28.04.1982
Neðri deild: 73. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4308 í B-deild Alþingistíðinda. (4021)

303. mál, ábyrgð á lánum til kaupa á ferjuskipi Skallagríms

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til I. um heimild fyrir ríkisstj. að veita sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á ferjuskipi Skallagríms hf. Eins og kunnugt er er núverandi skipakostur Skallagríms hf., sem rekur Akraborgina milli Reykjavíkur og Akraness, það eina skip sem smíðað er árið 1966. Skipið var keypt til landsins árið 1974, þá orðið átta ára gamalt, og hóf rekstur í júní það ár. Skipið tekur 30 bíla á bílaþilfar. Að sögn forráðamanna Skallagríms hf. hefur Akraborgin reynst vel í alla staði. Þess er þó að vænta, að aldur fari að segja til sín í auknu viðhaldi. Viðvaranir hafa fengist um ástand véla, þannig að búast má við miklum kostnaði vegna þeirra á næstunni.

Stjórn Skallagríms hf. telur ýmis veigamikil rök mæla með því, að ráðist verði í kaup á nýju og afkastameira skipi í stað Akraborgarinnar. Stjórn félagsins hefur þess vegna, með heimild síðasta aðalfundar, leitað eftir nýju hentugu skipi, en árangur hefur ekki orðið fyrr en nú í vetur, í marsmánuði s.l. að skip fannst sem mjög vel er talið henta til þessara flutninga og er öllum þeim kostum búið sem óskað var og leitað eftir.

Aldur Akraborgarinnar vegur þungt í þessu máli, þannig að óumflýjanlegt er talið að taka ákvörðun um það á næstunni, hver skuli vera framtíð skipaferju milli Akraness og Reykjavíkur. Núverandi Akraborg er talin að mörgu leyti óhentug til þessara flutninga. Hún lætur ekki sem best í sjó og ekki síst er flutningsgeta skipsins ekki nægjanleg miðað við stærð og kostnað við úthald.

Hinn 7. apríl s.l. gerði formaður stjórnar Skallagríms hf. bráðabirgðakaupsamning um skipið Betancuria. Samningurinn er háður samþykki íslenskra stjórnvalda bæði um kaup og fjármögnun. Kaupverð skipsins er 2.9 millj. bandaríkjadollara eða nálægt 29 millj. ísl. kr.

Frv. það, sem hér er á ferðinni, gerir ráð fyrir heimild ríkisstj. til að veita sjálfskuldarábyrgð fyrir láni allt að 80% af kaupverði hins nýja skips. En það er sú hámarksregla sem er í ríkisábyrgðalögum og er viðtekin venja að miða við.

Rétt er að vekja á því athygli, að afgerandi er að málið verði afgreitt á yfirstandandi þingi. Kaupsamningurinn fellur úr gildi sex vikum eftir 7. apríl og hefur fyrirtækið þá og allir, sem við það skipta, misst af þeim möguleika sem hér gefst til að endurnýja farkost félagsins og koma flutningum þess í nýtískulegt horf sem svarar kröfum tímans um allan aðbúnað og þægindi.

Eins og fram kemur í grg. með frv. var skuld Skallagríms hf. við ríkisábyrgðasjóð um s.l. áramót 12.8 millj. kr. og eru þá meðtaldir allir dráttarvextir. Þá hefur verið tekið tillit til innborgana félagsins á rekstrartíma Akraborgar, samtals 2.6 millj. kr. Í fjárlögum yfirstandandi árs er sérstakt heimildarákvæði fyrir fjmrh. til að semja við Skallagrím hf. um vanskil fyrirtækisins hjá ríkisábyrgðasjóði og eru viðræður í fullum gangi um það mál.

Herra forseti. Ég vil að öðru leyti vísa til þeirra upplýsinga sem eru í grg. með þessu frv., en leyfi mér að leggja til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn.