28.04.1982
Efri deild: 75. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4288 í B-deild Alþingistíðinda. (3951)

155. mál, námslán og námsstyrkir

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Það er rétt sem hv: síðasti ræðumaður sagði, að hér er stórmál annars vegar. Og ég hlýt að segja það líka, að ég er dálítið hissa á að það skuli fara svo til umræðulaust í gegnum þessa hv. deild enda þótt Nd. hafi athugað það allrækilega og gert á því nokkrar breytingar sem síðan eru samþykktar orða og athugasemdalaust hér í hv. Ed. Ég hygg að Alþingi hafi, enda þótt hv. Ed. eigi þar lítinn hlut að máli, afgreitt þetta mál af raunsæi og sanngirni í senn. En þarna eru vissulega atriði sem orka tvímælis.

Ég get tekið undir það sem hv. þm. Eiður Guðnason sagði, að það hefði verið ástæða til að endurgreiðslukjörin hefðu verið athuguð nánar, ekki endilega til að gera þau strangari, heldur til þess að gera þau eðlilegri. Nú er það svo að mörgum finnst ekki nógu langt gengið í hlutfallslegum greiðslum af námslánum. Það hafa verið uppi mjög háværar raddir, fyrst og fremst og raunar eingöngu meðal vinstri manna, um að láta greiðslurnar koma á háar tekjur fyrst og fremst, en þeir, sem lágar tekjur hafa, ættu alls ekkert að greiða. Þetta er stórhættuleg hugmynd. Við skulum gera okkur grein fyrir því, eins og kom fram áðan, að þetta er stórt fjárhagsmál fyrir ríkissjóð. Þessi sjóður er nú 30 ára gamall. Ég hef ekki handbærar tölur um hvað mikið hann hefur látið renna til námsmanna, og vissulega sé ég ekki eftir því, en stórar eru þær fúlgur orðnar. Og enda þótt frv. geri ráð fyrir hertum endurgreiðslum þá er gert ráð fyrir að 10 ár muni líða þangað til lánasjóðurinn sjálfur stendur undir helmingi lána sem hann þarf að inna af hendi til námsmanna. Þessar árlegu greiðslur ríkissjóðs nema hundruðum milljóna nýkróna svo þetta er ekkert smámál.

Ég mun styðja þetta frv. eins og það liggur hér fyrir, enda þótt ég telji ýmislegt í því hæpið. Ég veit að það er mikils virði að þetta mál nái fram að ganga nú. Ein af þeim reglum, sem orka tvímælis í upphaflega frv., var sú, að endurgreiðslur skyldu verða óafturkræfar, falla niður af sjálfu sér eftir 30 ára tíma. Ég vil benda á að í fskj. með frv. er áætlað að námsmaður, sem stundar nám í einu þeirra landa sem hvað dýrast er að stunda nám í Englandi, muni að 30 árum liðnum eiga 34% ógreitt af sínum lánum. Við skulum líta þannig á málið að þarna eigi í hlut einn af tekjuhæstu mönnum þjóðfélagsins. Við 30 ára takmarkið, með þeim endurgreiðslureglum, sem frv. gerir ráð fyrir, á hann eftir að greiða rúmar þriðjung af sínum námslánum. Þetta hefur nú í meðförum Nd. verið lengt í 40 ár. Ég tel að með því muni menn almennt komnir á eftirlaunaaldur og vel það, margir um sjötugsaldur og þá sé ekki vert að láta þá burðast með þessa skuld á bakinu yfir í eilífðina, því að margir verða þeir sem hafa þó nokkra skuld á bakinu. Ég get því fallist á þetta fyrningarákvæði úr því að það hefur verið lengt í 40 ár.

Þeir, sem hafa krafist mildari endurgreiðslureglna, tala um að þetta mál eigi að framkvæma sem tekjujöfnunarmál í anda félagshyggju. En hugleiðum aðeins nánar hvert hún leiðir okkur, þessi svokallaða félagslega hjálp. það er vissulega spurning hvort hið fullkomna öryggi, sem nútíma þjóðfélag vill bjóða sínum þegnum, tryggi okkur að sama skapi það jafnvægi í lífi okkar og lífshamingju sem við erum öll innst inni að leita að. Sannleikurinn er sá, að hin félagslega samhjálp í hinum sósíalísku ríkjum í nágrenni við okkur er komin út í algert kviksyndi, sem ég held að sé tími til kominn að við áttum okkur á hér og látum ekki teyma okkur óendanlega í þeim efnum.

