27.04.1982
Sameinað þing: 81. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4235 í B-deild Alþingistíðinda. (3908)

364. mál, utanríkismál 1982

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég vildi fyrst láta í ljós þá von, að það. hversu fáir þm. eru hér viðstaddir, endurspegli ekki áhuga alþm. á því máli sem hér er til umr. Raunar vildi ég mælast til þess við hæstv. forseta, að hann gerði ráðstafanir til þess, að hæstv. viðskrh., sem nú gegnir embætti utanrrh. að því er ég best veit, verði viðstaddur þessa umr. (Forseti: Ég skal gera það.) Ég mun þá gera hlé á máli mínu um stund því að það er satt best að segja ekki til mikils að halda þessari umr. áfram meðan enginn ráðh. sér ástæðu til að vera viðstaddur.

Herra forseti. Í þeirri von að ráðh. komi hér fljótlega mun ég halda áfram máli mínu. Raunar hefur það einkennt þessa umr. um utanríkismál það sem af er, hversu litinn áhuga ráðherrar virðast hafa haft á að vera þar viðstaddir. Lengst af hefur t.d. enginn ráðh. Alþb. verið viðstaddur umr. um þessa skýrslu og lengst af raunar aðeins einn þm. þess flokks, sem kennir sig þó töluvert til áhuga á þessum málum, en sá áhugi endurspeglast vissulega ekki í setu þeirra hér í þingsölum.

Ýmsir af þeim, sem hér hafa tekið til máls, hafa gert að umræðuefni þann kafla í skýrslu um utanríkismál sem fjallar um þróunarsamvinnu. Sem betur fer er það svo, að framlög okkar til þeirra mála hafa nokkuð aukist á undanförnum árum, einkanlega undanförnum tveimur árum, og þá einkum til þeirra mála þar sem við getum lagt mest af mörkum að minni hyggju, þar sem er aðstoð á sviði fiskveiðimála. En engu að síður er það svo, að mikið vantar á að hér sé nógu vel að verki staðið. Það vantar mikið á að náð sé því, að 1% af þjóðarframleiðslu renni til aðstoðar við þróunarríkin. Satt best að segja er það nálægt því að vera skammarvert hversu illa okkur hefur tiltekist í þessum efnum. Við höfum vissulega skyldur að rækja í heimi þar sem í fyrra dóu 46 þúsund börn á dag úr hungri, vannæringu og sjúkdómum. Sem sagt: Fimmta hvern dag höfðu dáið jafnmörg börn og nemur allri íbúatölu Íslands.

Vegna þess, hve skammt og litið hefur miðað í þessum efnum, höfum við þm. Alþfl. lagt fram á Alþingi þáltill. um langtímaáætlun um þróunarsamvinnu, um aukinn stuðning Íslendinga við þau ríki sem skemmst eru komin. Fjárhagslegar forsendur þeirrar áætlunar, sem við höfum gert og lagt hér fram, miða við að framlög hins opinbera nemi 0.7% þjóðarframleiðslunnar í lok áætlunartímabilsins, en frjáls framlög almennings og fyrirtækja verði 0.3% þannig að náð verði 1% af markinu. Til þess að ná þessu marki og uns því verði náð er við það miðað að tvöfalda opinbert framlag til þessara mála á hverju ári næstu árin. Ýmsir af þeim hv, þm., sem tekið hafa þátt í þessum umr., hafa gert að umræðuefni ferðir sínar til ýmissa þeirra landa sem eiga við mest vandamál á þessu sviði að etja. Ég er ekki hissa á því, vegna þess að það eitt að heimsækja flóttamannabúðir, t.d. í Tansaníu eða Úganda, segir meira en mikill lestur um þessi mál, að ekki sé talað um fátækrahverfi milljónaborganna, eins og Kalkútta og Bombay.

Í dag hafa hér orðið umr. um ferðalög, m.a. alþm., og fyrirspurnir og svör og ekki svör við þeim fsp. Mér finnst stundum gæta þeirrar skoðunar, að allar ferðir í opinber

um erindum til útlanda séu einhvers konar lystireisur og skemmtireisur. Ég held að það væri kannske hollt fyrir suma hv. alþm. að fara í námsferðir til þeirra landa sem við erum hér að fjalla um, til þróunarlandanna. Ég held að það gæti orðið býsna hollt. En það er sem sagt von okkar að þessi till. um langtímaáætlun um þróunarsamvinnu, þar sem er stefnt að sömu markmiðum og nefnd eru í skýrslu hæstv. utanrrh., nái fram að ganga þótt ekki verði það e.t.v. á þessu þingi, en að því er manni skilst lifir nú skammt þessa þings.

Í skýrslu utanrrh. er að venju vikið að öllum meiri háttar þáttum utanríkismála. Þar er fjallað um afvopnunarmál. Þau hafa mjög sett svip sinn á þessar umr. það sem af er. Einkanlega vil ég þar nefna ræðu hv. 11. þm. Reykv., Ólafs Ragnars Grímssonar, sem flutti hér eina af sínum endemis langlokum. Hann er því miður staddur erlendis um þessar mundir, aldrei þessu vant, og hlýt ég því að beina orðum mínum til flokksbræðra hans, ef einhverjir þeirra skyldu af tilviljun vera staddir hér á þessum þingfundi. Ég sá hæstv. iðnrh. hér áðan og vona að hann heyri mál mitt. Í fjarveru hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar verð ég þá að beina orðum mínum til hans sem talsmanns síns flokks.

