28.04.1982
Efri deild: 76. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4299 í B-deild Alþingistíðinda. (3996)

273. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Það skal tekið fram strax í upphafi, að ástæðan fyrir því, að ég skrifa undir nál. með fyrirvara, er sú, að ég tel mig ekki hafa getað gengið úr skugga um að það sé svo sem nefndin, sem fjallaði um fjárhagsstöðu Járnblendifélagsins, telur, að það sé hinn hagkvæmasti kostur að halda rekstri verksmiðjunnar áfram. Ég tel mig ekki hafa getað gengið úr skugga um það. Þar sem við blasir aftur á móti gjaldþrot þessarar verksmiðju, sem átti að verða hin þriðja meginstoð undir efnahagslíf Íslendinga, og þar sem ég hef ekki getað gengið úr skugga um að hagkvæmara sé í þessari stöðu að loka verksmiðjunni og segja upp starfsliðinu og að íslenska ríkið taki á sig sinn hluta af kostnaði sem á það mundi falla vegna þeirra aðgerða, þá treysti ég mér ekki til að leggja til að frv. verði fellt.

Ég vil aðeins geta þess, að í athugunum eða skýrslu frá nefnd þeirri, sem fjallaði um þetta mál, og í athugasemdum með frv. og grg. er ekki reiknaður á neinn hátt á móti kostnaði sá hagur sem beint blasir við að við hefðum þó upp á móti, upp í hið peningalega skakkafall. Það er reiknað með að það væru bein útgjöld fyrir íslenska ríkið að þar með féllu niður raforkukaup af hálfu Járnblendifélagsins frá Landsvirkjun. Það er ekki reiknað með þeim hag sem við hefðum af því að ráðstafa 60 mw. árlega á mun hagstæðara verði til annarra nota. Það er ekki reiknað með þeim hag sem við hefðum af því að bæta þessum 60 mw. við birgðir okkar, sem m.a. mundi gera það að verkum, að við þyrftum ekki að taka í notkun raforkuver á Íslandi fyrr en árið 1995. Ekki er heldur reiknað með þeim hag sem okkur væri augljóslega búinn af því að fá 150 manns, duglegt starfsfólk, vel verki farið, sem við bindum nú við óarðbær störf uppi á Grundartanga — og meira en það: störf sem Íslendingar tapa á, til starfa við arðbær störf, við framleiðslu verðmæta sem færa okkur björg í bú. Enn fleiri atriði hefðu komið til álita ef fjallað hefði verið um þetta mál frá öðru sjónarhorni og með hæfilegri tíma til könnunar á málinu, þ.e. í tæka tíð, áður en við blasir gjaldþrot þessa fyrirtækis.

Hér er um það að ræða, að varið verði 345 millj. kr. á næstu þremur árum til að standa straum af taprekstri Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, — upphæð sem eins og ég sagði við 1. umr. málsins mundi nægja til að borga fyrir bundið slitlag á 1140 km af hringveginum okkar, sem samtals er um 1500 km, — upphæð sem mundi nægja til að gera nýjan flugvöll fyrir Reykjavík, — upphæð sem mundi nægja til að endurnýja fyrir skolpræsakerfi Reykjavíkur, borga liðlega helminginn af endurnýjun skolpræsakerfis fyrir alla þéttbýlisstaði á Íslandi, — upphæð sem mundi nægja til að fullgera gömlu djörfu áætlunina um fjórðungssjúkrahús á Akureyri sem yrði varasjúkrahús fyrir allt landið, og má svo lengi telja.

Þess má geta, að í fskj. með þessu frv. er mjög sterklega gefið í skyn að það kunni svo að fara, að þessi fjárveiting nægi ekki, heldur þurfi að gauka enn þá meira fé að þessari draumaverksmiðju þeirra sjálfstæðismanna og framsóknarmanna og þó fyrst og fremst Alþfl.manna, — þess skal getið, að Alþfl. var eini flokkurinn sem stóð heilt og óskiptur að samningunum við Elkel-Spigerverket. Það er ekki ýjað að þeirri von, að þessar 345 millj. kr. muni nokkurn tíma gefa okkur nokkurn arð. Aftur á móti liggur á borðinu fyrir framan okkur útreikningur frá Vegagerð ríkisins, sem ekki hefur verið vefengdur, um að peningar lagðir í bundið slitlag á vegi landsins gefi 30% vexti.

