Mér vitanlega hafa þessar upplýsingar aldrei komið fram, þegar rætt hefur verið um breytingar á tekjum ríkissjóðs, fyrr en nú. Finnst mér þær allrar athygli verðar. Það virðist sem sagt ekki vera lát á því, að hæstv. ríkisstj. komi fram með hugmyndir um nýja skatta og hækkaða skatta jafnframt því sem hún hugsar sér að innheimta miklu meiri skatta, tekjuskatt og sjúkratryggingagjald, en fjárlög gera ráð fyrir.