28.04.1982
Efri deild: 75. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4289 í B-deild Alþingistíðinda. (3952)

155. mál, námslán og námsstyrkir

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Vegna þeirra athugasemda, sem hv. 5. þm. Vesturl. gerði varðandi afgreiðslu hv. menntmn. Ed. á þessu máli, get ég sannarlega tekið undir það, að æskilegt hefði verið að fjalla nánar um þetta frv. í nefndinni. Það hefur komið hér fram, að stjórnarandstaðan er iðin við að hjálpa ýmsum málum í gegnum þingið þessa dagana. Þar mættu reyndar stjórnarsinnar gjarnan taka okkur stjórnarandstæðinga til fyrirmyndar og greiða fyrir ýmsum góðum brtt. sem stjórnarandstaðan flytur, en eru fyrir fram allar felldar, sama hversu góðar þær eru. Það hefur einnig komið fram á fundinum í dag.

Ég vildi aðeins minna menn á að þetta frv. hefur verið rætt í þingflokkunum, efnislega kynnt þar og rætt væntanlega í öllum þingflokkum, svo að hv. þm., sem eiga sæti í menntmn., koma ekki alveg ofan af fjöllum. Og vissulega er það það sem ræður afstöðu þeirra til að afgreiða þetta mál með fljótaskrift, eins og það hefur réttilega verið nefnt.

Ég get einnig tekið undir það sem hv. 5. þm. Vesturl. sagði áðan, að það væri ætlast til þess og gert ráð fyrir því, að þm. fjalli nákvæmlega um frv. sem lögð eru fram, og gert ráð fyrir að breytingar verði á þeim í meðferð þingsins, að undanteknu einu frv. sem ég vil gjarnan minna á. Þegar hæstv. menntmrh. mælti fyrir frv. til laga um Sinfóníuhljómsveit varaði hann þm. við að breyta einum einasta staf. Hlýðinn formaður hv. menntmn. Ed., hv. 11. þm. Reykv., hlýddi þessu kalli. Það var túlkað þannig, að þeir, sem voguðu sér að koma með brtt. við frv., væru að eyðileggja málið, tefja það og eyðileggja. Það tókst að gera allar brtt. tortryggilegar. Þrátt fyrir það voru sumar þeirra samþykktar. Þær voru ekki verri en það.

Ég vildi sem sagt láta það koma fram, að enda þótt málið hafi ekki fengið langa umfjöllun í nefnd voru þm. búnir að fjalla um það í þingflokkunum.