26.04.1982
Neðri deild: 71. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4179 í B-deild Alþingistíðinda. (3839)

37. mál, söluskattur

Frsm. minni hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu hv. 5. þm. Norðurl. v. og fram kemur á þskj. 666 og 720 varð fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar ekki sammála um afgreiðslu þessa máls. Það kemur glöggt fram í aths. við lagafrv., hver ástæðan er að dómi fjmrn. til flutnings þess. Jafnframt er þar gerð grein fyrir nefndarskipan frá því í júlímánuði 1980 þar sem rn. skipar nokkra valinkunna menn til að kanna með hvaða hætti hægt sé að bæta sem best skil á söluskatti til ríkissjóðs.

Ég verð að segja það eins og er, að ég hefði talið mun skynsamlegra strax á fyrstu mánuðum valdaferils hæstv. núv. ríkisstj., að menn hefðu snúið sér að því að halda áfram þeirri vinnu, sem unnin hafði verið í sambandi við virðisaukaskatt, og freistað þess að leggja fyrir Alþingi frv. um breytta tekjuheimtu ríkissjóðs í sambandi við söluskatt og hverfa frá því sem verið hefur um nokkuð langan tíma, þ.e. að innheimta söluskatt á síðasta stigi, en hverfa í stað þess til virðisaukaskatts eins og hann er orðaður. Á vegum fjmrn. hafði verið unnið að skýrslugerð í þessu máli og á seinasta áratug hafði þetta mál verið mjög til athugunar. Því væri mjög eðlilegt að framhaldið yrði að samið yrði frv. í þessum efnum, því að það hefur ekki komið fram, svo að ég viti til, neinn ágreiningur í sambandi við virðisaukaskatt eða að hverfa frá því söluskattsformi, sem er í dag, yfir til virðisaukaskattsins.

Það er vissulega rétt að þetta form, virðisaukaskatturinn, er ekki gallalaust frekar en það form sem við höfum í dag í sambandi við söluskattinn. En það er að sjálfsögðu hægt að nýta sér þá reynslu sem fengist hefur af virðisaukaskattinum í nágrannalöndum okkar, en þar hefur virðisaukaskattur verið tekinn upp. Í stað þessa hefur núv. hæstv. ríkisstj. freistast til að hækka söluskattinn og ekki aðeins hann, heldur aðra skatta sem lagðir eru á. Auk þess fundið upp ótalmarga nýja skatta. Ég hefði talið að í stað þess að auka á skattbyrðina eins og raunin hefur orðið á, þá hefði verið eðlilegra og skynsamlegra að vinna að þessu máli með setningu laga um virðisaukaskatt og koma þar fram lækkun á skattprósentunni og að dómi margra betri skilum á þeirri tegund söluskatts til ríkisins, í stað þess að hækka söluskattinn og þá í leiðinni gera innheimtuna erfiðari, því að um leið og söluskatturinn er sífellt hækkaður freistast að sjálfsögðu þeir, sem á annað borð hugsa þannig, til að skjóta undan því sem þeir þar eru að innheimta fyrir ríkissjóð.

Við sjálfstæðismenn höfum bent á þetta þegar þessi mál hafa verið til umr. hér á Alþingi. Núv. hæstv. ríkisstj. hefur daufheyrst við þeim ábendingum, en staðfestir svo réttmæti þeirra ábendinga, sem frá okkur hafa komið, með flutningi þess frv. sem hér er til umr.

Vissulega verða að vera til reglur, haldgóðar reglur um skil á þeirri skattheimtu sem á sér stað á hverjum tíma. Þannig hefur að sjálfsögðu verið um hnútana búið. En ég vek athygli á því, að með söluskattslöggjöfinni er verið að fela stórum hópi manna innheimtu fyrir ríkissjóð. Síðan eru í þessu frv. lagðar fram tillögur þess efnis að þyngja mjög refsiákvæði vegna vanskila á því innheimtufé sem þessum mönnum hefur verið trúað fyrir. Svo er á hinn bóginn fjmrh. veitt nánast alræðisvald um það, hvernig þessum málum sé best fyrir komið, alræðisvald til að skylda þá aðila, sem innheimtuna annast, til margháttaðra útgjalda hennar vegna og skriffinnsku.

Sé um það að ræða sem þetta frv. gefur í skyn, að innheimta á söluskatti hafi versnað, þá verður ekki hægt að mínum dómi að rekja það til annars en þeirrar skattheimtustefnu sem ríkisstjórnir frá því síðla árs 1978 hafa haft. Það væri því skynsamlegra að núv. hæstv. ríkisstj. breytti um stefnu á þeim vettvangi. Í stað þess, sem hér er lagt til, að afla sér rýmri heimilda til að beita refsingum og veita hæstv. fjmrh. ótakmarkaðar heimildir til þess að setja reglugerð um skriffinnsku og íþyngjandi kostnaðarsamar aðgerðir, eins og ég sagði áðan, hefði verið eðlilegra og skynsamlegra fyrir núv. hæstv. ríkisstj. að breyta um stefnu í skattamálum og hverfa frá þeirri skattheimtu sem hún hefur aukið á undanförnum árum. Með því móti hefði ríkisstj. gert sitt til þess að forða frá frekari skattsvikum en orðið er. Úr því að ekki var talið rétt og eðlilegt að breyta um kerfi í sambandi við innheimtu á söluskatti hefði verið skynsamlegra að hverfa frá þeirri skattheimtu sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur staðið að. Ég er sannfærður um að það hefði strax sýnt betri skil og þess vegna verið miklu eðlilegri og geðfelldari aðferð til þess að vinna að því markmiði sem þessu frv. er ætlað að gera.

Við, sem ritum undir nál. á þskj. 720, erum þess vegna andvígir þessu frv. og undirstrikum að eðlilegast væri að koma fram breytingum á þeirri skattheimtustefnu sem hér hefur ráðið ríkjum frá því síðla árs 1978.