28.04.1982
Efri deild: 75. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4283 í B-deild Alþingistíðinda. (3943)

291. mál, lagmetisiðnaður

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Hv. þm. Stefán Jónsson talaði um að Sölustofnun lagmetis hefði sérréttindi í útflutningi lagmetis til Austur-Evrópulanda eða þeirra landa, eins og skilgreint er í lögunum, þar sem einn kaupandi er. Ég vil benda hv. þm. á að til er stofnun í landinu sem hefur sérréttindi til sölu ákveðinnar afurðar á öllum mörkuðum, bæði þar sem einn kaupandi er fyrir og þar sem margir kaupendur eru fyrir. Það er síldarútvegsnefnd. Sölustofnun lagmetis er bannað það með lögum, ef hún vildi flytja út síld niðurlagða í dósir sem eru yfir ákveðin stærðarmörk, vegna þess að það er aðili í landinu sem hefur einn einkarétt á útflutningi saltaðrar síldar í öllu formi í ílátum sem eru yfir ákveðin mörk, um gervalla heimsbyggðina.

Í Noregi hefur um langt árabil verið ákveðin löggjöf um sölu á norsku langmeti til landa þar sem er einn kaupandi. Og ég veit ekki betur en gert sé ráð fyrir því að taka upp svipað fyrirkomulag í Noregi á sölu lagmetis á öllum mörkuðum og síldarútvegsnefnd hefur hér.

Nú geta menn haft sínar skoðanir á því, hvort þetta er heppilegt eða ekki. En þó ég hafi ekki lengur neinna hagsmuna að gæta, sem betur fer, í þessu máli, þá finnst mér ekki eðlilegt að ræða um þennan aðila eins og hann sé einhvers staðar algerlega sér á báti.

Ég vil líka benda á það, að öll sölusamtök íslensk hafa sem betur fer haft svo nána samvinnu um sölu á markaði þar sem einn kaupandi er, í Nígeríu eða í Rússlandi, svo dæmi séu nefnd, að það má segja að þar sé um einn aðila að ræða. Við skulum taka sem dæmi SH og sjávarafurðadeild SÍS. Þegar þeir selja fisk til Sovétríkjanna gengur ekki hnífurinn á milli þessara aðila, ef svo mætti að orði kveða. Þeir forðast sem heitan eldinn að níða skóinn hvor niður af öðrum. Það er engin tilviljun, enda hljóta menn að sjá að það er veikleiki fyrir söluaðila að koma margir og bjóða einum aðila í stóru landi sömu vöruna frá sama landinu. Það er veikleiki í sölukerfinu, það er veikleiki sem kaupandi getur mjög auðveldlega notað sér. Ég er ekki að segja að hann geri það, ég er ekki að segja að það verði alltaf, en það er veikleiki og það er engin tilviljun að þetta hefur verið gert.

Ég vildi aðeins benda á það, að a.m.k. einn aðili í þessu landi hefur ekki bara einkarétt á að selja ákveðna íslenska afurð til landa þar sem einn kaupandi er fyrir, heldur til allra landa.