28.04.1982
Efri deild: 75. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4286 í B-deild Alþingistíðinda. (3948)

211. mál, verðlag og samkeppnishömlur

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu hv. frsm. nefndarinnar rita ég undir nál. um þetta frv. um verðlagsmál með fyrirvara. Sá fyrirvari er ekki fólginn í því, að ég telji ekki þetta frv. vera til bóta frá því sem verið hefur. Satt að segja fannst mér hæstv. ráðh. líða allmiklu betur, þegar hann mælti fyrir þessu frv., heldur en honum hefur stundum liðið þegar hann hefur verið að tala um verðlagsmál í þessari hv. deild. Það var alveg ljóst á svipnum á hæstv. ráðh. að honum hugnaðist betur sú aðferð, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., heldur en sú sem hefur verið í framkvæmd undanfarið í verðtagsmálum, og lái ég honum það ekki. Ég fagna því, að þetta spor er stigið.

Á hinn bóginn hef ég leyft mér að endurflytja hér till. sem nokkrir sjálfstæðismenn fluttu í Nd. og er um 4. gr. frv. Hún er í sem skemmstu máli sú að taka upp aðalreglu í verðlagslög sem við hæstv. ráðh. stóðum að endur fyrir löngu að lögfesta, í tíð fyrrv. ríkisstj., — ríkisstj. sem sat 1974–1978 og við studdum báðir með ráðum og dáð. Þessi breyting er sú, að aðalreglan skuli vera að verðmyndun sé frjáls þegar um það er að ræða að samkeppni sé nægjanleg, að sjálfsögðu undir ákveðnu eftirliti engu að síður, en áherslan skuli vera á því að verðlagning sé frjáls. Við sjálfstæðismenn teljum að það sé bæði besta verðlagseftirlitið og líka hafi það í för með sér það svigrúm sem fyrirtæki þurfi að hafa til verðlagningar sinnar vöru, að þetta sé meginreglan í verðlagsmálum.

Ég þarf ekki að orðlengja um þetta. Það má segja að þetta sé meginmálið í brtt. sem ég endurflyt hér, en nokkrir sjálfstæðismenn fluttu þessar brtt. í Nd.