26.04.1982
Neðri deild: 71. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4180 í B-deild Alþingistíðinda. (3840)

37. mál, söluskattur

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Eins og kom fram hjá frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn., hv. þm. Ingólfi Guðnasyni, undirritaði ég nál. á þskj. 666 með fyrirvara. Fyrirvarinn markast af því, að sú tekjuöflunaraðferð að innheimta háan söluskatt á síðasta stigi viðskipta með þeim hætti, sem gildandi lög gera ráð fyrir, er fyrir alllöngu gengin sér til húðar. Meginástæðurnar fyrir því eru einkum tvær: Í fyrsta lagi að hin fjölmörgu undantekningartilvik, sem gefin eru í lögunum, gera alla framkvæmd laganna ákaflega ruglingslega og allt eftirlit erfitt. Má raunar segja að þeir aðilar, sem eiga að hafa eftirlit með söluskattsskilum, eigi orðið mjög erfitt um vik vegna hinna miklu undantekninga sem lögin gera ráð fyrir. Auk þess er það kapítuli út af fyrir sig, að hvergi skuli vera til í hellu lagi í einni útgáfu gildandi lög um söluskatt. Þetta eru lög, sem gerðar hafa verið á þetta ein og upp í þrjár breytingar á hverju einasta ári á undanförnum árum, og þeir, sem eiga að starfa eftir lögunum og hafa eftirlit með þeim geta ekki neins staðar á einum stað fengið upplýsingar um heildarlög þau um söluskatt sem í gildi eru. Ég vil því ítreka mjög óskir frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. við hæstv. fjmrh., sem ég held að hafi ekki verið í salnum þegar sá ágæti þm. flutti sína ræðu, að það eru eindregin tilmæli ekki bara meiri hl. fjh.- og viðskn., heldur fjh.- og viðskn. þessarar deildar allrar, að séð verði til þess, að gildandi lög um söluskatt verði gefin út í heilu lagi af rn. hans svo að þeir, sem eiga að fara að þeim lögum, geti með auðveldum hætti aflað sér upplýsinga um hvaða lög eru í gildi.

Þetta var fyrra atriðið, þ.e. hin ruglingslega álagning og framkvæmd söluskattsins. Síðari ástæðan fyrir því, að þessi aðferð, að taka söluskatt á síðasta stigi viðskipta, er úr sér gengin, er sú, að álagsprósenta skattsins er orðin svo há og skiptir orðið svo miklu máli í viðskiptum aðila að það getur verið mikið fjárhagslegt hagsmunamál kaupanda og seljanda að viðskipti þeirra séu ekki skráð, söluskattur ekki greiddur og jafnvel að um frekari undanbrögð frá skattheimtu sé samið. Er það augljóst, þegar næstum því fjórða hver króna, sem gengur handa á milli í viðskiptum aðila, á að vera í formi söluskatts sem seljandi á að innheimta til ríkisins, hversu mikið fjárhagslegt atriði það er orðið fyrir báða aðila, bæði kaupandann og seljandann, að gera með sér samkomulag um að láta viðskiptin hvergi koma fram. Þetta er orðinn mjög algengur háttur, því miður, í ákveðnum tegundum viðskipta.

Rétta leiðin til þess að koma í veg fyrir slíka starfshætti er að mínu áliti ekki sú að herða viðurlög eða hækka sektir. Kerfið, sem þessi skattur er álagður eftir, er orðið þess eðlis, að það er varla hægt að setja þær refsingar eða þau eftirlitsákvæði í lög sem útiloka þessa viðskiptahætti með öllu. Miklu raunhæfara er að breyta kerfinu sem hefur skapað þessa óeðlilegu viðskiptahætti. Það er tiltölulega einfalt að gera það með því að hætta að innheimta allan söluskattinn á síðasta stigi viðskipta, en innheimta hann hins vegar smátt og smátt í áföngum, eftir því sem verðmæti vörunnar eykst, með svokölluðu virðisaukaskattskerfi.

Sú er einnig reynsla nágrannaþjóða okkar. Þær gáfust upp á að innheimta söluskatt á síðasta stigi viðskipta, ekki bara vegna þess, hversu erfitt það var orðið og hversu mikil brögð voru orðin að undanþágum og undandrætti á þeim skatti, heldur einnig vegna slæmra áhrifa sem sú aðferð að innheimta neysluskatta hefur á uppbyggingu atvinnulífs og samkeppnisaðstöðu atvinnufyrirtækja. Ráðamenn á Norðurlöndum fóru því þá leið að afnema söluskattskerfið en taka í staðinn upp virðisaukaskatt. Eru þeir síður en svo einir um það, því að í flestum löndum, þar sem sá skattur er innheimtur, hefur honum verið breytt úr söluskatti á síðasta stigi viðskipta yfir í virðisaukaskatt.

Sú er stefna Alþfl., sem hefur m.a. verið mörkuð á flokksþingi hans, að það eigi að stíga þetta spor hér á Íslandi. Við eigum að leggja niður söluskattskerfið eins og við þekkjum það, en taka upp í staðinn innheimtu á neysluskatti í gegnum virðisaukakerfi. Það er einnig vitað að fjölmargir aðrir stjórnmálaflokkar og aðilar í stjórnmálaflokkum hafa áhuga á sama efni. Hins vegar hefur aldrei verið tekin afstaða til þessa máls hér á Alþingi, þannig að menn vita raunar ekki hver er vilji Alþingis í þessu sambandi. Sumir þm. hér eru mjög andvígir virðisaukaskattinum, jafnandvígir og sumir aðrir eru honum fylgjandi. Það liggur hins vegar ekki fyrir hver er vilji þingmeirihlutans, en það væri nauðsynlegt að slíkt lægi fyrir áður en menn færu nánar út í það mikla starf sem tillögugerð um framkvæmd þessa skatts útheimtir.

