27.04.1982
Sameinað þing: 80. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4211 í B-deild Alþingistíðinda. (3879)

119. mál, afgreiðsla ríkisstjórnarinnar á frumvarpi um söluskatt

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það mál, sem hér hefur verið til umr., er sannarlega þess vert að það sé rætt. Ég held að það sé ekki neinn ágreiningur um að almennt er vöruverð úti á landi hærra en er í höfuðborginni eða hér á Faxaflóasvæðinu. Það er óréttlæti og þarf að gera gagnráðstafanir þess vegna. En spurningin er að sjálfsögðu sú, hvaða leiðir séu heppilegastar í þessu sambandi.

Hv. þm. Karvel Pálmason spurðist fyrir um hvað hefði verið gert í þessu máli og hvað hefði verið rætt um í þessu máli núna seinustu vikurnar. Ég hélt satt að segja að svar mitt við fsp. áðan hefði gefið svar líka við þessari spurningu. Staðreyndin er að við höfum lagt talsverða vinnu í það og haldið marga fundi um það, hvort sú leið, sem hér er gerð fsp. um, gæti komið til greina. Það hafa verið á fundum hjá mér í fjmrn. bæði menn, sem um þetta hafa fjallað áður í rn., og einnig fulltrúar frá skattstjóraembættinu, en þeir hafa ekki getað mælt með þessari leið vegna þess að hún hefur bersýnilega í för með sér ýmsa ókosti sem kynnu að vega þyngra en kostirnir. Þessi leið virðist torvelda mjög verulega söluskattsskil eða örugga innheimtu söluskatts og auka hættuna á undanskotum þannig að sá ávinningur, sem ætti að falla í hlut neytenda, gæti kannske einhvers staðar á leiðinni dottið niður í hendur annarra. Einnig er ljóst að þessi leið eykur mjög verulega vinnu þeirra sem selja vöruna úti um land. Ég hef ekki trú á því t.d., að kaupfélögin úti um land mundu mæla með þessari leið. Ég er viss um að menn sæju að þarna væri mjög verulega aukin vinna á menn lögð, en ávinningurinn mjög smávægilegur í raun og veru, eins og tölurnar, sem ég nefndi áðan, bera vitni um.

Það er rétt að rifja upp í þessu sambandi að það voru nefndar ýmsar hugmyndir á sinum tíma. Ég held að inn í þessa umr. væri kannske rétt að koma með þær hugmyndir þannig að menn hefðu þær til samanburðar.

Það var rætt um það í tillögum þeirrar nefndar, sem um þetta fjallaði fyrir 6-7 árum, að til greina kæmi að skattkerfinu yrði breytt í því skyni að jafna aðstöðumun vegna mismunandi framfærslukostnaðar, og var lagt til að Hagstofunni yrði falið að gera könnun á framfærslukostnaði á mismunandi stöðum á landinu.

Í öðru lagi var lagt til að Framkvæmdastofnun ríkisins yrði falið að gera áætlun um aðgerðir, þ. á m. með styrkbeitingum til að tryggja viðunandi verslunarþjónustu í dreifbýli og flutningsþjónustu út frá verslunarmiðstöðvum sem þjóna viðkomandi byggðarlögum, og að kanna möguleika á endurskipulagningu samgangna til einstakra svæða í því skyni að ná sem ódýrastri tilhögun flutninga fyrir samfélagið í heild. Endurskoðaðar verði reglur um styrki til flóabáta, m.a. með almenna samræmingu á flutningastarfsemi í huga.

Í þriðja lagi var nefnt að þjónusta Skipaútgerðar ríkisins yrði stórbætt og þannig stuðlað að lækkun flutningskostnaðar. Komið yrði upp aðstöðu í Reykjavík fyrir vöruafgreiðslu og vörugeymslu þannig að unnt yrði að taka á móti vörum til flutnings hvenær sem væri, séð yrði fyrir samsvarandi aðstöðu á helstu viðkomuhöfnum utan Reykjavíkur, ferðaáætlun yrði við það miðuð að tryggja sem mesta tíðni ferða og yfirleitt stefnt að því, að hámarkstími milli ferða yrði um það bil ein vika, gerð yrði áætlun um endurnýjun skipakosts Skipaútgerðarinnar og komið yrði upp dreifingarkerfi út frá aðalviðkomuhöfnum þannig að flutningaþjónusta Skipaútgerðarinnar næði til fleiri staða og fækka mætti viðkomum. Fleiri atriði voru hér nefnd.

Ég er ekki með í höndunum neitt yfirlit um hvernig staðið hefur verið að framkvæmd þessara tillagna. En ég býst við að hv. þm. heyri það, þegar ég kynni og rifja upp þessar tillögur, að sumar þeirra hafa einmitt verið að koma til framkvæmda nú seinustu tvö árin, og þá á ég við stóreflingu á starfsemi Skipaútgerðar ríkisins, m.a. með kaupum á tveimur skipum og endurskipulagningu á ferðatíðni þessara skipa, og fleira sem því tengist, m.a. byggingu vöruafgreiðslu og vörugeymslu hér í Reykjavík. Þessir þættir hafa greinilega allir komist nokkuð vel á leið núna seinustu tvö árin. En ég hygg að hvað fyrri atriðin snertir, sem ég nefndi áðan, hafi ekki mikið verið gert af því sem nefndin gerði tillögur um. Það var raunar í tíð allt annarrar ríkisstjórnar sem þetta nefndarálit var útgefið, þ.e. á árinu 1976. Þá verða menn að bræða það með sér og ræða það frekar, hver beri ábyrgðina á því, að ekki hafi verið frekar unnið að framkvæmd þessara tillagna. En það er sem sagt ljóst, að í þessum efnum hafa margar leiðir verið nefndar og koma áreiðanlega margar til greina aðrar en þær sem hér hafa helst verið til umræðu.