27.04.1982
Sameinað þing: 81. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4234 í B-deild Alþingistíðinda. (3906)

364. mál, utanríkismál 1982

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það eru ýmis mál, sem bíða umr. hér á Alþingi, sem gefa ekki tilefni til langra umræðna og ég er ekki á móti því ef hæstv. forseti vill taka þau til umr. til kl. 5. En ég vek athygli á því að það er ýmislegt ósagt um vegáætlun fyrir árin 1981–1984. Ég vil enn fremur vekja athygli á því, að síðustu upplýsingar hafa leitt í ljós að sá framkvæmdahraði, sem maður bjóst við að yrði á þeim vegum sem er sérstaklega rætt um í þessari þáltill., getur ekki orðið eins og fyrirheit hafði verið gefið um og reiknað hafði verið með. Það er því töluvert ósagt í sambandi við það mál sem var talað um að hespa af á litlu korteri. Ég vil óska eftir því, að umr. um till. til þál. um viðauka við vegaáætlun fyrir árin 1981–1984 verði heilleg og þar geti orðið skoðanaskipti, en sú umr. verði ekki að ástæðulausu klippt í sundur.