M.a. þess vegna lagði ég fram á Alþingi haustið 1979 till. til þál. um virðisaukaskatt í stað söluskatts, sem var 88. mál þess löggjafarþings. Þar lagði ég til að Alþingi tæki ákvörðun um að hafinn yrði undirbúningur að lagasmíði um virðisaukaskatt er leysa mundi söluskattinn af hólmi. Í grg. með þáltill. var enn fremur áætlað hvaða tíma mundi þurfa til þess að útbúa slíkt lagafrv. og hvað mundi þurfa að fylgja áður en slíkt frv. gæti orðið að lögum.

Þessi till. mín, sem fól það í sér, að Alþingi tæki þarna stefnumarkandi ákvörðun, var ekki afgreidd. En ég tel óhjákvæmilegt að mjög fljótlega komi að því, að Alþingi taki ákvörðun af slíku tagi, því að nauðsynlegt er að það verði gert áður en öllu meiri vinna er lögð í það að semja frv. eða frumvörp um slíka breytingu á neysluskattsheimtu. Þessi breyting er hins vegar ekki á dagskrá nú, eins og að framan segir, og tillögur Alþfl. um að slík kerfisbreyting verði tekin á dagskrá hafa ekki fengist afgreiddar á Atþingi. Þrátt fyrir það vil ég ekki standa í vegi fyrir þeim tilraunum til að bæta skil og eftirlit með skattinum í núverandi mynd sem frv. gerir ráð fyrir. Mun ég því ljá frv. samþykki mitt þó að ég samkv. framansögðu hafi ekki mikla von um að árangurinn geti orðið marktækur. Það er ekki eftirlitið og refsingarnar sem skortir. Það, sem er ábótavant, er að söluskattskerfið sjálft hefur gengið sér til húðar og söluskattsskil verða ekki tryggð nema með því einu að því kerfi sé breytt í átt til virðisaukaskattheimtu.

Ég vil ekki ljúka máli mínu svo að ég komi ekki nokkrum orðum að öðru máli sem að vísu á ekkert skylt við þetta. Hér á Alþingi var fyrr í vetur lagt fram frv. um staðgreiðslu opinberra gjalda. Hæstv. fjmrh. lagði það fram. Við það tækifæri lýstum við Alþfl.-menn yfir að við værum mjög fylgjandi því, að staðgreiðslu skatta yrði komið á. Hins vegar hefur það orðið eins og oft vill verða um stór og yfirgripsmikil mál, eins og slíkar kerfisbreytingar eru á skattalögum, að þingnefndum hefur með öðrum verkum á þinginu í vetur alls ekki gefist tækifæri til að leggja fram þá vinnu sem þarf til þess að tryggja nauðsynlegt fylgi allra stjórnmálaflokka við þær kerfisbreytingar. Því er ljóst að frv. um staðgreiðslu skatta fær ekki afgreiðslu á þessu þingi. Við höfum nokkurn lærdóm fyrir okkur í þessu sambandi þegar gerðar voru aðrar meiri háttar breytingar á tekjuskattsheimtu.

Þegar nýju tekjuskattslögin voru sett og síðan í kjölfar þeirra mjög verulegar breytingar á þeim gerðar fyrir nokkrum árum, þá brugðu menn á það ráð — til þess að tryggja því máli góðan framgang í þingi og góða athugun við allsherjarsamstöðu um svo mikilvægar lagabreytingar — að fela þingflokkunum að tilnefna menn til þess að kanna þessi mál utan þingtíma, þegar meiri tími gæfist til þess að fara vandlega ofan í saumana á svo flóknum málum, heldur en gefst að öllum jafnaði þegar Alþingi situr á rökstólum. Ég vildi aðeins koma því á framfæri við hæstv. fjmrh., hvort ekki væri ráð til að tryggja framgang staðgreiðslufrv., sem hann lagði fram á Alþingi fyrr í vetur og nú er auðséð að muni daga uppi, að reyna að nota sömu vinnuaðferð við það mál og notuð var þegar gildandi tekjuskattslög voru samin, þ.e. að þingflokkunum, stjórnmálaflokkunum verði falið að athuga málið sérstaklega í sumar með skipun formlegrar eða óformlegrar vinnunefndar, þannig að stjórnmálaflokkarnir geti þá notað sumarið og næsta haust til þess að skoða staðgreiðslukerfi skatta eins vel og nauðsyn ber til til þess að allsherjarsamstaða geti myndast um mál af því tagi. En það er auðvitað nauðsynlegt að reynt sé að ná samkomulagi hér á Alþingi um slíkar breytingar með sama hætti og samkomulag náðist um afgreiðslu gildandi tekjuskattslaga.

Þessu, herra forseti, vildi ég aðeins skjóta fram til hæstv. fjmrh. Ég vona að hann virði þennan vilja okkar Alþfl.-manna til að fá fram afgreiðslu á jafnmikilvægu frv. og staðgreiðslufrv. er.