Ég held að það sé ekki hægt að segja að ræða sú, sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson flutti hér þriðjudag fyrir páska, hafi verið sérstaklega athyglisverð. Í þessum þingsal höfum við oftlega heyrt þessa ræðu áður. Í henni var fátt eitt nýtt, mestmegnis endurtekningar á því sem hann hefur hér áður flutt. Það getur svo sem verið nægilega fróðlegt að hlusta á upplestur úr heimspressunni, en heldur verður það þó leiðigjarnt til lengdar þegar sífellt er tönnlast á því sama. — Og enn vek ég athygli á því, að þegar umr. fer hér fram um utanríkismál hverfa ráðh. Alþb. allajafna úr salnum og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson fær aleinn og óstuddur að standa fyrir sínu máli. — En það, sem mér fannst einkum einkenna þessa ræðu, var það, að hún var samfelld og harkaleg árás á hæstv. utanrrh. og rn. hans og þá ekki síst þá skýrslu sem hér er til umr.

Það var gefið í skyn, og það var raunar meira en gefið í skyn, það var sagt fullum fetum, að starfsmenn rn. fylgdust ekki með því sem væri að gerast á sviði varnar- og öryggismála. Þetta var hvað eftir annað fullyrt. Ég held hins vegar að þessi ásökun eigi ekki við rök að styðjast. Raunar er það ævinlega svo um þennan hv. þm., er hann kemur hér í ræðustól og talar af því litillæti sem honum er einkar lagið, að þá kveður oftlega við þann tón í ræðum hans, að eiginlega fylgist enginn maður á Íslandi með því, sem er að gerast í varnar- og öryggismálum, nema hann sjálfur. Þetta er auðvitað órafjarri öllum sanni.

Þegar það er íhugað, hversu harkaleg þessi árás á hæstv. utanrrh. var, er það íhugunarefni, að þessir aðilar skuli vera saman í stjórnarsamstarfi. Það er eðlilegt að spyrja sem svo: Hvað er Alþb. að gera í ríkisstj. þar sem það er ósammála einu helsta grundvallaratriði og hyrningarsteini stjórnarstefnunnar, sem öryggis-, utanríkisog varnarmál hljóta að vera? Hvers konar leikaraskapur er það, að þykjast heils hugar taka þátt í stjórnarsamstarfi, en rífa svo jafnframt niður, ráðast á og rangtúlka einn af hyrningarsteinum þessa samstarfs? En þetta er náttúrlega ekki nýtt. Þessi stjórnmálaflokkur hefur tekið þátt í fjórum ríkisstjórnum, sem fylgt hafa óbreyttri stefnu í öryggis- og varnarmálum í raun. Það, sem upp úr stendur og við blasir, er auðvitað að Alþb. metur þessi mál, öryggis- og varnarmál, svo lítils að þeim er ævinlega fórnað fyrir einhverja aðra hagsmunum sem taldir eru meiri. Svo koma hér einstakir talsmenn flokksins og tala þá væntanlega fyrir herstöðvaandstæðinga innan sinna vébanda öðru hverju, en ég hygg að öllum þingheimi og þjóðinni raunar líka sé ljóst að þar á bak við er lítil alvara og enginn þungi. Ef svo væri, þá væri þessi flokkur að sjálfsögðu ekki í ríkisstjórn sem fylgir óbreyttri stefnu í öryggis- og varnarmálum íslenska lýðveldisins.

Eins og ég sagði áðan eru við alþm. orðnir vanir þeim málflutningi sem aðaltalsmaður Alþb. í utanríkismálum viðhefur jafnan úr þessum ræðustól. Við erum orðnir vanir þeim löngu ræðum sem hann setur hér á. Við erum orðnir vanir þeim hroka og því yfirlæti sem jafnan einkennir þennan málflutning. Við erum líka orðnir vanir þeim röksemdafærslum sem hann flytur okkur hér, en í því efni er sá háttur fyrst og fremst hafður á, að sett er fram fullyrðing um að þetta eða hitt sé svona.

Í ræðu sinni fullyrti þessi þm. hvað eftir annað að búið væri að ákveða að stórfjölga kjarnorkuvopnum í hafinu umhverfis Ísland. Þessi fullyrðing var margsinnis sett fram og — með leyfi hæstv. forseta — talaði þm. um stöðu okkar í heiminum og sagði síðan: Þá væri vikið a.m.k. einhverjum orðum að þeim nýju áætlunum, sem þegar hafa verið samþykktar, um gífurlega aukningu vígbúnaðar á hafinu í kringum okkur. Það er ekki stafur í þessari skýrslu um það.“

Þeir, sem fylgjast með þessum málum, vita auðvitað mætavel að engin slík ákvörðun hefur verið tekin. Því er þessi fullyrðing þm. alröng. Það hefur engin slík ákvörðun verið tekin. Þó að uppi séu hugmyndir þýðir það ekki að búið sé að samþykkja áætlanir. En hér var fullyrt að búið væri að taka þessar ákvarðanir. Þetta er auðvitað alrangt. En þetta er ekki ný bóla. Þótt óskylt mál sé langar mig til að víkja að öðru sem dæmi um þessa sömu röksemdafærslu.

