26.04.1982
Neðri deild: 71. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4178 í B-deild Alþingistíðinda. (3838)

37. mál, söluskattur

Frsm. meiri hl. (Ingólfur Guðnason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 666 um frv. til l. um breyt. á lögum nr. 10 frá 22. mars 1960, um söluskatt, með síðari breytingum, og tala ég af hálfu meiri hl. fjh.- og viðskn. Í nál. segir:

„Nefndin hefur rætt frv. og fengið til viðtals skattrannsóknastjóra svo og fulltrúa Verslunarráðs Íslands. Meiri hl. n. mælir með því, að frv. verði samþykkt.“

Undir þetta skrifa Halldór Ásgrímsson, formaður, Ingólfur Guðnason, Sighvatur Björgvinsson og Guðrún Hallgrímsdóttir, en Sighvatur Björgvinsson undirritaði álitið með fyrirvara sem prentaður er á þskj.

Eins og fram kemur og ég hef þegar sagt varð ekki samkomulag í nefndinni um frv. og skilar minni hl. séráliti.

Mörgum mun þykja lög um söluskatt, með öllum þeim breytingum sem við lögin háfa verið gerð á ýmsum tímum, nokkur frumskógur og vandratað þar um krókótta vegu og stigu. Nefndin telur að nauðsynlegt sé að fjmrn. gefi lögin út í heillegri mynd svo að auðveldara sé fyrir þá, sem lögin þurfa að nota vegna starfsemi sinnar, að átta sig á hvað sé rétt og hvað sé rangt við framkvæmd og álagningu söluskatts. Undanþáguákvæði laganna eru orðin allmörg og því ekki augljóst hversu með álagningu skuli fara í hinum ýmsu tilvikum. Sérstaklega gæti þetta átt við um smærri fyrirtæki, sem ekki hafa mikla yfirbyggingu stjórnunarlega séð, ef svo má að orði komast. Mér þykir líklegt að í ýmsum tilfellum megi rekja skekkjur við framtal til söluskatts til þess, hversu erfitt er að finna það rétta í öllum þeim breytingum sem gerðar hafa verið við söluskattslögin á liðinni tíð. En þar sem frv. það, sem hér er til umr. á þskj. 37, gengur í þá átt að gera álagningu söluskattsins markvissari og refsiákvæði eru hert að ýmsu leyti verður að telja tímabært og sjálfsagt að hafa lögin í aðgengilegu formi þannig að hverjum forsvarsmanni fyrirtækis sé tiltölulega auðvelt að átta sig á hversu hann skal að verki standa þegar hann útfyllir þau gögn sem þarf til þess að réttláta álagningu megi finna.

En því miður verður ekki allt misferli á framtöldum söluskatti rakið til þess, að menn viti ekki betur en þeir gera á þeim vettvangi. Vitað er að vísvitandi misferli á sér stað við framtöl til söluskatts þótt erfitt sé að sanna þau brot. Einmitt um þessar mundir er nokkur umræða í þjóðfélaginu um svarta atvinnustarfsemi. Þar kemur að sjálfsögðu margt til. Má þar nefna óvilja þeirra, sem samskipti hafa, til að fara að lögum í þessum málum ef auðveld tækifæri gefast til að sniðganga lögin þar sem söluskatturinn er orðinn svo mikill hluti af verði vöru og þjónustu.

Mér þykir sýnt að það sé brýnt verkefni Alþingis að koma þessum málum þannig fyrir að þessi blettur á viðskiptum manna á milli festi ekki rætur í þjóðlífi okkar. Sem leiðir að því marki get ég tekið undir eitt og annað í fyrirvara hv. þm. Sighvats Björgvinssonar sem prentað er með nál., en meðan fylgt er þeirri leið, sem lögin um söluskatt gera ráð fyrir, tel ég að frv. það, sem hér er til umr., sé spor í rétta átt, en legg jafnframt áherslu á að leita ber nýrra og betri leiða.

Að lokum vil ég leggja áherslu á það álit nefndarinnar, að sem fyrst verði gefin út í aðgengilegu formi þau lög, sem um söluskatt gilda, og einnig reglugerð þeim að lútandi, þannig að hverjum sem rétt vill gera séu ljós þau ákvæði sem um söluskatt gilda og engum eigi að vera það afsökun, að ekki hafi verið tiltækar upplýsingar um starfshætti í þessu tilviki.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. óska ég þess, að málinu verði vísað til 3. umr.