09.11.1981
Efri deild: 10. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í B-deild Alþingistíðinda. (398)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Finnur Torfi Stefánsson:

Forseti. Ég ætla að leyfa mér að leggja örfá orð í belg við umr. um þetta mál.

Ég vil þakka menntmrh. fyrir að hafa lagt þetta frv. svo snemma fram og vona að takast megi að fá það samþykkt á þessu þingi.

Ég veit ekki hvort þm. er almennt kunnugt um hvílíkur vöxtur hefur verið í tónlistarlífi, bæði hér á höfuðborgarsvæðinu og á landinu yfirleitt, undanfarin tiltölulega fá ár. Mörg hundruð manns fara á tónleika hverja einustu helgi. Þetta er ekki alltaf sama fólkið. Það er mjög fjölbreytilegt. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þessi tónlistarstarfsemi er ekki aðeins þeim til ánægju, sem beinlínis eru tengdir henni, heldur hefur hún mikil og jákvæð áhrif langt út í þjóðfélagið. Fjöldi þeirra, t. d. unglinga og barna, sem nú eru að læra tónlist, er mikill og allt þjóðfélagið mun njóta góðs af því um ókomna tíma.

Það er augljós forsenda þess, að við getum búið við menningarstarf og tónlist, að til sé í landinu sinfóníuhljómsveit. Hlutverk hennar er bæði að flytja merkustu verk þessarar listgreinar og ekki síður hitt, að það þurfa að vera til atvinnumenn í þessari listgrein til að kenna og til að breiða út þessa list. Ég fagna því þess vegna að þetta mál skuli komið svo snemma fram og hægt sé að gera sér raunverulegar vonir um að það verði samþykkt á þessu þingi.

Menn hafa af eðlilegum ástæðum velt fyrir sér kostnaðarhlið málsins. Auðvitað er skylt og rétt að gera það. En auðvitað hlýtur það að fara nokkuð eftir viðhorfum og skoðunum hvers og eins í hvað ríkissjóður á að leggja fé. Ég er þeirrar skoðunar, að ríkissjóður eigi að leggja fé í sinfóníuhljómsveit, því fé sé vel varið. Ég hefði jafnvel viljað ganga lengra en gert er ráð fyrir í þessu frv. og segja sem svo, að ríkið eigi að borga allan kostnaðinn eitt. Ég væri fús til að styðja það. Þetta er mín skoðun. Hún ræðst af því að ég met það svo, að því fé, sem rennur í Sinfóníuhljómsveitina, sé betur varið en ýmsu öðru sem menn taka ákvörðun um á Alþingi og ríkið hefur með einum og öðrum hætti ráðstöfunarvald á. Ég held að mjög víða sé farið verr með miklu meira fé en hér eru lögð drög til. Viðhorf mitt er að við eigum ekki að láta kostnaðinn hindra okkur.

Hitt get ég tekið undir með hv. síðasta ræðumanni, að það er auðvitað rétt, heilbrigt og eðlilegt að fyrir liggi eitthvert mat á því, hver þessi kostnaður verður. Undir það get ég tekið. Það er heilbrigt og gott fyrir okkur að átta okkur á því, hvaða kostnaður það er sem við erum að tala um. En ég ítreka að því fé sem við komum til með að láta í þetta fyrirtæki, tel ég vel varið.