Þegar frv. til l. um Hæstarétt Íslands var til umr. í Ed. kom þessi sami hv. þm. hvað eftir annað í ræðustól og fullyrti að eitt ákvæði frv. væri stjórnarskrárbrot. Þetta var líka rangt. Enginn af þeim aðilum, sem hann vitnaði til í þessu tilviki, hafði leyft sér að fullyrða neitt í þá veru. En hv. þm. fullyrti og fullyrti, og sama málflutning höfum við heyrt hér, — ekki aðeins þetta eina atriði, um þessa stórfelldu hernaðaruppbyggingu sem á að vera búið að samþykkja í hafinu hér umhverfis Ísland, en sem betur fer er rangt, við höfum heyrt þennan málflutning um margt annað. Þetta er auðvitað vel þekkt, að svo lengi er hægt að endurtaka ósannar fullyrðingar glepjist einhverjir til að trúa þeim. Sá er auðvitað tilgangurinn með slíkum aðferðum.

Annað, sem var eftirtektarvert í þessum röksemdarfærslum öllum, var það, að finni hv. þm. einhvers staðar hjá pólitískum andstæðing, sem hann túlkar svo, við sinn málstað með einhverjum hætti, þá verða þeir, sem þann málstað styðja, um leið virtir, mikilsmetnir, reyndustu, færustu, skýrustu, traustustu o.s.frv. Það þyngist í þeim pundið ef þeir leggja málstað Alþb. lið með einhverjum hætti, ef túlka má orð þeirra þannig. Þetta þekkjum við allt saman og þetta þekkjum við ekki hvað síst úr þeirri umr. sem haldið hefur verið uppi af hálfu Alþb. og herstöðvaandstæðinga um að kjarnorkuvopn séu staðsett á Íslandi. Það er að vísu tiltölulega hljótt um þann þátt málsins núna, — og hvers vegna skyldi það vera? Jú, það er vegna þess að þessi fullyrðing herstöðvaandstæðinga, sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefur manna mest haldið á loft, hefur reynst röng.

Hér var vitnað títt til Tímans sem allt í einu virtist vera orðinn eftirlætislesning þeirra Alþb.-manna um utanríkismál. Ég sakna þess hins vegar, að það skyldi ekki vera vitnað í dagblaðið Tímann þriðjudaginn 2. mars, þar sem var fjögurra dálka fyrirsögn á forsíðu: „Enginn kjarnorkuvopn á Íslandi, segir Eugene Carroll, forstjóri Center for Defenee Information í Washington.“ Það var ekki vitnað í Tímann þennan mánaðardag.

Þar er haft orðrétt eftir forstöðumanni þessarar stofnunar, með leyfi forseta:

„Ég er fullviss um að það eru engin kjarnorkuvopn staðsett í herstöðinni í Keflavík, hvorki á jörðu niðri né í þeim orrustuflugvélum sem þar eru til staðar. Það er engin þörf fyrir þessi vopn á Íslandi og yfirstjórnendur hermála í Bandaríkjunum og hjá NATO eru ekki það vitlausir að þeir reyni að koma slíkum vopnum þar fyrir. Það yrði aðeins til að stofna hinu góða sambandi Íslands og Bandaríkjanna í bráða hættu.“

Þetta segir Eugene Carroll, fym. varaflotaforingi í bandaríska hernum og nú annar forstjóri fyrir hinni umdeildu, en jafnframt virtu rannsóknastofnun Center for Defence Information, eins og Tíminn komst að orði.

Ég saknaði þess mjög, að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson skyldi ekki vitna í þessa grein. Ég man ekki betur en sá ágæti maður hafi einmitt kallað þessa stofnun, Center for Defence Information, eina hina virtustu, þekktustu í Bandaríkjunum, hlutlausa stofnun er miðlaði upplýsingum um varnarmál, og í íslenskum fjölmiðlum, m.a. í Ríkisútvarpinu, eins og frægt varð að endemum hér um árið, var hermt eftir þessari stofnun að á Íslandi væru kjarnorkuvopn. Þessum yfirlýsingum var sannarlega mjög flíkað og um þetta mál spunnust m.a. umr. hér á hv. Alþingi hinn 22. maí 1980, fyrir tæpum tveimur árum. En það hentar ekki nú þessa dagana að hafa hátt um þessar yfirlýsingar þrátt fyrir að hver íslenskur utanrrh. á fætur öðrum um langt árabil hafi lýst því yfir að hér væru engin kjarnorkuvopn. Það hentar ekki að hafa hátt um að allar yfirlýsingar þessarar eftirlætisstofnunar Samtaka herstöðvaandstæðinga, Þjóðviljans o.fl. hafa reynst alrangar. En þetta kennir okkur lexíu. Þetta kennir okkur þá lexíu, að þegar rangar fullyrðingar eru endurteknar nógu oft hafa þær tilhneigingu til að festast í sessi, menn taka þær trúanlegar og þær komast inn í prentaðar heimildir. Um þetta skal ég nú rekja nánara dæmi.

Þessi stofnun, Center for Defence Information í Washington, sem nú hefur komið í ljós að hafði rangt fyrir sér um þessi mál, hefur fullyrt að á Íslandi væru kjarnorkuvopn, og þessi ranga fullyrðing hefur farið ótrúlega víða. Til er í Washington stofnun sem heitir World Priorities. Hún gefur út árlega skýrslu um útgjöld í veröldinni til félagsmála og til hermála. Í fyrra gaf þessi stofnun út svona skýrslu, sem er mjög fróðleg og vægast sagt óhugnanleg lesning. Ritstjóri þessa rits er bandarísk kona sem mjög hefur unnið að þessum málum og nýtur álits. Í þessari skýrslu er kort þar sem merkt eru þau lönd þaðan sem talið er að kjarnorkuvopnum sé beitt eða, eins og það er orðað á ensku, „deployed“. Það þarf ekki að þýða að kjarnorkuvopn séu þar staðsett, heldur getur þýtt að skip og/eða flugvélar með þessi vopn innanborðs hafi viðkomu eða bækistöðvar á viðkomandi stað.