Við 1. umr. um þetta frv. vék ég að því, að nú væri æskilegt að fara í gegnum fskj. sem fylgdu hinu upprunalega frv. inn á hv. Alþingi, þegar fjallað var hið fyrra sinnið um samninginn við ameríska auðhringinn Union Carbide um þessa verksmiðju, og svo umr. og fskj. sem hingað komu þegar fjallað var um samninginn við Elkem-Spigerverket, — rifja upp álit sérfræðinganna, sem frv. ríkisstj. var byggt á, skýringar stjórnmálaforustunnar á þeim tíma á þeirri nauðsyn að koma upp þessari verksmiðju, þeim arði sem þessi verksmiðja ætti að færa okkur. Þá mæltist ég til þess, að fyrrv. hæstv. iðnrh., sem var forgöngumaður af hálfu ríkisstjórnar Geirs Hallgrímssonar um að koma upp þessari verksmiðju, núv. hæstv. forsrh., yrði viðstaddur 2. umr., vegna þess að það liggur í hlutarins eðli að flestar af hinum glæstustu lýsingum, hinum meitluðustu fullyrðingum um arðsemi þessa fyrirtækis bárust okkar af hæstv. vörum hans. Nú er mér það fullkunnugt, að hæstv. forsrh. er önnum kafinn, bundinn við önnur störf á þessum annadögum, og því verð ég að sætta mig við að slá utan um ljósrit af ræðu minni, sem ég flyt hér, og fá hraðboða til að flytja honum þetta nú um helgina heim, þegar það kemur úr vélritun, í þeirri fullu vissu að hann muni, ef honum gefst tóm til frá lestri annarra þskj., undirbúningi annarra stórmála, lesa þetta um helgina.

Ég las hér við 1. umr. hina fyrstu yfirlýsingu þáv. iðnrh. í framsöguræðu hans með hinu fyrra frv. um Járnblendiverksmiðjuna, þar sem hann gerði grein fyrir arðsemi hennar þegar á fyrsta misserum starfseminnar og fyrir því, hversu öruggur væri markaðurinn fyrir þessa vöru og verð áreiðanlegt samkv. reynslunni. Hæstv. fyrrv. iðnrh., núv. forsrh., sagði m.a.: Það er talinn allöruggur markaður fyrir þessa framleiðslu nú og í fyrirsjáanlegri framtíð, og ráð er fyrir því gert að hreinn hagnaður, eftir að allar greiðslur hafa verið inntar af hendi og m.a. skattar, ætti að verða hin fyrstu ár um 3 millj. dala, en síðan fara hækkandi upp í 4.6 millj. dala á árunum 1983 og 1987, þ.e. þeim árum sem blasir nú við okkur að við þurfum að gauka út 345 millj. nýkr. upp í tap, og síðan færi hann upp í 6.4 millj. dala. Þetta eru þær spár sem nú liggja fyrir, sagði hæstv. iðnrh. í nafni ríkisstjórnar Geirs Hallgrímssonar.

