27.04.1982
Sameinað þing: 81. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4234 í B-deild Alþingistíðinda. (3904)

364. mál, utanríkismál 1982

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Meginatriðið í þessu máli er að sjálfsögðu að Alþingi gefist kostur á því að fjalla með eðlilegum hætti um þau mál sem afgreiða þarf hér, bæði þau mál, sem hæstv. ríkisstj. leggur til að afgreidd verði, og eins þau mál, sem lögum samkvæmt ber að leggja fyrir og ræða hér á hinu háa Alþingi. Nú þegar er ljóst orðið, að því er ég tel, að ekki verður unnt að standa við þá stefnu hæstv, forseta að þinglausnir geti farið fram í þessari viku. Mér er kunnugt um að á morgun á að ræða framhald málanna sérstaklega við okkur þingflokkaformenn. Ég vil aðeins ítreka þá ósk mína við hæstv. forseta, að í þeim umr. sjái menn til þess, að hægt verði að taka þau mál, sem hæstv. ríkisstj. óskar eftir að afgreidd verði hér, þau mál sem ber lögum samkv. að afgreiða og ræða, eins og skýrslu utanrrh. og þau mál sem nefndir ætla að afgreiða til þingsins og flutt eru af hálfu þm., að umr. um þessi mál öll geti farið fram með eðlilegum hætti.