26.04.1982
Neðri deild: 72. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4185 í B-deild Alþingistíðinda. (3845)

215. mál, skattskylda innlánsstofnana

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um skattskyldu innlánsstofnana. Frv. þetta var lagt fyrir Ed. og hefur verið afgreitt þaðan. Í frv. er lagt til að viðskiptabankar og sparisjóðir auk Söfnunarsjóðs Íslands verði gerðir skattskyldir samkv. lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Eðlilegt þykir að starfsemi þessara stofnana sé skattskyld með sama hætti og starfsemi annarra atvinnufyrirtækja í landinu, en staðreyndin er sú, að starfsemi þessara stofnana er víðast hvar skattskyld í nágrannalöndum okkar.

Í frv. eru ákvæði sem fyrst og fremst miðast við að gera kleift að leggja tekjuskatt og eignarskatt á þessi fyrirtæki. En þar sem nokkuð er liðið á það ár, sem nú er að líða, og þessar stofnanir voru ekki skattskyldar á s.l. ári þykir rétt að hafa nokkuð annan hátt á við álagningu skatts á þessar stofnanir á því ári sem er að líða. Því er lagt til í ákvæði til bráðabirgða nr. IV, að á þessu ári skuli leggja skatt á aðila, þá sem skattskyldir eru samkv. þessum lögum, er nemi 0.06% af heildarinnlánum þeirra, svo sem nánar er frá greint í ákvæðinu. Sú skattlagning mun skila ríkissjóði í tekjur um 40–50 millj. kr., eftir því hver veltan verður í bankakerfinu. Til frádráttar og sem tekjutap ríkissjóðs kemur að gerð er breyting á lögum um hlutdeild ríkissjóðs í þeirri þóknun sem greidd er af gengismun og gjaldeyrismeðferð í bankakerfinu. Í lögunum er gert ráð fyrir að gjaldeyrisbankarnir skili ríkissjóði 60% af þessum tekjum af gjaldeyrissölu, en þar sem kostnaður þykir talsvert mikill við þessa þjónustu er hlutdeild ríkissjóðs jafnhliða álagningu þessa skatts lækkuð úr 60 í 50% og lækkar enn á árinu 1983 í 40%.

Við meðferð málsins í Ed. urðu nokkrar breytingar á þessu frv. Aðalbreytingarnar eru þær, að þeir sparisjóðir, sem minnsta veltu hafa og þar með minnstar tekjur, verða ekki látnir greiða þennan skatt. Var þar farið að tilmælum Sambands sparisjóða sem kom fram með hugmynd um að draga þar ákveðin mörk þannig að fátækustu sparisjóðirnir yrðu undanþegnir. Varð það úr, að farið var að tillögu Sambandsins og verður því skatturinn ekki lagður á þá sparisjóði sem minnst hafa umsvifin.

Önnur mjög mikilvæg breyting, sem gerð var á frv. í Ed., var sú, að á árinu 1983 verður skatturinn innheimtur sem veltuskattur, einnig á því ári, og með 0.06% gjaldi af heildarinnlánum, en þó er gert ráð fyrir að á því ári verði um að ræða fyrirframgreiðslu upp í væntanlegan tekju- og eignarskatt sem þá sé lagður á eftir að árið sé liðið. Það má því segja að tekið sé upp staðgreiðslukerfi fyrir innlánsstofnanirnar með þessum sérstæða hætti sem ekki á sér neitt fordæmi hér á landi, að á árinu 1983 og framvegis er lagður á veltuskattur á liðandi ári sem telst fyrirframgreiðsla upp í væntanlegan tekju- og eignarskatt. Því er um staðgreiðslu að ræða. En skatturinn er alveg óbreyttur hvað snertir árið 1982 eins og upphaflega var gert ráð fyrir. Er því um að ræða hreinan veltuskatt á því ári sem er að liða. En í framtíðinni er gert ráð fyrir að um verði að ræða tekju- og eignarskatt sem þó sé staðgreiddur og innheimtur á líðandi ári, síðan sé veltuskatturinn gerður upp þegar reikningar ársins liggja fyrir. Þessi veltuskattur, sem er lagður á á árinu 1983, er því í raun gerður upp á árinu 1984. Einnig er þá gert ráð fyrir að að loknum þessum tveimur árum, sem ég nú hef nefnt, verði álagning skattsins tekin til nánari athugunar og gerðar þær breytingar sem nauðsynlegar teljast miðað við þá reynslu sem fæst af álagningunni.

Herra forseti. Ég hef hér gert grein fyrir meginatriðum þessa máls og einnig skýrt frá helstu breytingum sem gerðar hafa verið á frv. í Ed. Ég vil leggja til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn. [Fundarhlé.]