28.04.1982
Efri deild: 75. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4282 í B-deild Alþingistíðinda. (3940)

291. mál, lagmetisiðnaður

Frsm. meiri hl. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Iðnn. hefur haft til umfjöllunar frv. til l. um breyt. á lögum nr. 58 4. júní 1981, um lagmetisiðnað og Þróunarsjóð lagmetisiðnaðarins.

Frv. gerir ráð fyrir að umrædd lög verði framlengd til 31. des. 1983. Það varð allmikil umfjöllun um frv. í hv. iðnn. sem ekki er nema von. Það bryddaði á skiptum skoðunum í þessu efni: Í fyrsta lagi, hvort eðlilegt sé að sölustofnun hafi svo að segja einkarétt á sölu lagmetis til austantjaldsríkja. Í annan stað, hvort eðlilegt sé að samþykktir félaga eins og Sölustofnunar lagmetis séu lögfestar. Um þetta eru skiptar skoðanir og í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það.

Ég vil — með leyfi forseta — lesa upphaf nál. meiri hl. iðnn., en þannig fór við umfjöllun í nefndinni, að nefndin náði ekki algerri í samstöðu um málið og klofnaði í meiri og minni hluta: Í nál. stendur:

„Á liðnu ári við umfjöllun iðnn. um lagmetisiðnaðinn komu fram þau viðhorf, að sölusamtök um lagmeti ættu að starfa á sama grundvelli og hliðstæð samtök annarra útflutningsgreina. Meiri hluti nefndarinnar leggur því áherslu á að fyrirkomulag þessara, mála verði endurskoðað að frumkvæði iðnrh. og sjútvrh. í samráði við þá aðila sem starfa í lagmetisiðnaði.

Á fund nefndarinnar komu framkvæmdastjóri Sölustofnunar lagmetis og nokkrir fulltrúar frá framleiðendum lagmetis.

Eins og áður er getið leggur meiri hl. nefndarinnar til að frv. verði samþykkt óbreytt; en minni hlutinn skilar séráliti sem liggur hér fyrir í. deildinni:

Þorv. Garðar Kristjánsson var fjarverandi afgreiðslu málsins.

Ég vil bæta því við — og ég held ég túlki skoðun meiri hl. nefndarinnar rétt að því leyti, að við lítum svo á að það þurfa að koma frumkvæði einhvers staðar frá, og við mörkum það frumkvæði í þessu nál — frumkvæði til þess að skipulag þessara mála verði endurskoðað.

Enda þótt við leggjum til að frv., sem hér liggur fyrir, verði samþykkt, hygg ég að við gerum okkur allir grein fyrir því, að þarna er fjölmargt sem betur mætti fara. Það mátti marka af viðræðum við ýmsa þá fulltrúa frá lágmetisframleiðendum sem koma á okkar fund. En niðurstaða okkar var sú að framlengja lögin, ýta þessu ekki út í myrkrið, ef ég má svo að orði komast,. heldur gera gangskör að því að skipulag þessara mála verði tekið til endurskoðunar, að frumkvæði þeirra aðila sem eru nefndir í nál.