26.04.1982
Efri deild: 72. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4166 í B-deild Alþingistíðinda. (3808)

215. mál, skattskylda innlánsstofnana

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég hef ekki séð þær tölur eða útreikninga sem hv. þm. Lárus Jónsson vitnaði til áðan, og ég ætla alls ekki að vefengja þá. Ég geri ráð fyrir að hann hljóti að hafa þá eftir bestu heimildum. Ég vildi hins vegar mega benda hv. þm. á að það er ekki í fyrsta skipti nú að útlit er fyrir að bæði tekjur og útgjöld ríkissjóðs verði heldur meiri en fjárlög gera ráð fyrir. Munurinn á fjárlagatölum annars vegar og raunveruleikanum hins vegar hefur verið frá 10 og upp í 20%, ég held aldrei minni en 10% og allt að og yfir 20%, og það er auðvitað sýnt nú þegar að verðbólguþróun á þessu ári verður meiri en nemur reiknitölu fjárlaga sem, eins og menn þekkja, miðast við 33% milli ára. Og það er mjög ánægjulegt vegna þess að fyrirsjáanlegt er að útgjöld ríkissjóðs vaxa verulega umfram það sem fjárlög hafa gert ráð fyrir. Vitað er þegar um nokkra þætti útgjalda sem hafa greinilega verið vanáætlaðir í fjárlögum. Vil ég þar sérstaklega nefna kostnað við heilsugæsluna í landinu. Halladaggjöld verða greinilega miklu meiri á þessu ári en gert vár ráð fyrir í fjárlögum. Ég get upplýst hér að miðað við þær ákvarðanir, sem þegar hafa verið teknar í þessum efnum, er greinilega um að ræða a.m.k. 40–50 millj. kr. aukaútgjöld vegna heilsugæslukerfisins umfram það sem reiknað var með. Með þetta í huga, að útgjöldin muni verða meiri og í sumum tilvikum miklu meiri, eru það mjög ánægjuleg tíðindi sem hv. þm. Lárus Jónsson hefur boðað deildinni, að nokkuð fáist þar upp í svo að ekki ætti þá að verða halli á ríkissjóði af þessari ástæðu.