Í þessari skýrslu, sem mér barst í hendur snemma í vetur, er Ísland merkt sem eitt þeirra svæða þaðan sem kjarnorkuvopnum kunni að vera beitt. Það er litað á sama hátt og lönd þar sem kjarnorkuvopn eru. Auðvitað kom þetta óhugnanlega á óvart. Ég hafði samband við forstöðumann þessarar stofnunar og spurði hvaðan stofnun hennar kæmu upplýsingar um þessi efni. Hún skrifaði mér nokkrum dögum síðar svohljóðandi bréf, sem ég leyfi mér að lesa í íslenskri þýðingu:

„Í framhaldi af símtali yðar á miðvikudaginn könnuðum við heimildir okkar fyrir gerð kjarnorkukortsins í bókinni „Útgjöld heimsins til hermála og félagsmála.“ Ég er sannfærð um, að okkur hafa orðið á mistök að því er varðar Ísland, og á því biðst ég afsökunar.“ — Á ensku hljóðar þetta svo: „We did make an error in the case of Iceland and I apologize.“

„Með því að telja Ísland með þeim löndum þar sem kjarnorkuvopn eru,“ segir hún í bréfinu, „þá studdumst við við tvennar heimildir. Í fyrsta lagi Center for Defence Information“ — þá frægu, áreiðanlegu, virtu, traustu og hlutlausu stofnun, — öðru lagi ritað Current Issue in Defence Policy — eða „Efst á baugi í varnarstefnu Bandaríkjanna, útgefið 1976, bls. 197, í þriðja lagi rit Alþjóðlegu friðarrannsóknarstofnunarinnar í Stokkhólmi, SIPRI: Vígbúnaður og afvopnun á k jarnorkuöld, Armament and Disarmament, gefið út af bókaútgáfu MIT 1971.“ Síðan segir forstöðumaður þessarar stofnunar áfram í bréfi sínu: „Þar sem stofnunin Center for Defence Information er einnig staðsett hér í borg, þá hringdi ég þangað og ræddi við yfirmann rannsóknardeildar. Hann sagði: Stofnunin flokkar Ísland ekki lengur með þeim löndum þar sem skipum eða flugvélum með kjarnorkusprengjum væri heimilt að athafna sig. Hann sagði þessu til viðbótar, að upplýsingarnar í bók sænsku friðarstofnunarinnar væru sennilega frá þeirra stofnun komnar.“ Og síðan segir áfram í bréfinu: „Við gerð kortsins reyndum við að styðjast við a.m.k. tvennar sjálfstæðar heimildir að því er hvert atriði varðaði. Okkur var ekki ljóst að þetta tvennt væri af sömu rót runnið. Ég harma þessi mistök og vil fullvissa yður um að þetta verður leiðrétt í næstu útgáfu.“

Þetta er sem sagt dæmi um ávöxtinn af iðju Alþb. og herstöðvaandstæðinga. Þetta er dæmið um hvernig rangar fullyrðingar, hvernig upplognar staðhæfingar, ná fótfestu í erlendum ritum. Það er þokkaleg iðja, sem þetta lið stundar, sem að öðru jöfnu telur sig meiri og betri Íslendinga en flest annað fólk sem býr í þessu landi. Sem sagt: Ef lygin er endurtekin nógu oft kann það að bera þann árangur að hún komist á prent. Allt of margir halda að allt, sem á prenti stendur, sé sannleikur, andstætt því sem Halldór Laxness sagði í Alþýðubókinni, að mesta lygi í heiminum væri á prenti.

Auðvitað veldur þessi iðja þessara ágætismanna okkur ómældu tjóni. Um þessi atriði þótti ekki hæfa að tala í þeirri ræðu sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson flutti hér þriðjudagskvöldið fyrir páska, en nóg um það.

Ég saknaði líka annars í þessari ræðu. Ég saknaði þess, að hv. þm. skyldi ekki vitna til breska sagnfræðingsins E. P. Thompsons sem hér var á ferð nýlega og við áttum í sameiningu ágætan fund með. Þangað var boðið fulltrúum allra þingflokka, en mættu að vísu ekki nema fulltrúar tveggja til þessa fundar, fulltrúar Alþb. og Alþfl. Þessi breski sagnfræðingur og gamli marxisti er einn þeirra sem fremst standa í baráttunni gegn kjarnorkuvígbúnaði. Tvennt þótti mér merkilegt og ástæða til að geta hér sérstaklega, sem fram kom í viðræðunum við hann. Hann sagði: „Ég berst fyrir afvopnun og gegn kjarnorkuvopnum. Ég er ekki pacifisti. Ég er fylgjandi vörnum í hefðbundnum skilningi.“ Þessum ummælum Thompsons hafa Samtök herstöðvaandstæðinga ekki heldur séð neina ástæðu til að flíka. Þarna skilur á milli þessa manns, Alþb. og Samtaka herstöðvaandstæðinga.