Mér er það að vísu ljóst, að mynd kemur ekki til skila í prentuðum Alþingistíðindum. En fyrir þá hv. alþm., sem sitja hér í deildinni, þó fáir séu, til þess að fylgjast með umr. um þetta mál og hafa væntanlega ekki tekið járnbenta afstöðu til þess, hvernig um þetta mál var áður fjallað, hver fyrirheitin voru áður fyrr og hverjar horfurnar eru, — þeim til upplýsingar vil ég sýna þeim línurit yfir verðþróun á kísiljárni sem hæstv. fyrrv. iðnrh. sagði okkur þá, — og bar fyrir sig hina vísustu sérfræðinga sem ætíð hafa verið þeim stóriðjumönnum til ráðuneytis varðandi fyrirtæki af þessu tagi, — reyndar staðhæfði, að verðið væri svo stöðugt á og markaðurinn væri svo stöðugur fyrir. Þetta er myndin sem sýnir hinn stöðuga markað og hið stöðuga verðlag. Þessi mynd mætti verða m.a. athyglisverð fyrir hæstv. viðskrh., sem vissulega var einn í þeim fagra hópi sem samþykkti stofnun járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði með glöðustu geði á þeim tíma.

Ég vil ekki á þessum síðustu starfsklukkutímum hv. Alþingis eyða tíma í að lesa allar staðhæfingarnar um arðsemi járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði, allar tilvitnanirnar í hina fróðu sérfræðinga, sem hv. þm., stuðningsmenn málmblendiverksmiðjunnar, þ. á m. núv. hæstv. viðskrh., byggðu sínar bjartsýnu ákvarðanir á. Til þess hef ég ekki tíma. En ég kemst ekki hjá því að minna að nokkur grundvallaratriði eigi að síður í meðferð þessa máls, hvernig að því var unnið og hvernig að því var staðið og með hve miklum hroka þessu fyrirtæki var troðið upp á þjóðina, ekki einu sinni, heldur tvisvar sinnum.

Þess er fyrst að geta, að í bæði skiptin þegar frv. um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði voru lögð fram á Alþingi og um þessi frv. var fjallað hér lá það fyrir, að fólkið í hinum næstu byggðarlögum, sem ætlað var að hýsa þessa verksmiðju, var í mjög miklum vafa um ágæti fyrirtækisins. Fram komu einörð mótmæli, m.a. krafa um atkvgr., í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu meðal fólksins, samþykkt á fundi í viðurvist allra þm. kjördæmisins, nema eins að vísu, — Benedikt Gröndal, sem þá var þm, kjördæmisins, var löglega afsakaður frá því að sækja þennan fund, — en samþykkt í viðurvist allra annarra þm. kjördæmisins.l. þm. kjördæmisins flutti þessa ósk, sem samþykkt var á almennum fundi, til ríkisstj., andmælti þessari ósk hér í þessum sama sal okkar, hv. Ed., og hún var að engu höfð.

Ég vil minna á það einnig, að í því hléi, sem varð frá því samþykkt var lagafrv. um samstarf okkar við ameríska auðhringinn Union Carbide og þangað til Union Carbide hafði gefist upp á þessu máli, komist að þeirri niðurstöðu, að viðbúið væri tap af rekstri verksmiðjunnar, og keypt sig út úr samningnum við íslenska ríkið með 800 millj. kr., — í því hléi, sem varð á milli þeirrar ákvörðunar Union Carbide og þangað til samið var við Elkem-Spigerverket, hafði fólkið í Borgarfirði tekið sig til og sáð grasfræði í flagið, sem nefnt var Union Carbideflagið þar efra, eftir jarðýturnar, í þeirri fullu vissu og þeirri einlægu von að nú væri þessu auðgunarævintýri lokið og það yrði aldrei farið út í að steypa í þessum holum, sem grafnar hefðu verið, hin nýju stoð, sem hagspekingarnir, stjórnmálajöfrarnir, sem stóðu að þessu fyrirtæki á sínum tíma, höfðu heitið að þarna skyldi rísa.

Í öllum umr. um þessi tvö frv. varðandi járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði gengu forustumenn þáverandi stjórnar, stuðningsmenn þessa fyrirtækis, upp í ræðustóla beggja deilda þingsins með staðhæfingum og eiðstöfum, studdum áliti fyrrnefndra sérfræðinga, um að af þessari verksmiðju væri okkur búinn mikill hagur og engin hætta á skakkaföllum. Í öllum þeim umr. lögðum við Alþb.-menn fram upplýsingar sem við höfðum aflað okur til stuðnings þeirri skoðun okkar, að okkur væri búið tjón af þessari verksmiðju, en ekki hagur, og að svo mundi fara áður en lyki að þetta reyndist hið versta óþrifafyrirtæki, hið versta óþurftarfyrirtæki.

