09.11.1981
Efri deild: 10. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í B-deild Alþingistíðinda. (401)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það eru orðnar allnokkrar vikur síðan þessi umr. hófst hér í deildinni. Þá gerði ég við þetta frv. nokkrar athugasemdir sem ég hafði einnig gert á s. l. vori þegar frv. kom hér til umr. á allra síðustu dögum þingsins.

Það er ekki deilt um nauðsyn þess að setja lög um starfsemi Sinfóníuhljómsveitar Íslands og miklu síður deilt um nauðsyn þeirrar ágætu stofnunar, Sinfóníuhljómsveitarinnar. Um það snýst málið alls ekki. Hins vegar er um það deilt, með hverjum hætti skuli fjármagna rekstur Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Ég vil fagna því hversu margir þm. hafa komið í þennan ræðustól og lýst stuðningi við það sjónarmið sem ég túlkaði hér þegar umr. þessa máls hófst, þ. e. að ríkissjóður beri kostnaðinn af rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar óskiptan. Það fyrirkomulag, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, að ríkissjóður greiði 56%, Ríkisútvarp 25%, borgarsjóður Reykjavíkur 18% og bæjarsjóður Seltjarnarness 1%, það er vandræðafyrirkomulag sem er gallað ekki á einn veg heldur á marga vegu. Ég fagna því, að meðal þm. í þessari hv. deild skuli vera skilningur á því, að þessu beri að breyta, m. a. létta þessum fjárhagsbagga af Ríkisútvarpinu sem sífellt er haldið í viðjum fjárhagsþrenginga og spennitreyju féleysis.

Ég held að menntmn. þessarar hv. deildar, sem fær þetta frv. til umfjöllunar, hljóti að taka til mjög gaumgæfilegrar íhugunar að flytja brtt. við frv., því að það breytast fleiri greinar en þessi ein, 3. gr., ef kostnaðurinn verður alfarið færður yfir á ríkissjóð, eins og auðvitað er langeðlilegast. Ég held að hv. menntmn. hljóti að taka það mjög til athugunar að flytja brtt. við frv. í þessa veru. Verði sú hins vegar ekki raunin, að menntmn. treysti sér til að flytja slíkar brtt., þá mun ég beita mér fyrir því við 2. umr. frv. í þessari hv. deild, að fram komi brtt. þess efnis, að rekstrarkostnaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands verði alfarið greiddur af ríkinu, vegna þess að mér heyrist það sjónarmið eiga verulegan hljómgrunn meðal þm. í þessari hv. deild.