Í þessum umræðum hefur friðarhreyfingarnar í Evrópu auðvitað borið á góma sem eðlilegt er. Þessar hreyfingar eru af mörgum toga spunnar og kveikjan að þeim er auðvitað eðlilegur ótti almennings, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, við kjarnorkustyrjöld og þann ógnareyðingarmátt, sem býr í þeim vopnum sem stórveldin búa nú yfir, og vígbúnaðarkapphlaupið, sem ekkert lát er á. Þessar hreyfingar eru auðvitað eðlilegt andsvar við þessu æðisgengna og brjálæðislega vígbúnaðarkapphlaupi. Lesa má um það nú í erlendum blöðum, að tvær tillögur eru á ferðinni í Bandaríkjaþingi um aðgerðir í þessum efnum. Önnur miðar að því að stöðva á þeim punkti, þar sem við stöndum nú, og er kennd m.a. við Kennedy, og hin tillagan miðar að því að draga verulega úr vígbúnaði frá því sem nú er og frysta síðan, eins og það hefur verið orðað. Kunnugt er það auðvitað öllum, sem fylgjast með erlendum fréttum, hversu mjög þessum hreyfingum hefur vaxið ásmegin bara á undanförnum vikum í Bandaríkjunum. Nú er það svo, að í kosningum, sem verða þar í nóvember í haust, verður mjög víða kosið jafnframt um tillögurnar um frystingu á kjarnorkuvopnavígbúnaði, ef nota má svo slæm orð. Það verður t.d. í fjölmennasta ríki Bandaríkjanna, Kaliforníu. Þegar er búið að safna þar nægilega mörgum undirskriftum almennra kjósenda til að koma þessu máli á kjörseðilinn þar.

En varðandi alla umræðu um þessar friðarhreyfingar skulum við gæta okkar á einu. Við skulum ekki setja allar þessar hreyfingar undir einn og sama hatt. Þær eru jafnólíkar og þær eru margar. Sumar þeirra berjast fyrir einhliða afvopnun, fyrir uppgjöf gagnvart útþenslustefnu Sovétríkjanna. Aðrar berjast fyrir gagnkvæmri afvopnun á raunhæfum grundvelli og þar hefur kirkjan einkum látið til sin taka. Sú stefna, sem kirkjunnar menn hafa mótað í þessu máli, er ekki stefna „pacifista“, alls ekki. En innan þessara hreyfinga eru vissulega líka „pacifistar“, svo að ég noti enn það erlenda orð, eða þeir sem eru á móti öllum vörnum og öllum vopnaburði. Þarna eru líka hreyfingar sem berjast aðeins gegn kjarnorkuvopnum, vilja að þeim verði eytt. Þarna eru sem sagt hreyfingar á ferðinni sem ekki er rétt og ekki er hægt að setja undir einn hatt.

Íslenskir herstöðvaandstæðingar beita nú fjöldafylgi þessara hreyfinga mjög fyrir sinn vagn. Þeir berjast gegn aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, þeir berjast gegn dvöl varnarliðsins hér á landi, þeir berjast gegn því að hér séu uppi hafðar varnir. Það er ekki nema, og það fullyrði ég, örlítill hluti friðarhreyfinganna í Evrópu sem á samleið með þessum málstað Alþb. og herstöðvaandstæðinga. Það er auðvitað eitt af meginatriðum þessa máts. Öll viljum við auðvitað draga úr vígbúnaði, eyða þeirri hættu sem kjarnorkustyrjöld hefði í för með sér. Um þetta er ekki ágreiningur. Ágreiningurinn er hvernig haga skuli vörnum. Það er ekkert land til í veröldinni sem hefur ekki annaðhvort eigin her sér til varnar eða hefur samið við annað ríki eða ríkjabandalag um sínar varnir. Varnarlaust land í þessari veröld er ekki til og það er líka ein af meginstaðreyndum þessara mála. Stundum freistast menn til að nefna Costa Rica þegar þetta ber á góma, en þá skyldu menn hafa í huga að það land hefur lögreglu sem er búin skriðdrekum, vélbyssum og öllum þeim vopnum, sem venjulegur her er búinn.

Í skýrslu utanrrh. er vitnað til samanburðar á vígbúnaði stórveldanna. Þar er vitnað til heimilda frá stofnun, sem heitir The International Institute for Statistic Studies, sem telur að kjarnorkuvopnastyrkurinn í Evrópu í dag sé 3.27 á móti 1 Sovétríkjunum í hag. Nú er það auðvitað svo, að um þetta eru margar heimildir og ber ekki öllum saman. Það er hægt að vitna til rita um þetta efni sem bandarísk varnarmálayfirvöld hafa gefið út, það er hægt að vitna til rita sem Sovétmenn hafa látið frá sér fara, það er hægt að vitna í tímaritin Time, Economist o.fl. Meginniðurstaða alls þess samanburðar, sem ég hef séð og lesið um þessi efni, er að Sovétríkin hafi nokkra yfirburði á velflestum sviðum. En auðvitað er það alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, að samanburður af þessu tagi er afar flókið mál og — eins og hann komst að orði — samflétta gagnkvæmra yfirburða. Það hefur verið talað um óljóst jafnvægi í þessum efnum. En hitt kom mér á óvart, að þegar þessi hv. þm. fór hér með tölur um þessi mál vitnaði hann til bandaríska tímaritsins US News and World Report, nefndi samanburðartölur sem hann sagði nýlega hafa birst þar. Þrátt fyrir nokkra leit í þessu tímariti hef ég ekki fundið þessar samanburðartölur. Þær kunna þó þar að leynast, ekki skal ég fortaka það. En hitt kom mér meira á óvart, þegar hann fór með tölur um þessi efni, að þá var ýmsu sleppt sem víðast er þó talið.

