28.04.1982
Efri deild: 75. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4277 í B-deild Alþingistíðinda. (3917)

253. mál, ríkisreikningurinn 1978

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég vil aðeins vekja athygli hv. deildarmanna á því, að í þeim ríkisreikningi, sem nú er verið að samþykkja, er rakin ítarlega — í athugasemdum yfirskoðunarmanna sem Alþingi hefur tilnefnt — saga hins svonefnda Kröflumáls.

Þar koma fram athugasemdir varðandi símareikninga, varðandi húsaleigumál, varðandi launamál og varðandi eitt og annað sem tengist þessu einstæða máli, sem sumir mundu vafalaust telja með meiri háttar fjármálahneykslun sem hér hafa upp komið.

Á þessu vil ég aðeins vekja athygli og þeim ummælum yfirskoðunarmanna ríkisreiknings, að margt sé þar ýmist til viðvörunar eða ekki til eftirbreytni.

Ég ætla ekki að fara frekari orðum um þetta mál, svo oftlega hefur það verið bæði rakið og rætt hér í sölum Alþingis. Ég vil aðeins benda hv. þm. á þessar athugasemdir og þá fróðlegu en um leið — vil ég leyfa mér að segja — óhugnanlegu skýrslu sem fylgir þessum ríkisreikningi. Ég mun ekki taka þátt í afgreiðslu málsins.