Yfirboð og kapphlaup stjórnmálamana um að leggja allt upp í hendurnar á öllum, jafna allt og alla með valdboði og lögum er auðvitað á mjög djúptækum og dapurlegum misskilningi byggt. Þetta eru að sjálfsögðu ær og kýr sósíalista, en við vitum öll mætavel að hvergi er jafnmikill hyldýpis mismunur á milli hinna hæstu og lægstu og einmitt í sósíalistaríkjunum sem sigla undir fölsku flaggi mannréttinda og réttlætis og jafnréttis.

Ég minnist þess, að einn af þm. Alþb. — það er verst að enginn fulltrúi þess ágæta stjórnmálaflokks er staddur hér í hv. deild (Forseti: Forsetinn.) Fyrirgefðu, herra forseti, síst var ætlun mín að gleyma þér. En þetta var hv. þm. Guðrún Helgadóttir. Hún lét svo ummælt í umr. í Nd. um þetta mál, að auðvitað ætti öll menntun að vera ókeypis, menntun ætti ekki að vera einkafjárfesting, heldur í þágu samfélagsins í heild. Þetta hljómar svo sem alls ekki illa. En reynslan af þess konar rausn hins sósíalíska þjóðskipulags er síður en svo geðsleg. Kerfið vill vissulega hafa nokkuð fyrir sinn snúð. Það telur sig hreinlega ávinna sér ráðstöfunarrétt yfir menntun hvers einstaklings, hvernig hún nýtist heildinni að náminu loknu. Því skulu Pétur og Páll, með sína ókeypis menntun upp á vasann, að náminu loknu fara þangað og vinna þar sem hans aldrottnandi, allsráðandi lánardrottinn og allsherjarfaðir, ríkið, telur hans þörf í kerfinu. Og þeir hinir sömu skulu spara sér allt múður í þeim efnum. Þar verður fólk að hlýða. Ég segi nú ekki annað en Guð forði oss frá slíkri þrælafjárfestingu í íslenskum námsmönnum og íslenskum menntamönnum.

Lánasjóðurinn er fyrst og fremst lánastofnun til þess að tryggja að íslenskt æskufólk geti stundað þá menntun sem hugurinn stendur til, að enginn þurfi að hrekjast frá námi vegna fjárskorts og að langskólamenntun verði ekki forréttindi þeirra sem best hafa fjárráðin í þjóðfélaginu. En ef við sláum því föstu, að menntun sé trygg fjárfesting, þá hljótum við jafnframt að gera ráð fyrir að ætlast til þess, að hún nýtist þjóðfélaginu þannig að lánþegar verði borgunarmenn fyrir sínum skuldum, en þeir séu ekki dæmdir til þess að verða að ævilöngum ómögum á öðru vinnandi fólki í landinu. Þetta veit ég að er skoðun langsamlega flestra íslenskra námsmanna, þó að hinn hópurinn sé nokkuð stór sem félagshyggjuna aðhyllist og vilt fá reglur Lánasjóðsins í samræmi við það.

Það er mjög greinilega tekið fram í lögunum, að til sérstakra erfiðleika, veikinda, slysa, ómegðar, atvinnutaps og alls þess, sem þýðir mjög mikinn tekjumissi fyrir námsmanninn, skuli tekið tillit, og ég hefði talið að þessar undanþágur nægðu til þess að fyrningarákvæðið, hvort sem það var 20 eða 30 ár, þyrfti alls ekki að vera í lögunum. Samt sem áður, með skírskotun til þess sem ég sagði áðan um fyrningarregluna lengda í 40 ár, mun ég, til þess að hefta ekki framgang málsins fyrir mitt leyti, styðja það í því formi sem nú er.

En ég ítreka að þessi hv. deild hefði gjarnan mátt eyða meiri tíma í að ræða þetta mál. Betur sjá augu en auga. En það er eins með þetta mál og fleiri nú í þessu argaþvargi undir þinglokin, að það er vissulega fljótaskrift á ýmsu.