28.04.1982
Efri deild: 75. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4283 í B-deild Alþingistíðinda. (3942)

291. mál, lagmetisiðnaður

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég tel mig til knúinn við afgreiðslu þessa máls að undirstrika það, hversu tvíráða ég var og er um afgreiðslu máls sem lýtur að einkarétti til Sölustofnunar lagmetis. Ég undirstrika það enn fremur en hv. frsm. meiri hl. n. gerði í framsöguræðu sinni og raunar á svipaðan hátt og hv. frsm. minni hl., Eiður Guðnason. Það er sannast sagna, sem hv. þm. Eiður Guðnason sagði áðan, að skoðanir voru mjög skiptar hjá þeim aðilum sem nefndin kvaddi til viðræðna. Það væri freistandi að bæta því við, að skoðanir virtust í raun og sanni mjög skiptar einnig við afgreiðslu málsins hjá hverjum og einum nm. Aftur á móti var ég þeirrar skoðunar, að eins og málum var komið yrði ekki undan því vikist að framlengja þetta einkaleyfi enn um skamma hríð, vegna þess að enda þótt það kæmi fram, eins og hv. þm. Eiður Guðnason sagði, að sumir hefðu búist við því, að einkaleyfið félli niður þar sem það var tímabundið, þá höfðu aðrir skákað í því skjóli, að lögin yrðu endurnýjuð. Og mun það eiga við ekki síður í lagmetisiðnaðinum en annars staðar, að vonin gefur veikum þrótt.

Ég legg áherslu á það við afgreiðslu málsins núna, að eftir því verði gengið að þeir aðilar, sem til eru nefndir í áliti meiri hl. n., taki þessi mál til athugunar að nýju og að fyrir liggi þegar á haustþingi mál sem varðar þennan sérstaka rétt Sölustofnunar lagmetis, þannig að tóm gefist til að fjalla um málið ítarlega og eðlilega og niðurliggjendur lagmetis gangi ekki að því gruflandi öðru sinni, við hverju þeir megi búast í þessu máli. Efa bar ég í brjósti, þegar við afgreiddum þetta mál hið fyrra sinni, hvort rétt væri að veita þessum aðilum slík sérréttindi og slíka vernd. Ekki er sá efi minni núna.