09.11.1981
Efri deild: 10. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í B-deild Alþingistíðinda. (392)

75. mál, aðstoð í skattamálum

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd viðbótarsamning við Norðurlandasamning um aðstoð í skattamálum.

Frv., ef samþykkt verður, heimilar ríkisstj. að staðfesta breytingu á Norðurlandasamningi frá 1972 um aðstoð í skattamálum. Samkv. 2. gr. frv. fengi breytingin lagagildi hér á landi þegar hún hefur öðlast gildi. samningurinn frá 1972 var staðfestur samkv. heimild í lögum nr. 111/1972 og hefur hann lagagildi hér á landi. Árið 1976 var gerð breyting á samningnum, sem staðfest var samkv. lögum nr. 8/1977. Hefur sú breyting einnig öðlast lagagildi.

Breytingin, sem hér um ræðir, var undirrituð í júní s. l. Er hún birt sem fskj. með frv. og fjallar annars vegar um upplýsingaskyldu varðandi fasteignir og hins vegar um ráðstafanir til tryggingar greiðslu á skattkröfum. Gert er ráð fyrir að breyting þessi auðveldi innheimtu skatta og skattaeftirlit.

Að lokinni þessari umr. leyfi ég mér að leggja til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.