27.04.1982
Sameinað þing: 80. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4214 í B-deild Alþingistíðinda. (3885)

362. mál, heilsugæsla á Þingeyri

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. í Vestfirska fréttablaðinu 26. nóv. 1981 birtist frétt um neyðarástand í læknisþjónustu í Dýrafirði. Þar kom m.a. fram að læknislaust hafði þá verið í Þingeyrarlæknisumdæmi síðan um mánaðamótin sept.-okt. Í blaðinu er enn fremur grein eftir ljósmóðurina á Þingeyri, Vilborgu Guðmundsdóttur, þar sem hún skýrir frá því, að þá á dögunum eða í nóvembermánuði hafi það slys hent aldraða vistkonu á elliheimili staðarins, að hún hafi dottið og fótbrotnað og þurft að liggja í fjóra sólarhringa án nokkurrar læknisumönnunar vegna þess að læknir fékkst ekki á staðinn. Fyrst eftir þessa fjóra sólarhringa var flogið með gömlu konuna suður til Reykjavíkur þar sem hún fékk sína fyrstu læknisaðhlynningu.

Því miður er þetta ekki einsdæmi. Þó ekki hafi um jafnalvarlegt slys verið að ræða gerðist einnig sambærilegur atburður skömmu síðar þegar barn veiktist. Ekki var þá hægt að ná til læknis og leið nokkur tími áður en hægt var að sinna hinu veika barni.

Þetta ástand er að sjálfsögðu algerlega óviðunandi og er ekki því um að kenna, að ekki hafi verið byggð upp mjög þokkaleg aðstaða fyrir starfandi lækni í þessu umdæmi. Mér er ekki kunnugt um að enn hafi neinar breytingar orðið á þessu ástandi. Íbúar í læknisumdæminu eru eðlilega orðnir mjög hvekktir á því að þurfa að búa við það öryggisleysi, að ef eitthvað kemur fyrir, alvarlegt slys eða óhapp, geti þurft að líða margir sólarhringar án þess að hægt sé að ná í hjálp. Þess vegna leyfi ég mér að beina þeirri fsp. til hæstv. heilbrrh. á þskj. 435, hvenær megi vænta þess, að læknir verði fenginn til að þjóna þessu læknisumdæmi. Ég geri mér fyllilega ljóst að það er oft miklum erfiðleikum bundið að fá lækna til að þjóna afskekktum byggðarlögum úti á landi, en ef það er ekki hægt um langa hríð verður alla vega að reyna að gera einhverjar úrbætur til að tryggja fólki, sem á þessum stöðum býr og margt vinnur störf þar sem slysahætta er mikil, eitthvert lágmarksöryggi.