09.11.1981
Efri deild: 10. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í B-deild Alþingistíðinda. (402)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég hef fáu við það að bæta sem ég hef sagt, neina að hvetja hv. þm. enn til að taka málið til nánari athugunar. Þær athugasemdir, sem fram hafa komið, eru svipaðar þeim sem áður hafa heyrst. Spurningin, sem menn velta fyrir sér, er hverjir skuli bera rekstrarkostnaðinn af Sinfóníuhljómsveitinni. Í raun og veru hefur lítið nýtt komið fram í því efni. Að vísu hefur heyrst hér að langsamlega eðlilegast væri að ríkið tæki algerlega á sig að reka Sinfóníuhljómsveitina. Þetta er sjónarmið sem á fullan rétt á sér, en ég tel þó hyggilegra að hv. þm. kanni það vel og rækilega, ef menn á annað borð vilja að lagareglur gildi um Sinfóníuhljómsveitina, hvort nú sé heppilegasti tíminn til að taka þetta mál upp af mikilli ákefð.

Tveir hv. þdm. hafa sérstaklega haft í huga Ríkisútvarpið í þessu sambandi og talið hina mestu óhæfu að Ríkisútvarpið stæði að hljómsveitarrekstrinum. Ég get nú ekki fallist á að þetta sé nein óhæfa. Ég veit að þeir hv. þm., sem þessu sjónarmiði hafa einkum haldið fram hér, þekkja vel til rekstrar Sinfóníuhljómsveitarinnar og upphafs hennar fyrir meira en 30 árum. Menn vita vel að það var fyrst og fremst fyrir frumkvæði Ríkisútvarpsins og ágæta framgöngu borgarstjórans í Reykjavík þáv., núv. hæstv. forsrh., og fleiri góðra manna að Sinfóníuhljómsveitin var sett á laggirnar. Þeir aðilar, sem lengst hafa haldið uppi sinfóníuhljómsveitarrekstrinum, eru borgarsjóður Reykjavíkur og Ríkisútvarpið. Það er því talsvert mikil umturnun á þessum grundvelli, sem ég vil segja að hafi náð næstum að segja sögulegri hefð, ef svo á að fara að borgarsjóður Reykjavíkur dragi sig algerlega út úr þessum rekstri og Ríkisútvarpið komi þar hvergi nærri. Hér yrði um að ræða gerbyltingu á rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar og í raun og veru alveg nýja stefnu sem ég held að tiltölulega fáir hér í hv. Alþingi mundu, þegar á reynir, verða tilbúnir að taka undir. Ég skal ekkert hafa á móti því, að menn hreyfi þessum sjónarmiðum sínum á öllum stigum meðferðar þessa máls, en ég vara samt við því að þrýsta mjög fast á um þetta efni og telja að sú skorðun, sem þeir halda fram, sé hin eina rétta.

Það gæti nefnilega svo farið. að þeim, sem halda þessu stífast fram, — á sama tíma sem þeir láta í ljós áhuga sinn á að Sinfóníuhljómsveitin starfi, hafi rekstrargrundvöll og búi við lagareglur, — þeim tækist að gera þetta mál að engu, engin lög yrðu sett um Sinfóníuhljómsveitina og allt yrði í sama farinu og verið hefur; jafnvel þótt allir þeir, sem um þetta hafa fjallað árum saman, viti hver nauðsyn er á því, að sett verði lög og fastar reglur um starfsemi Sinfóníuhljómsveitarinnar, og þeir aðilar, sem að henni standa, viti hver staðan er og hvaða rétt og skyldur menn hafa í því efni.

Þó að menn hafi fullan rétt til að koma fram með athugasemdir, þá tel ég það ekki heppilegustu málsmeðferðina að ræða málið á þessum nótum til lengdar. Ég held að það samkomulag, sem orðið hefur milli þessara fjögurra aðila og um getur í 3. gr., sé þess háttar, að það sé rétt að lögfesta það. Koma tímar og koma ráð. E. t. v. verður á þessu breyting og allir verða sammála um að eðlilegast væri að gera þetta að algeru ríkisfyrirtæki. Þá það. En ég er ekki við því búinn að styðja slíkt, og ég vænti þess, að hv. þd. taki málið fyrir eins og það liggur fyrir, geri sér grein fyrir, hvernig málið raunverulega stendur, og geri ekkert það sem verða má framgangi þess til óþurftar. Ég held nefnilega að það sé ekki praktískt að vinna þannig að því nú að losa Ríkisútvarpið út úr málinu. Ég held að það sé mjög ópraktískt og óhyggilegt að vinna þannig, ef menn á annað borð vilja lög um Sinfóníuhljómsveitina, ef menn á annað borð vilja að Sinfóníuhljómsveitin fái eðlilegan rekstrargrundvöll og tryggingu fyrir því, að hún geti starfað, sem flestir hér lýsa yfir að nauðsynlegt sé.

Um það, hvort Ríkisútvarpið beri svo mjög skarðan hlut af aðild sinni að Sinfóníuhljómsveitinni, geta satt að segja orðið nokkuð skiptar skoðanir og fer sennilega eftir því, hvernig það mál er gert upp. Ég held að menn megi ekki gleyma því, að Ríkisútvarpið eignast flutningsrétt á verkum Sinfóníuhljómsveitarinnar og hefur haft af því mjög mikil not, ekki aðeins með því að útvarpa alloft beint frá Sinfóníutónleikunum, heldur verður til margs konar efni sem geymist í fórum útvarpsins og hægt er að grípa til og nota við hvers kyns dagskrárgerð. Mjög mikið af því efni, sem Sinfóníuhljómsveitin hefur skilið eftir sig, er til í fórum útvarpsins og notað kannske daglega með ýmsum hætti og í ýmsum dagskrárþáttum. Ég treysti mér reyndar ekki til þess nú að gera þetta mál upp reikningslega, hvernig reikningar standa þar. Ég hygg þó að til séu útreikningar og hugmyndir manna um það, hvernig reikningsskil standa í viðskiptum útvarpsins og Sinfóníuhljómsveitarinnar, og ég hygg að þar komi talsvert mikið til frádráttar því sem Ríkisútvarpið leggur beint fram til rekstrarins. Þetta vil ég að komi fram og menn athugi.

En það skulu verða mín síðustu orð nú að vænta þess, að þetta mál verði áfram rætt í hv. deild og í þeirri þingnefnd sem það fær til athugunar. Það skal ekkert skorta á að nefndin fái þær upplýsingar sem fyrir hendi eru í því efni og sjálfsagt er að leggja fram, eins og það hvort ekki sé hægt að gera kostnaðaráætlun eitthvað fram í tímann eða fyrir næsta ár sem segi til um það, hver kostnaður verður við rekstur hljómsveitarinnar með þessu nýja fyrirkomulagi og hvort þar er um einhverja verulega aukningu að ræða af ríkisfé.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta, herra forseti.