Nýkomin er út í Noregi, fyrir fáeinum vikum, bók þar sem eru ritgerðir 27 stjórnmálamanna, vísindamanna og sérfræðinga um varnar- og afvopnunarmál. Grein er í þessari bók, sem ég veit að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefur undir höndum og hefur lesið, eftir mann að nafni Frank Barnaby, sem þessi hv. þm. býsna oft hefur vitnað til og það meira að segja úr þessum ræðustól. Hann gerir þar samanburð á hernaðarstyrk stórveldanna. Þar kemur m.a. fram, og því sleppti hv. þm., að Sovétríkin eru talin eiga 693 meðaldrægar sprengjuþotur, Bandaríkin 66. Þarna er tífaldur munur.

En annað kom mér á óvart í máli þessa hv. þm. Þegar hann bar saman fjölda kjarnorkukafbáta Bandaríkjanna og Sovétríkjanna fullyrti hann — og vitnaði í tímaritið US News and World Report, að Bandaríkin ættu 84 kjarnorkukafbáta, Sovétríkin 36. Í samanburði Frank Barnabys eru Bandaríkin talin eiga 43, en Sovétríkin 86, þannig að hér er tölunum gersamlega snúið við. Töluna, sem í flestum samanburðarskýrslum er nefnd fyrir Bandaríkin, eignar hv. þm. Sovétríkjunum. Hvort þetta er óviljaverk eða ekki skal ég ekki fullyrða um. Nú á sá þm., sem í hlut á, að vera glöggur fræðimaður og er prófessor við Háskóla Íslands og verður að treysta honum til að fara með jafneinfaldar tölur og hér eru. Ég hef séð margar samanburðartöflur um þennan hernaðarstyrk, en ég hef hvergi séð þær tölur sem nefndar voru úr þessum ræðustól af hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni. Tölunum var sem sé snúið við. Annars er það svo sem að deila um keisarans skegg að ræða þessar samanburðartölur því að það er hægt að reikna þennan samanburð á svo ótrúlega marga vegu og næstum því fá þá útkomu sem menn óska sér fyrir fram.

Það var varið löngum tíma í að sannfæra okkur um yfirburði Bandaríkjanna á sviði kjarnorkuvopna. Nú er það svo auðvitað, að forseti Bandaríkjanna lét þau orð falla fyrir skemmstu, að Sovétríkin hefðu yfirburði á þessu sviði. Nú hafa embættismenn hans raunar orðið að draga í land með það og má kannske segja að hafi nánast verið gert gys að þessari fullyrðingu hans í fjölmiðlum. Auðvitað er staðreynd málsins sú, þegar fjallað er um kjarnorkuvopnavígbúnaðinn í Evrópu, að kjarnorkuvopn eru flutt til Evrópu fyrst vegna þess að Sovétríkin og Austur-Evrópuríkin hafa gífurlega yfirburði á sviði hefðbundins herafla, margfalt á við Atlantshafsbandalagsríkin. Þar var ekki pólitískur vilji til að jafna metin með hefðbundnum hætti, og þá voru metin jöfnuð með kjarnorkuvopnum, því miður. Við getum svo endalaust deilt um á hvorn halli. Þar getum við, eins og ég áðan sagði, fengið þá útkomu sem við kjósum helst hverju sinni. Þetta skiptir auðvitað ekki meginmáli, heldur það, að hvor aðilinn um sig telur ævinlega á sig hallað og telur sig ævinlega þurfa að jafna metin, telur sig ævinlega þurfa að vígbúast betur, uns svo er komið að þessi gereyðingarmáttur nægir til að útrýma öllu mannlífi á jörðinni, ekki aðeins einu sinni, heldur miklu oftar. Auðvitað skiptir það í raun engu máli, hvort hægt er að eyða öllu mannlífi einu sinni eða fimm sinnum. Þess vegna er þessi umræða kannske meira og minna út í hött.

Það er athyglisvert, þegar rætt er um þessi mál, að ég satt að segja efast um að menn geri sér næga grein fyrir því oft um hvað er verið að tala. Það er talið að í veröldinni séu núna 50 þúsund kjarnavopnahleðslur. Það er jafnmikið og milljón sprengjur eins og varpað var á Hiroshima. Það eru þrjú tonn af venjulegu sprengiefni, þrjú tonn, á hvert einasta mannsbarn á jörðinni. Og það, sem stórveldin eru að gera núna, og það, sem Sovétríkin eru að gera núna, er að gera sínar eldflaugar hittnari, marksæknari, eins og það kannske heitir, eða markvissari. Það er á því sviði sem framfarirnar eru hvað örastar. Ef tekst að gera eina eldflaug þannig úr garði að hún hitti ekki 200 metra frá markinu, heldur 20 metra, þýðir það þúsundfalt aukinn sprengikraft. Í grein í þeirri bók sem ég vitnaði til áðan, sem er safn ritgerða 27 vísindamanna, kemur fram í grein eftir Norðmanninn Björn Kirkerud, að þótt Sovétríkjunum tækist að eyðileggja 90–95% af langdrægum eldflaugum Bandaríkjamanna í neðanjarðarbyrgjunum, þar sem þessar eldflaugar eru geymdar, væru eftir samt hjá Bandaríkjamönnum 50–100 eldflaugar og aðeins með þeim gætu Bandaríkjamenn lagt í rústir 150–300 stærstu borgir Sovétríkjanna. Hver einstakur kjarnorkukafbátur Bandaríkjamanna hefur næg vopn um borð — þá er átt við þá hin nýjustu og fullkomnustu — til að leggja í rústir allar borgir í Sovétríkjunum þar sem íbúar eru fleiri en 100 þús. Þetta eru þær staðreyndir sem blasa við okkur. Bandaríkin eiga um 40 eldflaugakafbáta, en Sovétríkin eiga 70–80 eða milli 80 og 90. Ég hef nefnt þessar tölur hér varðandi Bandaríkin eingöngu vegna þess, að þær voru tiltækar, og raunar eru það svo, að í öllum ritum um þessi mál eru nefndar tölur fyrir Vesturlönd vegna þess að það liggja engar upplýsingar á lausu um það sem gerist hinum megin við strikið.