Það má geta þess, af því að hér er ég í vissum skilningi kominn að þeim kafla í hinni sögulegu upprifjun þar sem er byrjað að segja frá samstarfi okkar við Elkem-Spigerverket, að fyrir lágu útreikningar Þjóðhagsstofnunar, en það mál var til umr. hið síðara sinnið á útmánuðum 1977, sem sýndu fram á að ef þessi verksmiðja hefði verið rekin árið 1976 hefði tapið af rekstrinum það ár numið 850 millj. kr. eða verið 50 millj. kr. meira en nam þeirri upphæð sem Union Carbide borgaði til að losna út úr samningnum, þannig að það fyrirtæki slapp með skaða sem samsvaraði eins árs tapi af verksmiðjunni. Þrátt fyrir þessar upplýsingar getur að finna í Alþingistíðindum, í umr. forsprakkanna fyrir þessari verksmiðju, staðhæfingu eftir staðhæfingu um að hér væri verið að hleypa af stokkunum hinu arðbærasta fyrirtæki sem okkur væri búinn mikill gróði af, áhætta væri engin. Skyldi þá nokkurn furða, að jafnvel enn í dag, á þessum vetri, hafa formælendur Sjálfstfl. um stóriðju staðhæft í framsöguræðum sínum að svo bæri að halda áfram sem horfði, (Gripið fram í: Samanber kísilmálminn.) Það bæri að halda áfram sem horfði að slægjast eftir arði af samvinnu við útlendinga um orkufrekan iðnað hér á landi. Og þeir vitna berum orðum til þess gróða sem við hefðum haft af járnblendiverksmiðjunni í Hvalfirði. Hér vísa ég til ræðu hv. þm. Birgis Ísl. Gunnarssonar á haustmánuðum, sem hann hélt með till. þeirra sjálfstæðismanna um orkufrekan iðnað.

Ég vil geta þess, að í viðræðum iðnn.-manna þessarar hv. deildar við þá sérfræðinga, sem til voru kvaddir vegna máls járnblendiverksmiðjunnar, gafst ekki tími til að gagnrýna þær upplýsingar sem við höfðum fyrrum fengið frá þessum sömu aðilum og samþykktir frumvarpanna tveggja byggðust á og stofnun þessarar verksmiðju. Hitt kom aftur á móti í ljós í þeim yfirheyrslum, að síður en svo virðist vera nokkur ástæða til að setja út á tæknilega stjórn þessarar verksmiðju þarna efra. Tæknilega hliðin virðist hafa tekist mjög vel. Allt, sem að verklagi lýtur, virðist hafa heppnast ákáflega vel, og fjárfestingaráætlanir virðast hafa staðist prýðilega, - allt nema tekjuhliðin. Allar áætlanir nema þær, sem lúta að tekjum verksmiðjunnar, virðast hafa staðist.

Nú má náttúrlega segja sem svo, að sem minnisvarði um heiðarleika og visku og greindarleg vinnubrögð þeirra manna, sem stóðu að samþykkt frv. tveggja og smíði þessarar verksmiðju, getur hún staðið. (EG: Það verður náttúrlega minnisvarði um upphafsmennina). En ef við eigum jafnframt að reka hana með áframhaldandi tapi af því tagi sem hér blasir við okkur, þá kann þessi minnisvarði að halda áfram að verða okkur nokkuð dýr. — Af því að hv, þm. Eiður Guðnason leyfði sér — og ekki lasta ég hann fyrir það — að kalla fram í og minnast á upphafsmenn að þessu fyrirtæki þarna efra, þá er ég hræddur um að honum kunni að hafa verið sagt eitthvað ósatt í sambandi við það mál. Ég er hræddur um að lærifeður hans í járnblendipólitíkinni hér á Íslandi kunni að hafa geigað eitthvað frá raunveruleikanum, því ég veit gjörla hvað honum er nú í huga. Ég ráðlegg honum, vegna þess að ég veit að honum er eiginlegt að vilja segja satt, að þegja um það sem honum bjó nú í hug.

