09.11.1981
Efri deild: 10. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í B-deild Alþingistíðinda. (397)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Það frv., sem hér er til umr., er flutt í annað sinn, svo að hv. þdm. ætti að vera ljóst í öllum atriðum hvað í því felst — eða hvað? Það kemur fram í frv., að eftir samþykkt þess skuli minnst 65 fastráðnir vera í Sinfóníuhljómsveitinni og fleiri ef verkefni krefjast og veitt er til þess fjármagn. Lágmarkstalan skal vera 65. Það er væntanlega fjölgun, en hvergi kemur fram í frv. eða grg. þess né í ræðum til þessa hver sú fjölgun er, hvað þá að hv. alþm. séu veittar upplýsingar um hver heildarfjölgun stöðugilda við þessa starfsemi yrði ef frv. yrði að lögum. Hins vegar segir í grg. með frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar tekjurnar eru tryggðar á þann veg sem gert er ráð fyrir í frv. þessu, ætti fjárhagsóvissan að hverfa“.

Í hverju er sá hókus pókus fólginn að losna við alla fjárhagsóvissu? Jú, útgjaldaþátturinn er lögfestur og ríkisstofnun og tveimur sveitarfélögum gert að borga þann hluta útgjaldanna sem á vantar til þess að aðgangseyrir þeirra, sem sækja hljómleika, dugi. Þessi hluti, sem aðgangseyririnn hefur ekki staðið undir, hefur verið um 91% útgjaldanna og verður að líkindum enn hærri prósenta útgjalda eftir að hljómsveitin verður stækkuð svo sem gert er ráð fyrir í frv. Þetta einfalda ráð, auknar greiðslur úr ríkissjóði, er flestum tiltæki. Ýmsir gerast bjargvættir góðra málefna hér á hv. Alþingi, flytja frv. um lausn flestra hugsanlegra vandamála með auknum greiðslum úr ríkissjóði, einfalt, frumlegt og snjallt, og meðan frv. með þessari lausn eru í prentun gefst hinum sömu tækifæri til að skrifa blaðagreinar eða flytja ræður um þá ósvífni að skattar skuli ekki lækkaðir.

Um þetta ætla ég ekki að hafa mörg orð, en varðandi það stjfrv., sem hér liggur fyrir, væri varla til of mikils mælst, þegar það kemur fram öðru sinni, þó að upplýst verði annaðhvort í hv. þd. eða í n. hvern kostnað það hefur í för með sér fyrir ríkissjóð að samþykkja frv. óbreytt umfram þau útgjöld sem ríkissjóður hefur nú af Sinfóníuhljómsveitinni.

Ég tek það fram, að í orðum mínum felst ekki endilega að ég sé andvígur því, að frv. verði samþykki. Mjög oft eiga aukin framlög úr ríkissjóði til slíkra málefna, sem hér er um að ræða, og annarra málefna að sjálfsögðu rétt á sér. Menn verða einungis að gera sér grein fyrir því, hvað hlutirnir kosta í hverju tilfelli, og hafa í huga að því fé, sem til þess fer, verður ekki varið til annars. Því miður þýðir það að samþykkja eitt oftast að öðru sé hafnað. Þegar slíkar samþykktir hafa verið gerðar ættu menn a. m. k. að láta líða nokkra daga þar til kallað er eftir skattalækkun.

Þegar ég er hér að finna að því, að af þessu frv. eða grg. verður ekki séð hver aukin útgjöld mundu fylgja samþykkt þess, er ég ekki að deila sérstaklega á hæstv. menntmrh., sem flytur þetta frv., frekar en aðra hæstv. ráðh., sem flytja hvert frv. eftir annað, öll þessu sama marki brennd. Ég spyr aðeins af þessu sérstaka tilefni: Hvenær er þess að vænta að til framkvæmda komi ákvæði 13. gr. laga, sem stundum eru kölluð Ólafslög og samþykkt voru fyrir 21/2 ári, en þar segir m. a. að mat skuli lagt á kostnaðarauka sem frumvörp kunna að hafa í för með sér fyrir ríkissjóð og slíkt mat skuli liggja fyrir áður en ákvarðanir eru teknar, enda sé því skilað til þingnefndar á tilteknum tíma?

Þessu frv. verður væntanlega vísað til hv. menntmn., og ég vænti þess, að hún fái upplýsingar um hver yrði kostnaðarauki fyrir ríkissjóð af samþykkt þess, og jafnframt að sú upplýsingastarfsemi hæstv. menntmrh. verði öðrum hæstv. ráðh. til eftirbreytni framvegis, eins og þar stendur.