Það var rangt, sem hér var haldið fram, að ég hefði talað gegn þessum friðarhreyfingum. En ég hef hins vegar varað við því og vara mjög við því að setja þær allar á sama bás. Við getum nefnt eina friðarhreyfingu sem hér starfar í öruggu skjóli Alþb. og er útibú Heimsfriðarráðsins svonefnda. Eitt af meginhlutverkum Heimsfriðarráðsins, sem Alþb. vill væntanlega telja part af þessari friðarhreyfingu, er að túlka og fegra utanríkisstefnu Sovétríkjanna. Liðsmenn Alþb. hafa svo sem ekki heldur legið á liði sínu í því verki. Heimsfriðarráðið er fjármagnað frá Sovétríkjunum. Talið er að Sovétríkin verji a.m.k. 49 millj. dollara á ári hverju til starfsemi Heimsfriðarráðsins, til þess að dreifa fölskum upplýsingum og fegra utanríkisstefnu Sovétríkjanna. Þessi dreifing á röngum upplýsingum, eins og Alþb. og Samtök herstöðvaandstæðinga hafa stundað um Ísland, er auðvitað sérgrein þeirra sovétmanna, eins og við höfum séð, m.a. hér í sjónvarpi. En fé til Heimsfriðarráðsins kemur ekki eingöngu frá Sovétríkjunum, heldur líka frá öðrum Austur-Evrópuríkjum, og væri fróðlegt að fræðast um hvernig starfsemi þessarar stofnunar hér á Íslandi er fjármögnuð.

Forseti þess Heimsfriðarráðs, sem þessi hreyfing er útibú frá, er indverskur kommúnisti sem dyggilega hefur stutt utanríkisstefnu Sovétríkjanna í 30 ár, og hann hefur engan bilbug látið á sér finna þrátt fyrir innrás Sovétríkjanna í Ungverjalandi 1956, Tékkóslóvakíu 1968 og Afganistan 1979. Hann lét raunar svo um mælt, að þau friðarsamtök, sem beittu sér gegn Sovétríkjunum, væru ekki raunveruleg friðarsamtök. Hann sagði í grein sem hann skrifaði árið 1981, með leyfi forseta:

„Í höndum sósíalista, kommúnista hefur hernaðarvaldið í fyrsta skipti í sögu mannkyns orðið tæki til að vernda frið og félagslegar framfarir.“

Þetta Heimsfriðarráð, sem hefur útibú á Íslandi, starfaði upphaflega í París. Árið 1951 rak franska ríkisstjórnin þetta Heimsfriðarráð og starfsemi þess úr landi fyrir fimmtu herdeildar starfsemi. Þá flutti það til Prag, og 1954 setti það upp bækistöðvar í Vínarborg. Í Vínarborg var starfsemi þess bönnuð þremur árum síðar vegna athæfis sem beindist gegn hagsmunum austurríska ríkisins. Heimsfriðarráðið hélt að vísu áfram að starfa í Vín undir öðru nafni og kallaði sig þá Alþjóðlegu friðarstofnunina. Það er engin nýjung að kommúnistar skipti um nafn á starfsemi sinni. Það þekkjum við Íslendingar mætavel.

1968 flutti þetta ráð starfsemi sína til Helsinki og þar starfar það nú að dyggum stuðningi við utanríkisstefnu Sovétríkjanna. En nú vildi ég gjarnan vitna til breska sagnfræðingsins Thompsons sem hér var á ferð. Hvað sagði hann um þetta Heimsfriðarráð? Í breska blaðinu Guardian í febr. í fyrra sagði hann orðrétt:

„Ef vestrænu friðarhreyfingarnar lenda í slagtogi með Heimsfriðarráðinu, þá verða þær í raun aðeins hreyfing gegn Atlantshafsbandalaginu og gegn hernaðarstefnu Atlantshafsbandalagsins, og það mun hafa illt eitt í för með sér. Það mundi einnig mæta andstöðu í Austur-Evrópu, þar sem almenningsálit er orðið langþreytt á opinberum friðaráróðri og þar sem ríkisreknar friðarnefndir hafa aldrei í sinni 30 ára sögu deplað auga til að mótmæla hernaðarstefnu Sovétríkjanna.“

Þetta hafði sá ágæti maður að segja um Heimsfriðarráðið. Höfum við heyrt einhverja viðlíka dóma frá þeim Alþb.-mönnum um þetta útibú Moskvustjórnarinnar? Síður en svo. Það starfar hér með þeirra blessun og vel það. Þess vegna ítreka ég að friðarhreyfing er ekki sama og friðarhreyfing. Þar er langur vegur frá.