Alþfl. stóð heill og óskiptur, hver einasti þm. Alþb. greiddi atkvæði í bæði skiptin með þessu frv., og þeir gerðu á sínum tíma með álverið í Straumsvík. Ekki hygg ég að fyrir þeim hafi vakað annað en það sem þeir töldu vera hið besta. Það hvarflar ekki að mér að gefa í skyn að þeir hafi viljað annað en það besta í þessu máli. Fákænska hefur alla tíð á landi hér verið tekin sem gild skýring, en ekki afsökun fyrir stjórnmálamenn.

Enda þótt ég skilji annir núv. hæstv. forsrh., fyrrv. hæstv. iðnrh. í ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar, sem knúði þetta mál gegnum þingið á sínum tíma, þykir mér miður að hann skuli ekki geta verið við umr. nú. Enn þá skemmtilegra hefði mér þó þótt ef hæstv. núv. sjútvrh., þáv. hv. formaður iðnn. Ed., Steingrímur Hermannsson, hefði getað verið hér hjá okkur, því næst á eftir hæstv. fyrrv. iðnrh. flutti hann okkur hér mestan fróðleik um járnbentar gróðavonir af járnblendiverksmiðjunni í Hvalfirði. Ef hann hefði verið hér hefði ég jafnvel látið það eftir mér að eyða eins og 5–6 mínútum í að rifja upp kveðskap um þetta mál sem átti sér stað á kvöldfundi hér í þessari hv. deild. Í fjarveru hans er þetta þýðingarlaust. En aðeins í lok máls míns fyrir þá þm., sem hafa ímyndað sér að það skipti út af fyrir sig ekki meginmáli hver það er sem á verksmiðjur af því tagi sem reist var á Grundartanga í Hvalfirði, hvort Íslendingar hafi þar trygg yfirráð eða ekki, — fyrir þá menn, sem staðhæft hafa úr þessum ræðustól býsna stoltir af þessu fyrirtæki, réðum við, en ekki Norðmenn, við höfðum meiri hluta í þessu fyrirtæki, þá vil ég geta þess til leiðréttingar á því, sem áður hefur komið fram um þetta mál, og með tilvitnun í viðtöl, sem fram fóru í iðnn. þessarar hv. deildar við þá sérfræðinga, sem borið hafa ábyrgð á tæknilegum rekstri þar efra, að það er rangt að tap verksmiðjunnar á Grundartanga hafi stafað af raforkuskömmtun á Íslandi. Ákvörðunin um það að loka öðrum ofninum upp á Grundartanga, sem tekin var í fyrra, var tekin úti í Osló, ekki af stjórn Járnblendifélagsins, heldur Elkem-Spigerverket, 10 dögum áður en stjórnarfundurinn var haldinn í stjórn Járnblendiverksmiðjunnar hér heima til að fjalla um þetta mál. Útvarp og blöð í Noregi voru búin að tilkynna þá ákvörðun Elkem-Spigerverket vikunni áður að loka öðrum járnblendiofni sínum á Íslandi. Þessi ákvörðun var tekin hálfum mánuði áður en tekin var ákvörðun um það hjá Landsvirkjun að skammta orku til Járnblendiverksmiðjunnar og Álfélagins. Síðan komum við að því, sem að því lýtur með hvaða hætti þetta fyrirtæki græddi á orkuskömmtuninni. Með því að hætta framleiðslu þar efra með báða ofnana losnaði umsamið magn af raforku sem Járnblendiverksmiðjan átti rétt á að fá afhent frá Landsvirkjun, — þá orku keypti Járnblendiverksmiðjan sem hafði lokað vegna sölutregðu og vegna þess að verðlag var lágt á framleiðslunni, átti rétt á að kaupa frá Landsvirkjun, — þá orku keypti Járnblendiverksmiðjan frá Landsvirkjun á umsömdu verði og seldi síðan Landsvirkjun aftur með 320% álagi, á 35 kr. kwst., á þeirri forsendu að Landsvirkjun græddi verulega á því þar sem framleiðsla á raforku með dísilvélum kostaði 72 aura. Járnblendiverksmiðjan hafði a.m.k. á þeim tíma ákveðinn peningalegan hagnað af lokun.

