27.04.1982
Sameinað þing: 80. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4208 í B-deild Alþingistíðinda. (3874)

119. mál, afgreiðsla ríkisstjórnarinnar á frumvarpi um söluskatt

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Það gefst nú lítill tími hér til að fara út í langar tölulegar útlistanir á þessu máli.

Ég vil í upphafi þakka hv. þm. Ingólfi Guðnasyni og Guðmundi Bjarnasyni fyrir að vekja máls á þessu lagafrv. sem hefur verið flutt tvisvar á Alþingi af mér ásamt þeim hv. þm. Agli Jónssyni og Lárusi Jónssyni.

Í fyrra skiptið var fundið að því við flutning þessa máls, að framkvæmdin yrði of flókin. Í annað skipti reyndum við aðrar leiðir með aðstoð sérfróðra manna sem vissu vissulega hvað þeir voru að segja, og var talið að þeirra mati og okkar flm. að það væru í rauninni engin rök fyrir því að afgreiða ekki þetta mál að framkvæmdin væri of flókin. Ég vil minna á í þessu sambandi að kaupmannasamtök úti í dreifbýlinu hafa eindregið stutt þetta mál og mælst til þess, að það næði fram að ganga. Þetta er augljós hagur dreifbýlisverslunar og neytenda úti á landi.

Mig langar til að benda á, og það er nokkuð mikið meginatriði að ég tel, að í rauninni er ríkið þarna að brjóta lög á sjálfu sér því að það stendur skýrum stöfum í 1. mgr. 7. gr. söluskattslaga að flutningskostnaður skuli vera söluskattsfrjáls. Ég tel að innheimta söluskatts af flutningsgjaldi sé gloppa í lögunum sem er furðulegt að skuli ekki hafa verið leiðrétt.

Ég vil einnig benda á að frumvarpsgreinin er nákvæmlega hliðstæð reglugerðargrein um söluveitingar á veitingastöðum, þar sem sá hluti veitinganna, sem samsvarar innkaupum á söluskattsfrjálsum vörum er ekki söluskattsskyldur.

Það má einnig benda á það, að í þessu tilfelli er oft um tvíálagningu söluskatts að ræða þegar vörur eru fluttar með bifreiðum.

Í fjórða lagi má benda á að sá háttur, sem hér er á hafður, dregur úr verslun dreifbýlisins því að fólk sér sér hag í að kaupa hluti hér syðra og flytja þá söluskattsfrjálst út á land heim til sín, kaupa þá síður í sínu heimaplássi þar sem varan verður þeim mun dýrari eftir því sem hún er flutt lengra að og með meiri kostnaði.