27.04.1982
Sameinað þing: 80. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4216 í B-deild Alþingistíðinda. (3887)

362. mál, heilsugæsla á Þingeyri

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin. Mér var raunar ljóst, þegar ég lagði þessa fsp. fram, að þess var vart að vænta að öllu fyllri svör væri hægt að gefa.

Ég leyfði mér aðeins að benda á það í sambandi við það sem hæstv. ráðh. sagði áðan, að það er auðvitað ekki úrræði í þessu sambandi að sameina einmenningslæknishéruð, ekki gagnvart Dýrafirði, því vandinn er sá, að yfir alla vetrarmánuðina má segja að það séu engar samgöngur á sjó milli Dýrafjarðar og næstu fjarða og heilsugæslulæknirinn á Flateyri, sem átti að þjóna Dýrafirði, hefur oft í vetur við verstu skilyrði gert ítrekaðar tilraunir til að komast til Þingeyrar til að sinna sjúklingum, en það hefur ekki tekist. Vegurinn hefur verið ófær vestan Dýrafjarðar, og sunnan Dýrafjarðar eru vegir ófærir allan veturinn og það er nú fyrst sem verið er að reyna að opna þá leið.

Þessir ungu læknar gætu sjálfsagt, eins og fyrirrennarar þeirra gerðu á sinni tíð, reynt að brjótast í misjöfnum veðrum á sjó til að koma nauðstöddu fólki til hjálpar, og margir reyna það og leggja sig oft í hættu í því sambandi. En það er varla hægt að treysta á það eða ætlast til þess, a.m.k. ekki í því þjóðfélagi sem við nú búum í, að þessir læknismenntuðu menn leggi á sig slíkt erfiði, enda gera þeir það orðið ekki. Staðreyndin verður þá sú, að læknisþjónustan á þeim stöðum, sem svo háttar til um, er jafnvel verri núna, oft miklu verri núna, á árinu 1982, en hún var heilum mannsaldri áður.

Það er rétt, að hjúkrunarfræðingurinn, sem ég nefndi í ræðu minni áðan, hefur staðið sig mjög vel í þessu umdæmi við þau erfiðu viðfangsefni sem hann þarf að takast á við. En það er auðvitað ljóst, að sá hjúkrunarfræðingur hefur þurft að taka miklu meiri ábyrgð en eðlilegt er að gera kröfur til fólks með slíka menntun. Ef sú ábyrgð verður öllu þyngri og meiri er hætt við að slíkar heilbrigðisstéttir fáist ekki heldur til þess að setjast að á þessum einangruðu stöðum. Þá má segja að farið sé úr öskunni í eldinn.

Ég vil í þessu sambandi biðja menn að hugleiða að hér er um að ræða afturför frá því ástandi í heilbrigðismálum sem var fyrir 50 árum. Á flestum öðrum sviðum og í flestum öðrum byggðarlögum hefur orðið um að ræða mjög mikla framför í heilsugæsluþjónustu á þessum mannsaldri, en gagnvart íbúum þessara einangruðu byggðarlaga hefur framförin breyst í afturför. Þeir eru nú verr settir en þeir voru áður í mörgum tilvikum. Þegar menn ræða hér á Alþingi í sambandi við önnur mál um nauðsyn þess að jafna ýmis mannréttindi, eins og kosningarrétt o.fl., íbúum þéttbýlisins í vil, þá mega menn ekki gleyma því, að grundvallarmannréttindi í landi okkar eru að slasaður maður eða sjúkur geti fengið læknishjálp. Þeirra grundvallarmannréttinda nýtur þetta fólk ekki nema með mikilli fyrirhöfn og oft með því að viðkomandi heilbrigðisstéttir leggi sig í mikla hættu. E.t.v. væri hægt að bæta þetta ástand með því að Alþingi veitti sérstaklega fé á fjárlögum til að bæta samgöngurnar til þessara byggðarlaga. Það er hægt í því tilviki sem hér um ræðir. Það er hægt, án þess að um mjög mikið fé sé að ræða, að bæta þannig um vetrarsamgöngur á landi við Þingeyri að þar sé sæmilega fært undir öllum kringumstæðum frá næsta læknisumdæmi norðan Þingeyrar, þ.e. frá Flateyri, og Ísafirði í svo til öllum tilvikum yfir veturinn. Það væri miklu raunhæfari leið en flestar aðrar að mínu mati, en þá kemur auðvitað í ljós hvort þeir menn, sem tala hvað mest hér um jafnrétti í kosningarrétti fólksins í landinu, fást til þess að leggja fram það fjármagn sem þarf til að tryggja jafnrétti í heilsugæslumálum.

Þetta vildi ég aðeins láta koma fram, herra forseti, til að vekja athygli á stöðu fólks sem lítið heyrist frá í fréttum. En hræddur er ég um að það þættu stórfréttir í Reykjavík ef öldruð kona uppi í Breiðholti eða suður í Kópavogi þyrfti að liggja slösuð í fjóra sólarhringa án þess að geta fengið læknishjálp.