Afstaða jafnaðarmanna í Evrópu til vígbúnaðarins, kjarnorkuvopna og kjarnorkuvopnalausra svæða, hefur alla tíða verið sú, að það, sem þar yrði gert, skapaði þjóðum á þessu svæði aukið öryggi. Afstaða jafnaðarmanna til kjarnorkuvopnalauss svæðis á Norðurlöndum hefur auðvitað verið háð því, sem er það eina skynsamlega, að það væri liður í aðgerðum sem næðu til stærra svæðis. Það er hægt að vitna hér til margra ályktana Alþjóðasambands jafnaðarmanna, norrænna jafnaðarmanna, einstakra flokka um þessi efni. Ég ætla ekki að gera það nú. Til þess gefst tími síðar.

Áður en ég lýk máli mínu voru eitt eða tvö atriði úr þessari endemisræðu, sem hér var haldin þriðjudag fyrir páska, sem mig langaði að víkja aðeins að.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson gerði Helguvíkurmálið að umtalsefni og átti ég ekki von á að þeir Alþb.menn brytu upp á því. Hann sagði orðrétt: „Helguvík er ein besta stórskipahöfn á Íslandi.“ Þetta segir okkur þrennt: Hv. þm. veit ekkert um hafnir, skip eða sjómennsku ef Helguvík er ein besta stórskipahöfn á Íslandi. Ef önnur þekking hans á þessum málum er eftir þessu er það lítið að marka. Ég held hins vegar, eins og fram hefur komið raunar, að hafnaraðstaða í Helguvík sé, ekkert sérstaklega góð. Þar þarf að gera margvíslegar ráðstafanir til þess að þar verði sæmileg hafnaraðstaða. Það eru hins vegar áreiðanlega hundrað staðir hér á landi þar sem er helmingi betri hafnaraðstaða en í Helguvík. En nú á sem sagt að framkvæma þá till., sem þessi hv. þm. og flokksbræður hans, þeir Alþb.-menn, samþykktu með handauppréttingu hér á Alþingi í fyrravor, um að flytja olíugeymana ofan af vatnsbólum Suðurnesjamanna, og þá heitir það að nú eigi í fyrsta skipti að útvega Bandaríkjamönnum aðstöðu fyrir stór skip á Íslandi. Aldrei er minna úr málunum gert en efni standa til. Rangtúlkanir og hálfsannleikur af þessu tagi einkenna málflutning þessara ágætu manna. Það er logið og logið til þess að skelfa og blekkja.

Mér er það í barnsminni þegar verið var að reisa áburðarverksmiðjuna hér uppi í Gufunesi. Þá var ég að byrja að lesa pólitíkina í blöðunum. Þá las ég það í Þjóðviljanum dag eftir dag, að áburðarverksmiðjan í Gufunesi væri í rauninni sprengiefnaverksmiðja fyrir NATO — þetta var þjóðinni sagt dag eftir dag — því að á einum sólarhring mætti breyta áburðarverksmiðjunni í sprengiefnaverksmiðju fyrir NATO. Það var sem sagt íslenska auðvaldið sem var að koma upp hergagnaverksmiðju í Gufunesi, en ekki verið að bæta aðstöðu íslensks landbúnaðar.

Þegar byggðir voru nokkrir olíutankar og litil bryggja uppi í Hvalfirði hét það kafbátahöfn fyrir NATO. Undanfarm fjögur ár hef ég keyrt fram hjá þessum mannvirkjum tvisvar, þrisvar og stundum miklu oftar í hverjum mánuði og ég hef aldrei séð skip við þessa bryggju enn þá, hvað þá að þangað hafi komið kafbátar. Þetta eru bara dæmi um þennan venjulega málflutning, þessar venjulegu blekkingar, og nú að undanförnu hefur alveg það sama verið uppi á teningnum með svokallað Helguvíkurmál.

Herra forseti. Ég tel að á sviði utanríkismála eigum við Íslendingar að láta meira til okkar taka en við höfum gert og þá kannske ekki hvað síst á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna — og þá umfram allt á því aukaþingi Allsherjarþingsins sem hefst 7. júní í sumar, þar sem á að fjalla um afvopnunarmál. Það er kaldhæðni örlaganna, að það skuli vera fulltrúi Íraks, formaður sendinefndar Íraks, sem á í stríði við Íran, sem á að setja þennan fund Allsherjarþingsins. Það segir kannske meira um ástandið í þessum efnum í veröldinni en mörg orð önnur. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hafa verið unnar fjölmargar skýrslur um þessi mál sem lagðar verða fram á þessu þingi. Við eigum í auknum mæli, að minni hyggju, að efla samstarf við þær þjóðir sem við höfum mest saman að sælda við og nánast samstarf við á sviði utanríkismála, og þar á ég við Norðurlandaþjóðirnar. Ég er ekki sérlega bjartsýnn á að við getum komið neinu stóru til leiðar. En við eigum að hafa uppi viðleitni, miklu meiri viðleitni en við höfum haft til þessa. Hins vegar neyðumst við auðvitað til að bíta í það súra epli, að raunverulegum árangri í þessum afvopnunarmálum, sem varða allt mannkyn mjög miklu, verður ekki náð fyrr en hjá stórveldunum báðum er vilji og áhugi á að ná árangri og til koma aðferðir, sem þau treysta, til eftirlits og aðhalds í þessum efnum. Það er hreinn barnaskapur að ætla sér að vinna stórvirki í þessum efnum öðruvísi en þessi ríki séu þar með. Það eru þau sem ráða þessum vopnum og það eru þau sem verða að gera ráðstafanirnar, en það erum við sem eigum að hafa áhrif á þau í þá átt að þetta gerist.