28.04.1982
Neðri deild: 73. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4309 í B-deild Alþingistíðinda. (4027)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forseta fyrir að gefa mér tækifæri til þess að tala hér utan dagskrár. Ég vona að ég gefi ekki tilefni til langra umræðu. Ástæðan fyrir því, að ég hef óskað eftir að fá að tala utan dagskrár, er sú, að eins og hv. þdm. er kunnugt liggur nú fyrir að þinglausnir verði innan örfárra daga og við höfum orðið vitni að því, að fjölda stórmála hefur af hálfu hæstv. ríkisstj. verið fleygt hér inn í þingið á síðustu dögum og til þess ætlast að þm. afgreiði þau á tiltölulega stuttum tíma. Eitt er það mál, sem hvað mest hefur þó verið í umræðu hér á Alþingi á þessum vetri, en ekki örlar á að eigi neina lausn að fá. Það er hinn margumtalaði ójöfnuður í sambandi við orkuverðið.

Þetta mál hefur verið mjög í umræðu, ekki bara hér, heldur og almennt í þjóðfélaginu, og ég hygg að almennt séu menn orðnir um það sáttir, að ekki verði vikist undan því að gera ráðstafanir til þess að jafna orkuverð í landinu með hliðsjón af því, að það eru slíkir baggar, sem nokkur hluti þjóðarinnar ber vegna gífurlega hás orkuverðs, að við slíkt verður ekki unað. Hér er á ferðinni eitt brýnasta verkefni í byggðamálum eins og mál standa í dag. Haldi fram sem horfir leiðir þetta ástand til gífurlegrar byggðaröskunar, líklega meiri byggðaröskunar en dæmi eru til áður.

Ég er einn af þeim sem finnst hæstv. ríkisstj. vera hægfara í því að leiðrétta þann mismun sem hér er um að ræða. Það hefur oft verið vitnað til þess, að í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstj. er vikið að þessu með örfáum orðum. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Unnið verði að verðjöfnun á orku, ekki síst á sviði húshitunar.“ Nú eru liðin rúmlega tvö ár síðan hæstv. ríkisstj. tók við völdum og maður skyldi ætla, eftir allar þær umræður og allar þær tillögur og öll þau frv. og allar þær leiðir sem bent hefur verið á til þess að jafna hér um, að orðið væri tímabært að taka ákvörðun.

Það er rétt að minna á að fyrir því þingi, sem nú er að ljúka, liggja þrjú lagafrv. sem öll fela í sér ábendingar og tillögur um leiðir til jöfnunar, að vísu með mismunandi hætti, en allt eru það tillögur sem horfa til hins betra. Þessi frv. hafa enn ekki fengið afgreiðslu í þinginu, og ekkert bendir til þess, að ég best veit, að stjórnarsinnar hér á Alþingi, meiri hlutinn hér á Alþingi, ætli að hleypa þessum frv. í gegnum þingið eða ljá því lið, að það verði að veruleika einhver leið, sem þau benda á, til þess að jafna hér um. Einnig hefur verið starfandi á vegum Alþingis nefnd sem átti að athuga þessi mál og gera um þau tillögur, og ég veit ekki betur en að sú nefnd hafi nú lokið störfum. Það er því ástæða til að spyrjast fyrir um það, hvort alþingismenn fái ekki niðurstöður í tillögum þessarar nefndar til umfjöllunar áður en Alþingi verður sent heim.

Ég minni einnig á í þessu sambandi að það liggja fyrir tvær yfirlýsingar frá hæstv. forsrh. um þetta mál, sem gefnar hafa verið í tengslum við lausn kjaradeilu á Vestfjörðum á s.l. vetri og ég skoða sem fyrirheit um að hæstv. ríkisstj. ætli sér að breyta hér til og ætli að leggja fram tillögur til jöfnunar í þessum þætti mála. Enn hefur afskaplega lítið gerst að því er þetta varðar.

Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh. hvort það sé í raun og veru ætlun hæstv. ríkisstj. eða hæstv. forsrh., að Alþingi ljúki störfum án þess að nokkuð sé gert til jöfnunar á orkuverði landsmanna.

Það er ekki vansalaust, það er að mínu viti ábyrgðarleysi af Alþingi ef það lýkur störfum án þess að afgreiða þetta mál fyrir þinglok. Ég er alveg viss um að ég mæli þar fyrir munn alls þess fólks sem býr við orkuokur, sem ég vil kalla, í sambandi við upphitun síns húsnæðis. Það er krafa þessa fólks að til úrbóta verði gripið, — það er krafa þessa fólks til þm. sinna víðs vegar að af landinu, sem eru frá þeim landshlutum sem eiga í þessum erfiðleikum, — það er krafa þess fólks, að hér verði tafarlaust fundin lausn á. Það er raunar algert ábyrgðarleysi og verður að taka sérstaklega fram, að ef það gerist nú einu sinni enn, að Alþingi lýkur störfum án þess að taka á þessu vandamáli, þá er það slíkt hnefahögg í andlit þess fólks, sem við þetta býr, að slíks munu fá ef nokkur dæmi á öðrum sviðum.

Ástæðan fyrir því, að ég kvaddi mér hljóðs hér utan dagskrár, er fyrst og fremst sú, að ég tel þetta svo stórt mál að það sé gersamlega útilokað að bjóða þessu fólki það áfram, að Alþingi taki ekki á þessu vandamáli og leysi það. Mín spurning til hæstv. forsrh. er einmitt um það, hvort ekki muni verða lagðar hér fram af hálfu hæstv. ríkisstj. tillögur til úrbóta og jöfnunar á orkuverði áður en Alþingi hættir störfum.