Enn vil ég geta þess, að ég spurði stjórnarformann járnblendiverksmiðjunnar að því á fundi í iðnn. á hvaða tungumáli stjórnarfundir í Íslenska járnblendifélaginu væru haldnir, hvaða tungumál væri notað. (Gripið fram í.) Hann sagði mér að þeir færu fram á norsku. Þetta hafði mér að vísu verið sagt áður, en það var merkilegt að heyra formann stjórnarinnar í Íslenska járnblendifélaginu segja frá þessu sjálfan. Hann sagði að þetta væri gert í sparnaðarskyni. Áður höfðu sagt mér íslenskir stjórnarmenn í stjórn Járnblendifélagsins að þetta væri að vísu slæmt, vegna þess að þeir skildu ekki norsku.

Enn kem ég að því, hvers vegna ég er tilneyddur að láta við það sitja að skrifa undir álit iðnn. með fyrirvara. Ég andmæli því að vísu stranglega, sem fram kemur í grg. með frv., að það geti verið hagkvæmasti kosturinn að reka þessa verksmiðju áfram. Hér er um að ræða misbrúkun á orði. Það kynni að vera hægt að renna stoðum undir að það væri fýsilegasti kosturinn í bili. Ég fæ ekki séð að af þeim gögnum, sem lögð hafa verið fram með málinu, sé sannað að okkur sé það hagkvæmast og raunar ekki fýsilegast heldur að halda áfram rekstrinum þrátt fyrir tapið og — eins og þar segir í ríkisstj.— jafnvel þó tapið yrði enn þá meira, jafnvel út í það óendanlega. Ég legg þá spurningu fyrir hv. þm. hvort þeir geti raunverulega trúað því, að hægt sé að stofna með lögum frá Alþingi svo álappalegt fyrirtæki, svo klaufalega gert, svo hraksmánarlega uppbyggt, að við hljótum að halda áfram að reka það án tillits til þess, hvert tapið er af því. Ætla skyldum við að einhvern tíma kæmum við að þeim mörkum, að við teldum æskilegra að slá af hið ónýta fyrirtæki. Ég tel að þær athuganir, sem þessi niðurstaða nefndarinnar, undirbúningsnefndarinnar, athugunar nefndarinnar, er byggð á, þær athuganir sem fram hafi farið á því, hver kosturinn sé vænlegastur í sambandi við rekstur þessa vandræðafyrirtækis upp á Grundartanga, hafi ekki verið svo ítarlegar hreint og beint vegna þess að þar hafi ekki verið tekið inn í dæmið sá möguleiki, sem okkur býðst í því að nota þá orku sem þarna er seld, á hagkvæmari hátt til verðmætasköpunar og það vinnuafl, sem þarna er bundið í taprekstri, til framleiðslu á arðgæfri vöru. En eins og ég segi: Ég hef ekki í höndum upplýsingar sem nægðu til þess að ég gæti lagt það til að þetta frv. væri fellt, til þess að ég gæti bent á aðrar leiðir. Gjaldþrot þessa glæsilega fyrirtækis blasir við okkur með afleiðingum sem m.a. snúa að því fólki sem hefur verið bundið þarna við störf. Það er örlítið brot af sóma Íslendinga allra, en stórt brot af sóma Alþingis, sem menn hefðu betur hugað að að hugsa svolítið út í þegar þeir knúðu í gegn, ekki einu sinni, heldur tvisvar, samþykktir á lögum um járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði.