26.04.1982
Neðri deild: 71. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4183 í B-deild Alþingistíðinda. (3841)

37. mál, söluskattur

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. nefnd fyrir afgreiðslu hennar á þessu frv. um söluskatt, breytingar á innheimtureglum. Ég tel að hér sé um mjög mikilvægt frv. að ræða og að samþykkt þess og útgáfa reglugerðar í tengslum við það geti orðið til að tryggja betri skil söluskatts en verið hefur.

Um aðra þætti skattamála tel ég ekki ástæðu til að fjölyrða á þessu stigi málsins. Það er rétt, að til álita hefur komið að söluskattinum verði breytt í virðisaukaskatt. Það eru hins vegar takmörk fyrir því, hvað hægt er að vinna að mörgum stórfelldum breytingum á skattkerfinu á sama tíma, og mjög hæpið að ráðast þar í allt í einu. Það er ljóst að virðisaukaskatturinn og hugmyndin um að koma honum á hefur ýst til hliðar vegna annarra viðfangsefna og þá fyrst og fremst vegna þess að verið er að koma fram verulega breyttu skattkerfi nú þessi árin eins og menn þekkja. Skattkerfisstarfsmenn hafa verið mjög önnum kafnir við að koma þeirri breytingu á. Einnig hefur verið fyrirhugað að koma á staðgreiðslu skatta hið allra fyrsta. Ég tel mjög óhyggilegt að fara bæði í breytingu á söluskatti yfir í virðisaukaskatt og að taka upp staðgreiðslukerfi skatta á sama tíma.

Í sambandi við virðisaukaskattinn er margt sem þarf að athuga nánar. Það er ljóst að hann hefur marga góða kosti og tryggir sennilega betur skil á veltuskatti af því tagi sem hér er um að ræða. Hins vegar er ljóst að skriffinnskan vex mjög verulega. Innheimtuaðilarnir eru margfalt fleiri í virðisaukaskattskerfi en í söluskattskerfi. Í öðru lagi verður að leggja virðisaukaskattinn á fjöldamargar vörutegundir sem ekki eru nú söluskattsskyldar. Er stærsti hópurinn þar matvörur sem yrði að leggja virðisaukaskatt á, þ. á m. allar landbúnaðarvörur. Þetta væri að sjálfsögðu veruleg breyting frá því kerfi, sem nú er, og mundi hafa víðtæk áhrif, ekki bara í skattamálum, heldur einnig hvað varðar neysluvenjur fólks og verðlag á mörgum vörum. Þetta mál þarf því að athuga miklu betur en gert hefur verið, og er ljóst að ekki kemst skriður á að taka upp virðisaukaskatt hér á landi fyrr en að einhverjum tíma liðnum.

Það hefur verið markmið okkar að koma á staðgreiðslukerfi hið allra fyrsta. Ég lagði fram í haust frv. um staðgreiðslukerfi og lýsti því þá yfir, að ef það frv. yrði afgreitt fyrir áramót yrði möguleiki á því að taka upp staðgreiðslukerfi í ársbyrjun 1983, en ella mundi upptaka kerfisins frestast eitthvað. Nú hefur Alþingi og það einmitt sú deild, sem við erum hér staddir í, Nd., ekki tekið þetta frv. til afgreiðslu og ekkert útlit fyrir að málið verði afgreitt á þessu þingi. Er því ljóst að staðgreiðslukerfi verður ekki tekið upp á árinu 1983. Ég mun hins vegar reyna að stuðla að því eins og ég framast má, að staðgreiðslukerfi skatta verði sem allra fyrst tekið upp, og geri þá ráð fyrir að næstu mánuðir, sumarmánuðirnir, muni eitthvað nýtast til þess að greiða úr þeim ágreiningsmálum sem óneitanlega eru í kringum staðgreiðslukerfisfrv. Þar eru viss atriði sem hafa valdið ágreiningi og tafið fyrir því, að unnt væri að afgreiða málið.