28.04.1982
Efri deild: 75. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4284 í B-deild Alþingistíðinda. (3945)

299. mál, ábyrgð vegna norrænna fjárfestingalána

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir stjfrv. til laga um ábyrgð vegna norrænna fjárfestingalána til verkefna, sem svo er nefnt. Með frv. þessu er lagt til að Alþingi samþykki að ríkissjóður taki á sig ábyrgð gagnvart Norræna fjárfestingarbankanum á fjárhæð, sem nemur allt að 2 830 000 SDR, vegna fjárfestingalána og ábyrgða til verkefnaútflutnings. Eins og kunnugt er, þá er SDR reiknieining sem notuð er í alþjóðaviðskiptum, en hún er vegið meðaltal ýmissa gjaldmiðla og er að verðgildi álíka eða lítið eitt meiri en 1 dollar. Ég má segja að dollar svari nú 10.40 kr. ísl., en þessi gjaldmiðill, SDR, 11.60 kr. Jafnframt er lagt til að Alþingi heimili ríkisstj. að ganga frá samningi við Norræna fjárfestingarbankann varðandi þessa ábyrgð.

Hugtakið „verkefnaútflutningur“ er þýðing á orðinu „projektexport“, en það má í grófum dráttum skilgreina sem sölu mannvirkja til útflutnings, þar sem saman fer tæknibúnaður og verkefni.

Aðdraganda að framlagningu þessa frv. má rekja til tillögu ráðherranefndar Norðurlanda við Norðurlandaráð um að norrænt samstarf á sviði verkefnaútflutnings skyldi aukið. Í tillögu sinni lagði ráðherranefndin á það áherslu, að á seinni hluta áttunda áratugarins hefði komið í ljós veruleg aukning á fjárfestingarstarfsemi, fyrst og fremst í olíuútflutningslöndum og hinum svonefndu nýiðnvæddu löndum, en einnig að nokkru leyti í þeim löndum sem búa við ríkisrekinn áætlunarbúskap. Þessar fjárfestingar fela að verulegu leyti í sér sölu mannvirkja frá iðnaðarlöndum, m.a. fullgerð mannvirki. Allt bendir til að þessum útflutningi verði haldið áfram, enda eru fjárfestingarþarfir þróunarlandanna margvíslegar. Talið er að stærstu útflutningsmarkaðirnir í þessum efnum séu í Suður-Ameríku, Afríku og Suðaustur-Asíu.

Sú er skoðun ráðherranefndar Norðurlanda, að mörgum stoðum megi renna undir það, að til mikils sé að vinna með aukinni norrænni samvinnu á sviði verkefnaútflutnings. Iðnaður á Norðurlöndum sé í háum tækni legum gæðaflokki og á mörgum sviðum bæti fyrirtæki eins lands fyrirtæki annars lands upp. Ráðherranefndin tekur einnig fram að Norðurlönd veiti tiltölulega stórar upphæðir til alþjóðastofnana og framkvæmdabanka, t.d. Alþjóðabankans og annarra fjárfestingarbanka, en á hinn bóginn komi öllu minna í hlut Norðurlanda þegar að því komi að reisa og kosta þau mannvirki sem stofnanir þessar fjármagna.

Þessi tillaga, sem nú hefur verið stuttlega greint frá, var tekin til meðferðar af Norðurlandaráði fyrir rúmu ári og var ráðherranefndinni þá falið að gera ráðstafanir er miði að því að hrinda tillögunni í framkvæmd. Einn liður í því er að komið verði á fót nýjum lánaflokki við Norræna fjárfestingarbankann er gegni því hlutverki að auka samkeppnisgetu norrænna fyrirtækja við sölu verkefna, einkum til þróunarlandanna eins og ég gat um. Á þessi starfsemi að hefjast 1. júlí n. k. og er þá gert ráð fyrir að frv. hliðstæð því frv., sem hér er til umr., hafi hlotið samþykki allra þjóðþinga Norðurlanda.

Eins og fram kemur í grg. með frv. er talið nauðsynlegt að Norðurlöndin veiti ríkisábyrgð fyrir 90% af þeim 350 millj. SDR sem um er að ræða, enda fela þau lán í sér áhættu sem hvorki Norræni fjárfestingarbankinn né aðrar lánastofnanir á Norðurlöndum geta tekið á sig án þess að veikja eigið lánstraust. Ábyrgð þessi kemur einungis til greiðslu ef tjón verður vegna þessara lána og ábyrgða, og er hluti Íslands 0.89% af heildarfjárhæð ríkisábyrgðanna.

Rétt er að geta þess í þessu sambandi, að starfsemi Norræna fjárfestingarbankans hefur færst sífellt í vöxt frá því að hann hóf starfsemi sína á árinu 1976. Samkv. 1. gr. samnings um stofnun bankans er hlutverk hans að veita lán og ábyrgðir með bankakjörum og samkvæmt almennum þjóðhagslegum sjónarmiðum með það í huga að hrinda í framkvæmd fjárfestingaráformum og efla útflutning í þágu Norðurlandanna. Eins og vitað er hefur fjárfestingarbanki þessi aðalbækistöðvar í Helsingfors í Finnlandi. Íslendingar hafa stutt þetta mál frá upphafi vega og talið er að þessi banki sé mjög vel rekinn og þjóni sameiginlegum hagsmunum Norðurlanda vel á þessu sviði.

Hér er m.ö.o. gert ráð fyrir að stækka grundvöll og auka starfsemi Norræna fjárfestingarbankans. Hann hefur, eins og ég sagði, reynst traust stofnun og má segja að starfræksla hans sé áþreifanlegt dæmi um góðan árangur á sviði norrænnar samvinnu.

Frv. er þess eðlis, að það ætti ekki að valda ágreiningi. Því fylgir allítarleg grg. þar sem málin eru skýrð nánar en ég geri í þessari framsögu. Ég tel því ekki nauðsynlegt að hafa fleiri orð um frv. á þessu stigi, en vísa til meðfylgjandi grg. að öðru leyti. Ég legg til að frv. verði vísað til hv. fjh.- og viðskn. og 2. umr. að þessari umr. lokinni.